06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (2734)

215. mál, Hótel Borg

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. gat þess, að það hefði riðið þessu máli að fullu, að hv. Alþ. vildi ekki veita afbrigði í gær fyrir því, að málið mætti þá koma fyrir. Ég vil strax taka það fram hér, að afstaða mín til þeirrar atkvgr. var engan veginn bundin við lífsskoðun mína í sambandi við vínnautn, því að þetta mál hefur miklu fleiri hliðar, en þá einu. Hér er um svo umfangsmikið mál og áhrifaríkt að ræða, að furðu sætir yfirleitt, að forseti skyldi hafa ákveðið, að aðeins ein umr. skyldi fara fram. um þáltill. Ég skal að vísu viðurkenna þegar í upphafi, að það var á valdi hv. alþm., bæði mínu og annarra, að mótmæla þeirri meðferð málsins, sem hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt. En satt að segja kom mér það ekki til hugar, að jafnágætan mann eins og hæstv. forseta skyldi dreyma um það að ætla að láta taka þetta mál til umr., hann væri aðeins að sýna okkar ágæta hæstv. forseta Ed. eðlilega samúð með því að ákveða umræður um þá till., sem hann hefði borið fram. En að ætla sér að knýja þetta mál fram með einni umr. nefndarlaust á síðasta degi þingsins — (Forseti: Hver segir það?) Ja, hæstv. forseti tók tvo fundi til þess að koma málinu fram, og það kom mönnum víst mjög óvænt yfirleitt, að síðasti fundurinn yrði settur til þess að taka málið á dagskrá, og hann leitaði afbrigða fyrir málinu einmitt til þess að geta látið ræða málið þá.

Ég skal nú leyfa mér að benda hér nokkuð á, hvert stefnir um þetta mál, alveg burt séð frá þeim þættinum, sem snýr að áfengisnautninni. Við skulum hugsa okkur, að það væri farið inn á þá leið að samþykkja einhver fríðindi til hótelrekstrarins. Mér er ókunnugt um, að það hafi komið frá nokkrum aðila, sem stendur að rekstrinum, neitt erindi til Alþingis um það, að þess sé fjárhagsleg þörf. En segjum svo, að það sé gert í gegnum þá aðila, sem nú bera fram þáltill. Þá liggur ekkert fyrir um það, hvorki í grg. né kom fram heldur í ræðu hv. flm., hvað þetta kosti ríkissjóð í fjármunum og ekki heldur hvort hægt sé að stöðva sig á þeirri braut, sem farið er hér inn á. Ég tel nú, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið nóg af þeirri reynslu, sem fékkst við það, að nokkuð stórir og margir félagshópar hópuðu sig saman hér fyrir áramótin til þess að stöðva allt atvinnulíf í landinu og til þess að sveigja vilja Alþ. inn á breytingu á löggjöf á mörgum sviðum, sem var alveg óverjandi að þurfa að gera með samningi. Ég er ekki að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það, en ég segi, að hún hafi fengið nóg af því að verða af því ástandi neydd til þess að gera mjög víðtækar breyt. á sumum hverjum allra viðkvæmustu lögum landsins og það án þess að leyfa um það eðlilegar umr., eðlilegar breytingar og eðlilega meðferð málsins, þó að ekki sé einnig nú bætt við að leyfa einstökum atvinnurekanda að fara í fótspor þeirra manna, sem hér tróðu slóðina, því að það er vitanlega það, sem verið er að gera. Það er verið að mæta hótunum eins manns um að stöðva ákveðinn atvinnurekstur, sem hann einn stendur að. Ég álít, að sú braut sé svo hroðaleg fyrir Alþ. að fara inn á, að það þurfi sannarlega tvær umr. um þá till., sem fer inn á þá braut og markar það spor. Og það var það, sem gerði, að ég andmælti því, að farið væri með málið í gær eins og ætlazt var til. Ég veit ekkert um, hvaða fríðindi hv. flutningsmenn ætla sér að séu látin af hendi til þess að tryggja rekstur Hótel Borgar. En hitt veit ég, að ef nokkur fríðindi eru látin af hendi til þess að halda þessum rekstri áfram, þá koma og hljóta að koma ákaflega margar kröfur frá öðrum aðilum, sem einnig standa illa í baráttunni í sambandi við gistihúsarekstur í landinu.

Mér er vel kunnugt um sem formaður Þingvallanefndar, að það hafa komið þráfaldlega kröfur frá eigendum Valhallar um að krefjast þess, að annaðhvort fengju þeir víðtæka aðstoð frá því opinbera til þess að geta haldið áfram sumarhótelrekstri á Þingvöllum, sem er kannske engu minna atriði í landinu heldur en ársrekstur Hótel Borgar og sannarlega engu minna atriði fyrir að skapa hér ferðamannaland, eins og hv. fyrri flm. minntist á. Þegar Þingvallanefnd hefur ekki viljað sinna þessu máli, vegna þess að hún hefur meðal annars ekki til þess neitt fé, þá hafa komið margvíslegar hótanir frá þessum mönnum að stöðva reksturinn. Þingvallanefnd hefur aldrei dottið í hug að fara að fara til Alþingis með þáltill. til þess að krefjast þess, að samið væri við þessa aðila um áframhaldandi rekstur á sumarhótelinu Valhöll á Þingvöllum. Þingvallanefndinni er það vel kunnugt, að slíkt hlyti ekki einasta að kosta allmikið fé úr ríkissjóði, heldur hlyti það einnig að skapa slíkt fordæmi, að ekki væri hægt að stöðva kröfur frá öðrum aðilum.

