06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

215. mál, Hótel Borg

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég býst við, að örlög þessa máls hafi verið ráðin í gær, þegar neitað var hér um afbrigði. Er það ekki oft, sem það kemur fyrir, að neitun um afbrigði hafi beinlínis úrslitaáhrif á mál, og er mjög sjaldan beitt og mælist því misjafnlega fyrir.

Með þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, leggjum við hv. 1. þm. Rang. til, að Alþingi skori á ríkisstj. að leita samninga við eiganda Hótel Borgar um áframhaldandi rekstur hótelsins.

Þegar þessari till. var neitað um afbrigði í gær, nefndi einn af þeim hv. þm., sem að því stóðu, það sem ástæðu, að engin grg. fylgdi till. Þetta er ekki rétt. Grg. fylgir till., og þótt hún sé fáorð, þá tekur hún þó fram það, sem er mergur þessa máls. Veitingasölunum á Hótel Borg hefur þegar verið lokað, og til stendur að loka einnig gistihúsinu þar. Við flm. álitum, að þegar þannig er búið að loka að fullu aðalhóteli höfuðstaðarins og landsins alls, þá muni skapast óviðunandi ástand, og því leggjum við til, að skorað sé á ríkisstj. að leita samninga um áframhaldandi rekstur hótelsins. — Þetta stendur í grg. till. og þetta eru fullnægjandi rök, sem ekki verða hrakin. Ég skal þó bæta við nokkrum orðum og reyna að hafa þau svo fá sem kostur er.

Það er oft talað um, að Ísland ætti að geta orðið ferðamannaland og þjóðin ætti að hafa tekjur af því eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa, t. d. Norðmenn, Svisslendingar o. fl. Halda menn nú, að leiðin til þess að laða gesti hingað, sé að loka einu af þeim sárafáu veitinga- og gistihúsum í landinu, sem boðleg geta talizt, og áreiðanlega því eina í höfuðstað landsins? En látum nú vera, þótt ekki sé hugsað fyrir skemmtiferðafólki, að sjá því fyrir móttöku. Hingað koma margir aðrir útlendingar í ýmsum erindum, sumum nauðsynlegum, þ. á m. gestir sjálfrar hæstv. ríkisstj. Mig langar nú til að spyrja, því að auðséð er, að fyrir aðgerðir Alþingis verður ekkert gert í þessu máli framar: Hvað ætlar ríkisstj. að gera við þessa gesti, þegar búið er að loka Hótel Borg?

En það eru ekki einasta útlendingar, sem hér er um að ræða, heldur einnig fólk utan af landi, sem kemur til Reykjavíkur. Hvað á það fólk að gera við sig, þegar algerlega er búið að loka gistihúsinu á Hótel Borg?

Samkvæmt lögum frá 1942 ber ríkisstj. að sjá þingmönnum, sem heima eiga utan Reykjavíkur, fyrir bústað yfir þingtímann, og hún á samkvæmt sömu lögum að koma upp húsi eða kaupa hús í því skyni. Þetta hefur hver ríkisstj. á fætur annarri látið undir höfuð leggjast þrátt fyrir áskoranir Alþ., sem gerðar hafa verið oftar en einu sinni, og heimildir, sem líka oftar en einu sinni hafa verið veittar í fjárlögunum, heldur hefur ríkisstj. horfið að því ráði að útvega mörgum af þessum þm. húsnæði á Hótel Borg yfir þingtímann. Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita, hvað ríkisstj. ætlast fyrir í þessum efnum, þegar búið er að loka hótelinu. Kannske hún ætli að hefjast handa um það, sem hún átti að vera búin að fyrir löngu, að koma upp þingmannabústað?

Eitt atriði er í þessu máli, sem e. t. v. þykir aukaatriði, en ég skal þó nefna, og það er að vegna þess að Hótel Borg hefur að mestu verið lokað og vegna þess að mjög hefur dregið úr rekstri annarra veitingahúsa hér í bænum vegna sömu aðgerða, þá hefur eitthvað upp undir 100 manns af þjónustufólki hótela orðið skyndilega atvinnulaust. Þetta þykir kannske ekki mikils virði, en þetta eru þó menn alveg eins og við hér innl. fólk, sem hefur stundað þessi störf árum saman, það á ekki kannske alveg hægt með á næsta degi eða næstu viku að fá sér allt annað og óskylt starf.

Fyrir nokkrum árum voru sett lög um það, að ríkið tæki þátt í að byggja nýtt hótel í félagi við Eimskipafélag Íslands og fleiri aðila, sem áætlað var þá að kostaði 15 millj. kr., sem mundi svara líklega til þess nú að áætla það 30 millj. eða eitthvað um það bil. Þá þótti þörf á því að byggja slíkt hótel við hliðina svo að segja á Hótel Borg. Hvernig má það nú vera, ef nokkur þörf hefur verið á slíku hóteli þá, að nú sé fært að loka þessu aðalhóteli landsins og ekkert komi í staðinn? Mér er nær að halda, að sumir af þeim hv. þm., sem felldu það í gær, að leyfð væru afbrigði fyrir þessu máli, hafi samþykkt lögin um þá hótelbyggingu.

Ég held, að ég hafi nú í mjög stuttu máli fært nægileg rök fyrir því, sem í grg. till. stendur, að ekki sé hægt að komast af án þess, að þetta gisti- og veitingahús, Hótel Borg, haldi áfram rekstri, og að full ástæða sé því til að skora á ríkisstj. að skerast í leikinn.

