17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., að hann vildi stefna að því með flutningi þessarar till. að gefa ábúendum þjóðjarða og kirkjujarða kost á að fá þær keyptar fyrir fasteignamatsverð án þess að gera þær um leið að ættaróðali. Hins vegar sagði 2. flm. till. í sinni ræðu, hv. þm. A-Húnv., að því er mér skildist, að hann hefði ekkert við það að athuga, þótt skilyrði væri sett um, að jörð, sem ríkið selur, væri um leið gerð að ættaróðali. Mér finnst nú af þessu, að þarna séu nokkuð mismunandi sjónarmið hjá flm. og þeir hefðu nú átt að bera ráð sín betur saman, áður en þeir fóru að flytja till., og átta sig á því sjálfir, að hverju er stefnt með flutningi hennar. Það virðist alls ekki ljóst eftir þessum skýringum þeirra tveggja flm.

Hv. þm. A-Húnv. segir, að ákvæði l. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða gildi aðeins um þær jarðir, sem séu á erfðaleigu. Ég hef áður bent á það, að allir ábúendur þjóðjarða og kirkjujarða eiga rétt á því, hvenær sem þeir vilja, að fá jarðirnar byggðar á erfðaleigu. Og þegar þeir hafa fengið þær byggðar samkv. þeim reglum, geta þeir einnig samkv. l. keypt jarðirnar með þessum ákveðnu skilyrðum, sem oft hafa verið nefnd. Þetta gildir þó að sjálfsögðu ekki um jarðir, sem eru ætlaðar til opinberra nota, eða t. d. jarðir, þar sem embættismenn ríkisins sitja; það eru sérákvæði um þær að sjálfsögðu, enda geri ég nú tæplega ráð fyrir því, að nokkur flm. ætlist til þess, að ríkið fari að selja þær jarðir.

Hv. þm. A-Húnv. segir, að jarðir í eigu þess opinbera séu yfirleitt miklu verr setnar, en jarðir í einkaeign. Ég veit ekki, hvort það er nú hægt að segja um þetta með nokkurri vissu. Ég þekki að minnsta kosti mörg dæmi þess, að það er engu verr búið á jörðum í opinberri eign en jörðum, sem eru í einkaeign. Mér er kunnugt um það, og má áreiðanlega benda á slík dæmi.

Þeir tala um það, flm. till., að það sé erfitt fyrir menn, sem búa á ríkisjörðum, ef þeir fái þær ekki keyptar, því að ríkið byggi ekki upp á þessum jörðum, og tala mjög um, að ríkið vanræki skyldur sínar í þessum efnum. Ef ég man rétt, þá eru nú ákvæði í l. um ættaróðal og erfðaábúð um það, að fyrirmæli ábúðarl. um skyldu landsdrottins til þess að byggja hús á jörð, sem hann á í leiguábúð, gildi ekki um þær jarðir ríkisins, sem leigðar séu á erfðafestu, og er þá vitanlega ekki um vanrækslu að því leyti að ræða hjá því opinbera eða brot á neinum lögum.

Ég vil út af þessu tali þeirra einnig benda á það, að samkv. l., sem sett voru árið 1950, er ábúendum ríkisjarða heimilt að taka lán í Ræktunarsjóði og Byggingarsjóði Búnaðarbankans til umbóta á þessum jörðum gegn veði í þeim. Ég hef ekki orðið var við, að það hafi neitt staðið á því, síðan þessi l. voru sett, að fá veðleyfi hjá ríkinu til þess að taka slík lán út á þessar jarðir. Og mér er einmitt kunnugt um það. Ég þekki menn, sem búa í ríkisjörðum og hafa gert þar miklar umbætur síðustu árin og fengið til þeirra slík lán og heimild til veðsetningar á jörðunum til tryggingar lánunum.

Ég fæ því ekki séð, að í þeim skýringum, sem fram hafa komið af hálfu flm. till., sem eru nú, eins og ég gat um, nokkuð ósamhljóða að sumu leyti, hafi neitt komið fram, sem bendi til þess, að slík till. eigi rétt á sér. Það er í l., eins og ég hef margbent á, heimild handa þessum ábúendum ríkisjarðanna til að fá þær keyptar með vissum skilyrðum, sem eru þess eðlis, að ég tel alveg sjálfsagt, að slík skilyrði séu sett. Verði nú horfið að því ráði, eins og mér virtist helzt að hv. 1. flm. till., 2. þm. Rang., teldi að ætti að gera, að gefa ábúendum þessara jarða kost á að fá þær keyptar fyrir fasteignamatsverð, án þess að fylgt sé fyrirmælum núgildandi l., t. d. um það, að þeir geri þær um leið að ættaróðulum, þá sjá allir, að hverju er stefnt með slíkt. Þá er það mjög auðvelt fyrir mann, sem býr á slíkri jörð, væri farinn að þreytast á búskapnum og vildi gjarnan breyta til, að kaupa jörðina af ríkinu fyrir mjög lágt verð og selja hana næsta dag fyrir margfalt verð, eins og í mörgum tilfellum væri hægt að gera, og fara með jarðarverðið e. t. v. burt úr sveitinni, en láta hinn nýja kaupanda fást við það á næstu árum og áratugum að borga jörðina háu verði, sem mundi, alveg eins og hv. 2. þm. Rang. tók réttilega fram, verða honum fjötur um fót og hindra hann í því að gera nauðsynlega umbætur á jörðinni.

Menn tala um það, að þessi till. fari sennilega til n. og fái nánari athugun þar. Ég sé ekki, að það hafi neitt komið fram, hvorki í till. sjálfri né í ræðum flm., sem bendi til þess, að hún eigi nokkurt erindi til n. eða yfirleitt sé ástæða til að taka hana til frekari meðferðar. Eðlilegast væri, að flm. tækju hana aftur nú þegar. Ég sé ekki, að þetta mál eigi erindi inn í þingið.