Mér er meðal annars kunnugt um og sjálfsagt mörgum hv. þm., að hópar af hóteleigendum í landinu og þeim mönnum, sem reka matsölu, krefjast þess frá ári til árs, að afnuminn sé veitingaskatturinn. Mér er meira að segja kunnugt um, að það hefur verið mjög mikið fylgi fyrir því hér í Alþ., en það hefur ekki verið gert, eingöngu vegna þess, að hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til þess að missa þessar tekjur, eftir að búið var að binda þá pinkla upp á ríkissjóðinn, sem voru samfara lausn vinnudeilunnar nú rétt fyrir áramótin. Ef það hefði ekki verið, eru mjög mikil líkindi til þess, að mætt hefði verið einmitt þessum óskum frá öllum þeim mönnum í landinu, sem reka gistihús eða veitingastaði. En hvernig haldið þið, að hægt verði að standa á móti till. og kröfum frá þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, ef ríkisstj. sjálf og Alþ. hafa forgöngu um það að semja um áframhaldandi rekstur á Hótel Borg? Mér er alveg nákvæmlega sama, í hvaða mynd fríðindin verða gefin, hvort heldur þau verða gefin í beinu fjárframlagi frá ríkissjóði, í afnámi á veitingaskatti eða hvoru tveggja eða í áframhaldandi vínveitingaleyfi, þá er grundvöllurinn fallinn undan því að standa á móti kröfunum frá hinum öðrum veitingastöðum víðs vegar á landinu og þá fyrst og fremst frá Valhöll eða þeim, sem reka hana. Og við skulum hugsa okkur, hvaða ástand skapast í landinu, ef allir þessir staðir fá þessi fríðindi, og hugsum okkur, að þau væru eingöngu miðuð við það að hafa vínsöluleyfi á Hótel Borg. Hvernig mundi þá ekki það samningsatriði rekast á aðra löggjöf í landinu, m. a. áfengislöggjöfina, sem heimilar héraðabönn? Hvernig mundi þá Alþ. og ríkisstj. forða sér undan því að taka beint upp fjárframlög til þessara manna, ef þeir hópa sig saman til þess að gera sömu kröfu til Alþ. um að halda sömu réttindum eins og Hótel Borg? Ég geri ráð fyrir því, að ef Alþ. lætur undan kröfu frá einum aðila, þá eigi það ákaflega erfitt með að láta ekki undan kröfum frá þeim fjölda aðila, sem áreiðanlega eiga hér mjög mikla erfiðleika við að stríða í þessum málum. Ég skal viðurkenna, að ég er engan veginn kunnugur fjárhagsafkomu Hótel Borgar. Það þekki ég ekki. En hitt veit ég, og það vita allir landsmenn, að Hótel Borg er þó ekki eina hótelið í landinu, sem starfrækt er. Hvað er t. d. með Hótel KEA á Akureyri? Ég veit ekki betur en það hafi starfað hér um allmörg ár með mestu prýði og alveg sérstaklega tekið á móti mjög miklu af ferðamönnum, sem koma bæði héðan úr Reykjavík og frá útlöndum á sumrin, og veitt þeim alla fyrirgreiðslu. En það hafa ekki heyrzt, að mér sé kunnugt um, neinir kveinstafir frá þessum mönnum um aðstoð frá Alþ., hvorki í fríðindum, sem eru innifalin í flöskum með ágætum tappa í, eða öðrum fríðindum. Það eina, sem hefur komið frá þeim eins og annars staðar frá, er að vera losaðir undan veitingaskattinum, sem einmitt flokkur hv. flm. heldur ákaflega fast í og telur að ríkissjóðurinn megi ekki missa. Ég veit ekki betur en að hér sé rekið ár eftir ár sumarhótelið í Valhöll, að vísu með umkvörtunum, en þó ekki alvarlegri en það, að á hverju ári hefur þetta hótel verið opnað og starfrækt allan tímann. Ég veit ekki betur en að hér sé rekið hótel í Reykjavík, Hótel Skjaldbreið, að vísu miklu minna en Hótel Borg. En það er alveg ný kenning, ef lítið hótel, illa útbúið, gamaldags, með engum þægindum, eins og Hótel Skjaldbreið er, á verri aðstöðu í baráttunni í sambandi við hótelrekstur heldur en bezta hótelið í landinu. Það er alveg ný kenning, og það þurfa sannarlega að fylgja meiri rök fyrir þeirri nýju kenningu heldur en kemur fram í grg. frá hv. flm. Ég veit, að þetta er ekkert nýtt atriði, að hv. framsóknarþingmenn hér hafa viljað hlúa að Hótel Borg. Það er mér vel kunnugt um. Og til sönnunar mínu máli vil ég lesa hér upp úr gerðabók fjvn. frá 1948 af 38. fundi nefndarinnar. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lesin skýrsla og aths. sparnaðarnefndar við 3.–11. gr. fjárlaganna. Út af upplýsingum um verð á víni til Hótel Borg var samþ. eftirfarandi ályktun: Þar sem upplýst er með skýrslu sparnaðarnefndar, að Hótel Borg nýtur enn 20% afsláttar af víni hjá Áfengisverzlun ríkisins, miðað við útsöluverð, og að þessi upphæð á síðasta ári hefur numið 526 þús. kr., ályktar n. að leggja til fyrir sitt leyti, að þessi fríðindi verði þegar afnumin, og felur formanni að tilkynna það fjmrh. Var ályktun þessi samþ. með 8:1 atkv.

