17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2716)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Skúli Guðmundsson:

Ekki veit ég, hvar hv. þm. A-Húnv. hefur fengið þá vitneskju, að ég vildi láta ríkið eiga allar jarðir. Ég veit ekki til, að ég hafi lýst því yfir, hvorki nú né fyrr. Hann segir, að það sé og hafi lengi verið deila um það, hvort heppilegra væri, að jarðir séu í einkaeign eða í opinberri eign, og það er rétt, það eru mismunandi skoðanir á því. En er það nokkuð óheilbrigt að leyfa mönnum sjálfum að ráða því, hvort þeir kaupa sínar ábúðarjarðir eða fá þær á erfðaleigu hjá ríkinu, ef þeir eiga þess kost? Mér finnst það einmitt mjög heilbrigt og skynsamlegt að hafa þann hátt á, og þannig er þetta núna. Ábúendur ríkisjarða geta ráðið því, hvort þeir búa áfram á jörðunum sem leiguliðar eða þeir fá þær keyptar með vissum skilyrðum. Þetta finnst mér ósköp heilbrigt og eðlilegt.

Hv. þm. A-Húnv. heldur því fram mjög ákveðið, að þær jarðir, sem eru í leiguábúð, séu miklu verr setnar en hinar. Ég veit ekki til, að það hafi verið gerðar skýrslur um þetta, og meðan svo er ekki, er ekkert hægt um þetta að fullyrða. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið rannsakað til hlítar, hvernig ástand jarða er í hvorum flokki fyrir sig.

Hv. þm. A-Húnv. sagði nú í ræðu sinni, að menn gætu ekki fengið jarðir á erfðaleigu. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá honum, því að l. kveða alveg skýrt á um það, að ábúendur þjóðjarða og kirkjujarða geti hvenær sem er fengið jarðirnar byggðar samkvæmt þeim reglum, þ. e. a. s., það eru undanþegnar því ákvæði nokkrar jarðir, embættismannabústaðir og aðrar jarðir, sem ætlaðar eru til opinberra nota eða talið er líklegt, að það opinbera þurfi til sinna nota. Engin önnur undantekning er frá þessu ákvæði, og menn eiga á því skýlausa, lagalega kröfu að fá jarðirnar byggðar á erfðaleigu.

Hv. þm. A-Húnv. sagði einnig nú í sinni síðari ræðu, að hann teldi það vel hægt fyrir menn, sem búa á ríkisjörðum og fá þær keyptar, að ganga að því skilyrði að gera þær að ættaróðali. Hann lýsti því yfir. En þá er um leið burt fallinn allur grundvöllur undan þessari till., a. m. k. fer það þá að verða alveg óskiljanlegt, hvers vegna hann gerist flm.till., því að það er óumdeilanlegt, að menn hafa þennan rétt núna, að fá þær keyptar með þessu skilyrði. Till. er því algerlega út í bláinn. Hv. þm. A-Húnv. hefði alveg eins getað flutt hér till. um það að fela ríkisstj. að hlutast til um, að hann mætti áfram eiga heimili norður við Húnavatn, eins og hann hefur átt undanfarið.