17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Við þrír alþm. höfum flutt þessa till., sem hér hafa spunnizt töluverðar umræður um, og er ég mjög undrandi yfir afstöðu hv. þm. V-Húnv. (SkG) til þessa máls.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V-Húnv. sé það ljóst, að meginþorri allra bænda á Íslandi óskar helzt að vera eigendur sinna jarða. Ég geri ráð fyrir, að þessi hv. þm. sé það kunnugur bændastéttinni, að hann viti um þennan hugsunarhátt. Að við, þessir þrír þm. höfum flutt þessa þáltill., er fyrst og fremst vegna þess, að það er fjöldi jarða í ábúð á Íslandi, sem ekki eru byggðar samkvæmt l. um ættaróðal og erfðaábúð., og fjöldamargar þessara jarða eru þannig settar í dag hvað byggingar snertir, að það er lítt gerandi fyrir þá menn, sem hafa þær í ábúð, að vera á þeim lengur. Eins og hv. þm. V-Húnv. veit, geta þeir því aðeins fengið jarðirnar keyptar og gert þær að ættaróðali, að fá þær fyrst í erfðaábúð og síðan bíða í þrjú ár, þangað til þeir geta orðið eigendur jarðanna. Það er einmitt vegna þess ákvæðis, sem a. m. k. ég hef haft það í huga, að bændum væri gefinn kostur á að kaupa bæði þjóð- og kirkjujarðir, sem þeir eru ábúendur á og eru jafnilla á vegi staddar, margar hverjar, eins og raun ber vitni, í sambandi við húsakost.

Ég tel það miður þinglegt, eins og kom fram í ræðu hv. þm. V-Húnv., að segja, að þetta sé það ómerkilegt mál, að það eigi að vísa því frá, það eigi að fella það frá því að fara til n. Mér finnst hann gerast þar harla strangur og óréttlátur dómari um þessa þáltill. Ég vil eindregið taka undir mál meðflm. minna um það, að þessari till. verði vísað til n. og hún fái þar eðlilega afgreiðslu.