Það getur vel verið, að það sé upplýsandi fyrir hv. alþm. og aðra, sem mál mitt mega heyra, hverjir voru fyrst og fremst í þessari nefnd þá. Það voru þeir Gísli Jónsson, þm. Barð., Ingólfur Jónsson, 2. þm. Rang., Pétur Ottesen, þm. Borgf., Sigurður Kristjánsson, 8. þm. Reykv., Sigurjón Á. Ólafsson, 1. landsk. þm., Halldór Ásgrímsson, 2. þm. N-M., Helgi Jónasson, 1. þm. Rang., Ásmundur Sigurðsson, 8. landsk. þm., og Lúðvík Jósefsson, 2. þm. S-M. Ja, menn geta nú veðjað á það hér, hver það er, sem er þessi eini þingmaður, sem hefur ekki viljað taka þessa 526 þús. kr. gjöf af Hótel Borg úr ríkissjóði. Jú, það var hv. 1. þm. Rang., sem er annar flm.till. Og hann barðist með því með hnúum og hnefum í n., eins og hann á skapgerð til og dugnað, að það væru ekki tekin af Hótel Borg þessi fríðindi. Hann var annaðhvort persónulega eða fyrir hönd síns flokks viljugur til þess að berjast fyrir því með hnúum og hnefum, að ríkissjóður gæfi Hótel Borg árlega framvegis á sjötta hundrað þúsund krónur í afslátt á því. Þegar það er komið inn í blóð þeirra manna, að svona stórar gjafir þurfi að gefa einu fyrirtæki, þá er það sannarlega ekkert óeðlilegt, þótt þeir nú vilji halda áfram að gefa einhver fríðindi til staðarins, þegar vitað er, að þeir hafa einnig tapað ágóðanum af þessari breytingu. Ég gleymi seint þeim kveinum, sem komu til fjvn. dag eftir dag frá Hótel Borg. Þeir voru eins fjölmennir þá til fjvn. eins og þeir hafa yfirleitt verið fjölmennir nú til Alþingis og fullyrtu þá dag eftir dag, að það yrði að loka hótelinu, eigandinn yrði öreigi, allir menn yrðu atvinnulausir, ef þessari ákvörðun fjvn. yrði ekki breytt. Nú þætti mér fróðlegt að fá upplýst: Hefur hæstv. ríkisstj. síðan 1948, allan tímann, og gerir hún það enn, farið eftir þessari samþykkt fjvn.? Nú getur vel verið, að það hafi ekki verið gert, það hef ég ekki rannsakað, það hefði verið ágætt rannsóknarefni fyrir eftirlitsmann ríkisins. Ef það frv. hefði verið samþ., sem ég bar hér fram, þá hefði það verið ágætt rannsóknarefni fyrir hann að gæta þess, að ekki væri haldið áfram að gefa svona stórgjafir. Og vel gæti ef til vill hæstv. forseti Sþ., sem er yfirskoðandi landsreikninganna, upplýst það hér, hvort hætt hefur verið að gefa þessar gjafir, eins og fjvn. lagði til, eða hvort gjafirnar hafa verið teknar upp aftur. Hitt veit ég, að á meðan Sjálfstfl. fór með fjármálin, þá var farið eftir þessum fyrirmælum fjvn. Ég hef ekki spurt hæstv. fjmrh. um það nú, hvort hann hafi tekið upp þessa rausn til Hótel Borgar síðan; það skal ég ekki segja um. En þetta er bezta sönnunin fyrir því, hvaða hug Framsfl. og hans ágætu menn hér bera til þessarar starfsemi. Og furðar mig þá ekkert á því, þótt þessi till. hafi komið fram.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á það, að alveg burt séð frá því atriði, hvort rekstur á Hótel Borg skapar meira eða minna siðgæði í sambandi við vínnautn, þá sé alveg ógerlegt fyrir Alþingi að fara inn á þá braut að samþ. að taka upp samninga til þess að halda þessum rekstri áfram, nema því aðeins að fyrir liggi fyrst og fremst miklu meiri upplýsingar um rekstrarafkomu, miklu meiri trygging heldur en sést hér í þessum skjölum fyrir því, að ríkissjóður þurfi ekki að tapa því fé, sem hér væri um að ræða, ef um t. d. lán væri að ræða eða eitthvað slíkt; og alveg sérstaklega fullkomin trygging fyrir því, að gætt verði réttlætis í sambandi við hliðstæðan atvinnurekstur í landinu hjá öðrum aðilum. Það er þetta, sem ég tel að verði undir öllum kringumstæðum að rannsakast og athugast, áður en slík till. er samþ. sem hér liggur fyrir. Þess vegna væri það gersamlega óviðeigandi að ætla sér að samþ. þessa till., án þess að hún fari í n. til að rannsaka málið og athuga vel, hvaða afleiðingar hún gæti haft fyrir ríkissjóðinn síðar meir. Ég vísa til margra ágætra ummæla frá hæstv. dómsmrh. í sambandi við frv. um jafnaðarverð á olíu og benzíni, sem flutt var þar af miklum skörungsskap. En það verð ég að segja, að hafi það mál ekki verið nægilega undirbúið hér í Alþingi, eftir að hafa verið hér til umr. allan tímann síðan þing kom saman, þá er ekki hægt að halda því fram hér, að þetta mál fái nægilega mikinn undirbúning, ef það ætti að ljúka því hér á þeim stutta tíma, sem hér er fyrir hendi.