Það mætti spyrja, hvort Hótel Borg gæti ekki haldið áfram rekstri án aðgerða frá Alþingi eða ríkisstj. Ekki lítur eigandi hótelsins svo á. Ég hef dálítið kynnt mér rekstur hótelsins og sérstaklega samanburð á rekstri þess þá 15 daga, sem hótelið var rekið eftir áramótin, og tilsvarandi 15 daga í fyrra, og ég hef séð þann feikilega mun, sem á því er, og einstakur maður verður tæplega skyldaður til þess að reka eitt eða annað fyrirtæki með stórtjóni fyrir sjálfan sig og óvist þá, hvað hans efni entust lengi til þess, þannig að slíkt væri mögulegt.

Ég sá það í blöðum í morgun, að þessi till. okkar tvímenninganna var talin loðin að því leyti, að við segðum ekkert, hvað ríkisstj. ætti að gera til þess, að rekstur Hótel Borgar gæti haldið áfram.

Ég tel, að það séu ýmsar leiðir til þess að koma því til leiðar. Auðvitað er ein beinust, það skal ég játa. Það er öllum vitanlegt, að Hótel Borg hætti rekstri sökum þess, að það var um áramótin svipt réttindum, sem það hefur haft frá upphafi og ég hef heimildir fyrir, að þáverandi ráðh., sem hafði með það að gera, ætlaðist til að héldust, nema hótelið bryti eitthvað af sér ellegar áfengisbann yrði sett hér í landinu.

Beinasta leiðin til þess að kippa þessu í lag er auðvitað sú að nema burt orsökina til þess, að Hótel Borg var lokað, sem sé að veita hótelinu sömu réttindi og það hafði fyrir áramót.

Ég veit nú, að ýmsum hv. þm. mun þykja þetta hneykslanleg; orð og hneykslanleg hugsun. En ég hef ekki orðið var við það, meðan ekkert var að gert í þessu máli og Hótel Borg hafði sín réttindi, að till. kæmu mikið fram um það hér í Alþ. að afnema þau, svo að ég sé ekki, að ástandið yrði neitt verra í því efni en áður var. Ég sé ekki neitt við það að athuga, þótt lögum landsins sé framfylgt, og lög landsins eru þau nú í dag, að það er fullkomin heimild til þess að veita einu veitingahúsi og allir vita, að með þeim orðum er átt við Hótel Borg — rétt til vínveitinga, auk þess sem núverandi lög landsins heimila einnig, að undir vissum kringumstæðum sé félögum veitt leyfi til að hafa vín um hönd á veitingahúsum.

Ef það væri nú sannað og víst, að þessar aðgerðir, að loka fyrir vínveitingar á Hótel Borg og afnema aðrar vínveitingar við sérstök tækifæri, drægju úr drykkjuskap til muna, þá væri auðvitað öðru máli að gegna, því að það skal ég viðurkenna með öðrum, sem eru áhugamenn á því sviði, að drykkjuskapur er að sjálfsögðu böl. En það fer tvennum sögum um það, hvort drykkjuskapur á samkvæmum hefur minnkað síðan á áramótum eða ekki. Sumir segja, að hann hafi vaxið. Sumir segja, að hann hafi minnkað. Ég hygg, að skynsamlegast sé að taka þarna meðaltalið og telja, að hann muni vera mjög svipaður og áður var, því að það er óhætt að nefna það hér, sem öllum er vitanlegt og lögreglunni líka, að fólk hefur með sér áfengi á samkvæmi, þegar þar eru ekki opinberar vínveitingar. Meðan áfengisútsala er í landinu og öllum frjálst að kaupa það, drekkur það í laumi á a. m. k. fremur óviðfelldnari hátt, en ef áfengi er þó veitt á sjálfu hótelinu.

Ég skal játa það, og þess vegna er till. orðuð eins og hún er orðuð, að þótt ég bendi hér á beinustu leiðina og sjálfsagt auðveldustu fyrir hæstv. ríkisstj., þá kunna að vera til fleiri leiðir til þess að fá Hótel Borg til þess að halda áfram starfrækslu sinni, og ég tala þar af nokkurri reynslu, því að til stóð að loka algerlega hótelinu 15. jan., ef ég man rétt, en hæstv. forsrh. tókst með samningum við hóteleigandann að fá því til leiðar komið, að gistihúsinu var haldið áfram, þó að það eigi að fara að loka því nú, og það án þess, að nokkur hlunnindi vegna víns væru nefnd í því sambandi eða kæmu til greina. Þannig getur það vel verið, að einhverjar leiðir finnist í gegnum einhver hlunnindi, sem hægt væri að veita, önnur en þetta.

Ég vil segja það, að ég mundi gjarnan vilja samþykkja víðtækari till. um það, að áfengislögin væru framkvæmd eins og til er ætlazt og til var ætlazt, þegar þau voru sett. Ég sé ekki, að neitt hafi skeð, sem útheimtir það, að þau séu framkvæmd á annan hátt en þau sjálf gefa tilefni til. — Hefðu þingslit ekki staðið fyrir dyrum nú innan lítils tíma, þá mundi ég að sjálfsögðu hafa stungið upp á því, að þessu máli væri vísað til n., en það vitanlega þýðir ekki, það mundi ekkert álit koma frá þeirri n. Og jafnvel þó að málinu verði ekki vísað til n., sýnist mér það á svip sumra manna hér og einnig á því, hve mikið var klappað í borðið, þegar ég hóf mál mitt, að mönnum endist örendið þangað til fundartíma er hér lokið, en ég tel það illa farið og alvarlegt mál. En hvernig sem fer um þetta, þá vildi ég nú gjarnan heyra það frá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér að ráða fram úr þeim atriðum, sem ég hér sérstaklega spurði um, þegar búið er að loka Hótel Borg og sennilega taka húsið til allt annarra nota heldur en nú.