Hv. flm. sagði hér áðan, að hann vildi gjarnan fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera í sambandi við lokun Hótel Borgar. Orð hans voru ekki skilin öðruvísi en að hann liti svo á, að það sé eiginlega Alþingi eða ríkisstj., sem hafi lokað Hótel Borg. (Gripið fram í.) Gerði ríkisstj. það? Ég mótmæli því alveg, og einmitt vegna þess, að þessi skoðun ríkir hjá hv. flm., sem nú tók fram í, þá er grundvöllurinn undir till. alveg fallinn. Grundvöllurinn undir till. hans er byggður á þessu, að ríkisstj. hafi lokað Hótel Borg. Þetta er hreinasti misskilningur. Það hafa engar lagabreytingar verið gerðar á áfengislögunum á þessu þingi, því miður. Og Hótel Borg hefur haldið áfram sinni starfrækslu undir alveg óbreyttum lagafyrirmælum. Það eru sannarlega engin lagafyrirmæli um það, að Hótel Borg skuli hafa ein einkarétt á því að selja vín í þessu landi og taka á því þann gróða, sem vitað er að hefur verið tekinn á þessum stað, því að fyrir utan þessar 526 þús. kr., sem Framsfl. vildi gefa Hótel Borg og halda áfram að gefa henni, þá er vitað, að Hótel Borg hefur haft heimild til þess að leggja hvorki meira né minna en 40% á heildsöluverð. Kaupverðið á víninu, sem þessar 500 þús. kr. fengust í afslátt af, var 2½ millj. kr. Það átti þá að gefa Hótel Borg a. m. k. 1 millj. kr. í beinan hagnað fyrir utan þær rúmar 500 þús. kr., sem Framsfl. vildi halda áfram að gefa. En ofan á þetta eru hvorki meira né minna en yfir 400 þús. kr. greiddar á því ári á Hótel Borg til þjónanna fyrir að bera þetta til hinna ýmsu gesta á Borginni. Það er sannarlega ekki að furða, þótt hv. flm. vilji halda áfram svona atvinnugrein í landinu. Ég verð að segja það, að ef það á að ráða í atvinnumálum þjóðarinnar, að Alþingi nú eða síðar skori á ríkisstj. að stuðla að því, að fleiri og fleiri menn geti verið í þeirri stétt að bera vín fyrir neytendurna eða gesti á Hótel Borg og haft af því slíkar tekjur, eins og vitað er að hér hafa verið greiddar fyrir það, þá er atvinnumálum þjóðarinnar illa komið. Þá er betra að taka á sig einhverja þunga byrði til þess að ráðstafa þeim fjölda manna, sem starfa við Hótel Borg, til þess að gera eitthvað annað þarflegra en hér hefur verið gert.

Hins vegar verð ég að segja það, að ég er alveg undrandi yfir því, að þau ár, sem Hótel Borg hefur notið þeirra hlunninda, sem ég hef rætt hér um, með þeirri álagningu á víninu, sem hér hefur þekkzt, og grætt, eins og ég hef sýnt fram á, hvorki meira né minna en hálfa aðra millj. kr. á þeim eina lið, — þá er það alveg undravert, ef þetta fyrirtæki hefur ekki getað safnað stórkostlegum sjóðum, sem væru nægilegir til þess að standa undir rekstrinum, á meðan verið er að koma þessum málum í viðunandi horf, því þegar tekinn er samanburður á þessum rekstri annars staðar, eins og t. d. á Þingvöllum, hér á Skjaldbreið, á KEA og víðar á landinu, hvernig í ósköpunum eiga þau hótel, sem þar um ræðir og þar eru, að geta starfað árum saman og hafa ekki þessar tekjur, ef Hótel Borg hefur þurft að tapa stórum fjárfúlgum eða þurft að hafa hér hátt á aðra millj. kr. á ári til þess að standa undir rekstrinum? Eða er það kannske hugsun hv. flutningsmanna, ef hægt væri að koma fram þessari till. og veita einhver sérstök fríðindi fyrir Hótel Borg, annaðhvort með sérstöku vínveitingaleyfi, sem gefur þeim áframhaldandi tækifæri til þess að taka, ásamt þjónustugjaldi, upp undir 2 millj. kr. skatt hér af sínum hótelgestum, — er þá kannske meining þeirra eða vakir það fyrir þeim, að þessi sömu fríðindi verði færð yfir á þeirra ágæta hótel í Borgarfirði, Bifröst? Er það kannske hugsunin á bak við? En hinu furðar mig ekkert á, þótt það hótel, sem er eitt af prýðilegustu hótelum á landinu og er sjálfsagt sá staðurinn, sem fyrst um sinn tekur langmest á móti erlendum gestum, kæmi á eftir og heimtaði eitthvað álíka fríðindi eins og búið væri að samþ. hér á Alþingi handa Hótel Borg. Mér þætti það ekkert undarlegt. Ætli Stúdentagarðurinn kæmi ekki á eftir, sem hefur verið rekinn sem sumarhótel á hverju sumri hér, og mér er ekki kunnugt um, að orðið hafi stórkostlegur taprekstur á því, og ekkert vín hefur verið leyft þar. Ekkert hefur Alþingi þurft að standa undir þeim rekstri. Ég held, að Alþingi meira að segja og hæstv. ríkisstj. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (Gripið fram, í: Ekki nema hann er byggður fyrir opinbert fé.) — Hann er byggður fyrir opinbert fé. Ætlar nú hv. flm. að segja mér það, að byggingarkostnaður á Hótel Borg hvíli enn svo þungt á þeim, sem nú er eigandi þar, að það muni öllu í rekstri hótelsins, eftir að ríkissjóður hefur í mörg ár með aðstoð hins ágæta Framsfl. gefið þeim upp undir hálfa millj. á hverju ári? Ég veit, að hv. þm. ætlast nú til þess, að við trúum ýmsu, en að ætlast til þess, að við trúum því; því trúi ég nú ekki á hann, jafnhygginn og ágætan mann eins og hann er.

Ég benti á það áðan, að ríkisstj. hefði verið dregin inn í mjög erfiðar deilur út af vinnustöðvun hér. Ég vil nú spyrja enn: Fékk ekki hæstv. ríkisstj. nægilega erfiðleika í sambandi við þau mál, þótt hún sé nú ekki að blanda sér inn í atvinnurekstur einstaklinga eins og hér er um að ræða? Og væri það nú ekki að fara út á heldur hálan ís, ef ríkisstj. ætlaði í hvert skipti, sem einhver aðili kemur og óskar eftir fjárhagslegri aðstoð eða sendir aðra sína útsendara, — því að nú er það ekki einu sinni, að það hafi komið frá honum sjálfum, heldur hafa verið sendir ágætir útsendarar til þess að agitera fyrir hann, — að í hvert skipti, sem slík boð kæmu til Alþingis frá einkarekstrinum í landinu, þá væri hlaupið til þess að samþ. að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til þess að semja um áframhaldandi rekstur. Það er þá eitthvað annað uppi á teningnum heldur en var á meðan aðstoðin var veitt til síldarútvegsmannanna hér á árunum. Ég var einn af þeim ólukkulegu aðilum, sem áttu þá skip á þeim veiðum, en gerði það ekki út, og fyrir það gat ég ekki fengið neinn hluta af því tugþúsunda tapi, sem skipið varð fyrir, vegna þess að það var álitið, að það væri óverjandi af Alþingi að fara inn á að greiða slíkt hjá einstaklingi. Ég hef ekkert verið að harma það. Ég skildi vel þá afstöðu. En verra var það, að hinn aðilinn, sem gerði skipið út og leigði það af mér og tapaði einnig mörgum tugum þúsunda, gat ekki heldur fengið neitt, af því að hann átti ekki kolluna.

Nú á að taka upp þá reglu hér, að einn atvinnurekandi, sem að vísu hefur lifað á því að fá stórar gjafir gegnum mörg ár, á að fá fjárhagslega aðstoð frá ríkissjóði til þess að geta haldið áfram rekstrinum. Ekki varð skilið annað hjá hv. frsm. en að það væri til þess ætlazt með þessari þáltill. að veita Hótel Borg einhverja fjárhagslega aðstoð í einhverri mynd, og þegar það er upplýst, þá er náttúrlega alveg óverjandi af hæstv. forseta annað en að úrskurða á ný, að tvær umr. skuli fara fram um till. og að till. fari þá til fjvn. Hæstv. forseti hefur sjálfsagt ákveðið eina umr. um till. vegna þess, að hann hefur ekki dreymt um, að þetta lægi á bak við. Annars væri sjálfsagt ekkert vit í því að afgr. málið á neinn annan hátt. (Gripið fram í.) Fjárhagsleg aðstoð? Hv. flm. gat um það skýrt hér, að það yrði að veita í einhverri mynd fríðindi, aðstoð til rekstrarins. Og ef hótelið þarf engin fríðindi og enga fjárhagslega aðstoð, hvað á þá till. að þýða hér? Hvers vegna er þá verið að bera þetta mál fram? Er það þá eitthvað, sem Framsfl. vill þvo hendur sínar af, til þess að sýna það fyrir alþjóð, að hann stendur enn með þessu ágæta atvinnufyrirtæki í landinu og vill gefa því stórar gjafir? Það verður þó sannarlega ekki skilið öðruvísi, hvorki af þáltill. né heldur af ræðu flm., enda vitum við allir, að það er það, sem liggur á bak við. Hótel Borg er ekki lokað af ríkisstj. eða Alþingi. Hótel Borg er lokað af eiganda hússins til þess að knýja fram áframhaldandi hundraða þúsunda fríðindi fyrir sjálfan sig og reksturinn. Það er öllum kunnugt um og það án þess að leggja nokkur skjöl á borðið um það, að þess sé þörf, eins og ég hef sýnt fram á.

Ég ætla ofur lítið að koma inn á hina hliðina. Ég valdi það fyrst að ræða þessa hlið, vegna þess að ég áleit, að einmitt þetta atriði sé svo stórkostlegt fjárhagsatriði fyrir ríkissjóðinn, að það sé alveg óverjandi að ræða það ekki líka, áður en till. er afgreidd. Þess vegna valdi ég að ræða það atriði fyrr. En síðan ætla ég að koma inn á hitt atriðið í sambandi við áfengislöggjöfina og þau fríðindi, sem Hótel Borg hefur haft í því að hafa einkasölu á áfengi hér í bænum.

Hæstv. dómsmrh. hafði látið skipa mþn. til að athuga áfengislöggjöfina í landinu. Og það var sannarlega ekki að ófyrirsynju. Það er vitað, að áfengislöggjöfin í landinu er þannig, að það er að minnsta kosti enginn friður í landinu um þau mál. Það er vitað, að það eru þúsundir manna, sem óska, að því ástandi, sem ríkt hefur hér undir þessum lögum í fjöldamörg ár, verði breytt. Það eru mismunandi skoðanir á því máli, hvernig eigi að breyta þeim. Einn hefur þá skoðun, að það eigi að ríkja hér meira frjálsræði. Annar hefur þá skoðun, að það eigi að ríkja hér minna frjálsræði og meiri bönn. Ég ætla ekkert að fara að túlka þær hliðar hér undir þessum umr., en það vita allir, að þannig er ástandið í þessum málum. Svo gerir hæstv. dómsmrh. þá virðingarverðu ráðstöfun að skipa mþn. prýðilegum mönnum og í fullu samráði við hæstv. ríkisstj., við báða flokkana, til þess að rannsaka þetta mál. Þegar svo málið er komið hér til þingsins og nefndin, sem að vísu er upplýst að vinni öll sín verk á hlaupum, hv. allshn. Ed., eins og staðfest var hér nýlega, er samt sem áður búin að leggja mjög mikla vinnu í þetta mál, og m. a. hefur einn af nm. lagt í það að útbúa nærri 30 brtt. og aðrir menn hafa lagt í það einnig mikla vinnu, m. a. ég, sem ekki var nú skyldugur til þess að gera það, vegna þess að ég var ekki í n., heldur aðeins skyldugur til þess að gera það sem þm., ef ég vildi sinna nokkuð málinu og fyrir liggja hvorki meira né minna en 80 brtt. við frv., þá var það ófyrirgefanlegt hneyksli af deildinni að vísa málinu frá, áður en vitað var, hvernig færi um þær till. En hver vann að því? Það var fyrst og fremst Framsfl. og hann vinnur svo skelegglega að þessu máli, að hann fyrirskipar því verkfæri, sem hann hefur hér til þess að gera fyrir sig langmest af skítverkum í þinginu, að svona skuli vera farið með málið. Og það er gert meira. Sá maðurinn í n., sem hafði haft kjark til að rísa upp á móti flokknum og kljúfa n. og koma fram með till. til breyt., er tekinn og kúgaður til þess að drepa allar sínar till. með því að samþ. rökstuddu dagskrána. Þetta er mergurinn málsins hjá Framsfl. Svona er farið með málið. Og hæstv. forseti lýsir því yfir í þinginu, að dagskráin sé svo mikil ósannindi, að raunverulega ætti að vísa henni frá. (Gripið fram í: Í hvaða flokki er forsetinn?) Hann er í Framsfl. En hann var líka svikinn. Honum kom það ekki til hugar að það gæti skeð, að nokkur maður væri svo blindur í Alþingi og svo illa innrættur að láta sér detta í hug að vísa því máli frá, þar sem fyrir lágu 80 brtt., sem gátu virkilega bætt málið mikið, ef þær voru samþykktar, sumar hverjar. Honum datt það ekki í hug, að nokkur þm. mundi svíkja sinn þingmannseið með því að fara að samþ. rökstudda dagskrá, þar sem hrúgað var upp ósannindum á ósannindi ofan. Og þegar hæstv. samgmrh. óskaði eftir því að fá að vera við atkvgr., þá vitanlega datt ekki þessum drenglynda manni, hæstv. forseta Ed., neitt annað í hug en að það væri til þess að tryggja, að slík rökstudd dagskrá yrði ekki samþ. Honum datt það ekki í hug, að á bak við hefði búið þetta fals og þetta ódrenglyndi og þessi óhreinindi á öllum sviðum, að hann ætlaði að mæta þar til þess að fá málið drepið. Ég veit, að hann varð ekkert minna undrandi yfir því heldur en ég, þegar hann las upp atkvæðin á eftir, heyrði hvernig málið hafði farið.

Hver var svo ástæðan fyrir þessu? Það voru tvær meginástæður. Önnur ástæðan var sú, að hv. 8. þm. Reykv. taldi sér trú um, að með þessu móti gæti hann tryggt sér fylgi kvenþjóðarinnar í Rvík við næstu kosningar. Það var aðalástæðan. Hún meira að segja gekk svo langt að lýsa því yfir í umr., að hún væri nú eiginlega ekki inni á þingi fyrir Framsfl., heldur væri hún á þingi fyrir kvenfélagasamböndin í landinu, og þess vegna væri það skylda sín að sjá um, að þetta mál næði nú ekki fram að ganga. Ég hef nú aldrei getað skilið það, hvernig það ætti að vera á móti vilja kvenfélagasambandanna í landinu að auka stórkostlega fræðslu um þá hættu, sem því fylgir að neyta áfengis í óhófi, og auka stórkostlega eftirlitið með því, að lögunum sé framfylgt. En hvort tveggja þetta var í þeim till., sem voru drepnar af þeim fulltrúa, sem annan daginn lýsir því yfir, að hann sé fulltrúi Framsfl., og hinn daginn lýsir því yfir, að hann sé fulltrúi kvenfélagasambandanna í landinu. Sannleikurinn er sá, að ef það átti að leyfa meira frelsi í sölu áfengis, — og um það ætla ég ekki að kveða upp neinn dóm í dag, — þá var það frumskilyrðið, að því fylgdi, að það væri meira eftirlit, en verið hefði og meiri fræðsla, bæði í skólum landsins og annars staðar. Það var frumskilyrðið, alveg eins og það er frumskilyrði, að það sé eftirlit með bílaakstri, eftirlit með því, að menn aki ekki bílum drukknir, o. s. frv. Það eftirlit kostar nú hvorki meira né minna en á aðra millj. kr., og mundi víst enginn vilja létta því af, þótt ríkissjóður verði að greiða það fyrir það, af því að menn vita, að þrátt fyrir allt forðar það frá svo mörgum slysum. Mundu þá menn hafa séð eftir því, þótt einhver álíka upphæð hefði verið lögð af áfengisgróðanum til þess að tryggja raunverulegt eftirlit laganna, þannig að minni slys yrðu af, ef átti að selja vínið víðar og frjálsar en gert er? En þessar till. voru drepnar af Framsfl. og kommúnistunum sameiginlega og Alþfl. í Ed.

Hin ástæðan var sú, að aðalmálgagn Framsfl. var búið að hefja róttækar persónulegar og pólitískar árásir á hæstv, dómsmrh. út af lögunum og það vegna þess, að við blaðið hafði verið ráðinn maður, sem aldrei kann fótum sínum forráð í neinum skrifum og sízt um bindindismál. Það mátti þess vegna til að vinna að því að fella frv., svo að Framsfl. og hans aðalmálgagn gætu haldið áfram til næstu kosninga að hrúga upp alls konar óþverra í kringum hæstv. dómsmrh. um málið, ef hægt væri á þann hátt að lama nokkuð fylgi Sjálfstfl. hér í Reykjavík.

Þetta eru tvær meginástæðurnar fyrir því, að málið var drepið í deildinni. Og þegar menn hafa slíkar illar hvatir eins og þarna lágu á bak við, þá er sannarlega ekki að furða, þótt illt hafi af hlotizt síðar meir. Þá er sannarlega langbezt líka, að þeir menn, sem hafa skapað þetta ástand með öllu þessu, sem ég hef hér lýst, séu ekki leystir undan því alveg þegjandi og hljóðalaust, eins og ætlazt er til að sé gert hér í þessari till.

Ég hygg, að það sé óhjákvæmilegt, þegar næsta Alþingi kemur saman, hverjir sem þá eiga þar sæti, að taka áfengislöggjöfina til athugunar á ný og láta breyta þar ýmsu til batnaðar. Ég skal, eins og ég sagði áðan, ekkert fara inn á að dæma um það, hvor stefnan á að verða ríkjandi í áfengislöggjöfinni, frjálsræði og menntun og eftirlit, allt samfara, eða bönn og allt það, sem þeim fylgir. Um það skal ég ekkert ræða hér til þess er ekki þessi fundur ætlaður. En hitt er ljóst, að án þess að hafa samfara frjálsari sölu einnig mjög aukna fræðslu í þessum málum og mjög aukið eftirlit í þessum málum, þá væri það þjóðarvoði. Þess vegna má ekki skilja þau atriði að, undir neinum kringumstæðum.

Ég hef nú gert hér allmikla grein fyrir minni afstöðu til þess, hvers vegna ég varð til þess að óska eftir því, að málið væri ekki tekið fyrir. Og ég vil leggja á það áherzlu enn, að það er ekki vegna þess þáttar, sem snýr að vínnautninni í landinu eingöngu, þótt það sé einnig það, heldur miklu frekar og fyrst og fremst vegna þess þáttar, sem snýr að fjárhagsmálum sjálfs ríkissjóðs.

Ég skal svo aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. flm. sagði hér. Hv. flm. spurði: Hvað ætlar ríkisstj. að gera, þegar búið er að loka Hótel Borg? Ja, það er náttúrlega alltaf ákaflega fróðlegt að fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera í málum yfirleitt, en sannarlega hélt ég nú, að það væru ýmis önnur vandamál, sem liggja fyrir hæstv. ríkisstj. og Alþingi þyrfti fyrst og fremst að fá að vita um, heldur en það, hvað hún ætlar að gera, þótt Hótel Borg sé lokað, enda veit ég, að þeir ágætu menn, sem þar sitja, mundu ekki endilega setja þetta mál sem fyrsta mál á dagskrá. Þegar þingið er farið heim og þarf að fara að leysa úr ýmsum vanda, þá verður áreiðanlega þetta ekki fyrsta mál á dagskrá fyrir þá að greiða úr. Það eru mörg önnur mál, svo sem landhelgisgæzlan, sölubannið í Englandi og jafnvel Grænlandsmálin, sem þyrfti að leggja höfuðið meira í bleyti til þess að leysa heldur en þótt um það væri að ræða, að Hótel Borg væri lokað. Ég held það yrði ekki neinn þjóðarbrestur hér, þótt Hótel Borg yrði lokuð einhvern tíma. Það mundi áreiðanlega reyna á þau þolrif hjá eigandanum, hvort hann, þegar hann vissi, að Alþingi hlypi ekki undir bagga og Framsfl. hefði ekki afl til þess að koma fram vilja sínum um stórgjafir úr ríkissjóði, færi þá ekki að hugsa um að standa á eigin fótum eftir það.

Hv. frsm. sagði alveg réttilega, að lög landsins heimili í dag vínsölu og vínnautn á Hótel Borg, en þau gera heldur ekkert annað en að heimila það. Þau fyrirskipa það ekki, og þess vegna er það undir valdi þess hæstv. ráðh., sem fer með þau mál, hvort hann telur það þjóðinni fyrir beztu, að haldið sé áfram vínveitingum á Hótel Borg, eins og verið hefur, eða farið þar inn á nýjar brautir. Reynslan er ekki löng enn þá hér í þessum bæ síðan Hótel Borg var lokað fyrir vínveitingum. En það er alveg áreiðanlegt, að það eru ekki neinar einhliða umsagnir um það mál. Það er áreiðanlegt, að það eru margir, sem halda því fram, að ástandið í bænum hafi mjög mikið batnað. Það eru aðrir, sem halda því fram, eins og hv. flm. sagði, að það hafi versnað, og enn aðrir, sem halda því fram, að það sé líkt og það var. En það eru áreiðanlega mjög margir sem halda því fram, að það hafi batnað og það svo mikið, að þeir óska ekki eftir því fyrst og fremst, að það sé síðasta sporið, sem Alþingi stígur hér, nú áður en því er slitið, að opna Borgina aftur á þann hátt.

Hv. frsm. sagði einnig, — og það skulu nú vera mín síðustu ummæli hér um þetta mál, — að hæstv. forsrh. hefði komið því til leiðar, að gistihúsinu væri haldið áfram. Ég vildi í sambandi við það mál leyfa mér að spyrja: Var það gert án þess, að til kæmi nokkur sérstök greiðsla úr ríkissjóði? Var það gert eingöngu fyrir orð hæstv. ráðh., eða voru látin á móti einhver sérstök fríðindi, sem Alþingi veit ekki um? Ef svo er, þá óska ég mjög eftir að fá að vita, í hverju þau eru fólgin. Ég geri það ekki af neinni sérstakri ástæðu að spyrja um þetta, annarri en þeirri sem hv. flm. sagði hér áðan, að það hefði af hæstv. forsrh. verið gerður um þetta samningur. Voru t. d. í þeim samningum loforð um, að þessi þáltill. eða einhver önnur í líka átt skyldi borin fram? Eða voru í þeim samningum loforð um það, að Framsfl. skyldi áframhaldandi beita sér fyrir því, að Hótel Borg fengi nokkur hundruð þús. kr. léttilega fundinn gróða í gegnum vínsöluna. (Gripið fram í: Engir slíkir samningar.) Engir, það þykir mér vænt um. Mér þykir mjög vænt um að heyra það, og því bjóst ég einmitt við, að það væru engir slíkir samningar. En ef eigandi Hótel Borgar hefur getað haldið áfram rekstrinum síðan — (Gripið fram í: Hann hefur getað haldið áfram hótelrekstrinum.) Það þarf nú ekki að segja mér, af því að einmitt hótelreksturinn er miklu erfiðari með fjárhagsafkomu heldur en þó veitingasalirnir, það vitum við allir, sem eitthvað þekkjum inn í þessi mál, svo að ef hann getur haldið áfram hótelrekstrinum og lokað veitingasölunum, þá hlýtur hótelreksturinn að gefa honum slíka peninga og slíkan ágóða, að hann getur verið nægjanlegur til þess ekki einungis að bera uppi hótelið, heldur einnig að bera uppi tapið af því að loka veitingasölunum, því að það eru þó aðrir veitingasalir hér í þessu landi, sem eingöngu lifa á því að selja mat og selja kaffi og þurfa ekki neina aðstoð úr ríkissjóði.

Ég vil að síðustu leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti fresti þessari umr. og vísi málinu til fjvn., því þótt þing hætti nú störfum, þá hefur fjvn. umboð til næstu kosninga. Og vel gæti verið, ef hæstv. ríkisstj. þyrfti að grípa inn í, að hún vildi þá a. m. k. vita einhverja afstöðu n., og ég skal gjarnan lofa hv. flm. því, ef till. verður vísað til fjvn., eftir að þessari umr. er lokið, að halda um hana fund strax í kvöld. Það er velkomið. Ég sé ekkert eftir því. Ég veit, að fjvn.-menn sjá ekkert eftir því að koma og ræða um þetta skemmtilega mál. (Gripið fram í.) Ef hún kemur til atkv., ef hún verður borin fram 30. júní, þá er ég að vona, að bæði ég og hæstv. atvmrh. séum svo glaðir yfir því að hafa verið valdir inn á þing aftur, að við sjáum heldur ekkert á móti því eða ekkert því til fyrirstöðu að koma saman og rabba um þessa till. (Atvmrh.: Ég er hræddur um, að þá verði allir framsóknarmenn fallnir.) Að þá verði allir framsóknarmenn fallnir? Ja, það væri mjög óskandi, að þjóðin vildi athuga það vel og gaumgæfilega þann þátt, sem Framsfl. hefur spunnið í þessu máli, bæði hér á þessu þingi og áður. Og ef blaðakostur landsins er slíkur að halda því vel á lofti, þá mætti segja mér það, að þeir hefðu ekki þénað ákaflega mörg atkvæði á því, eins og þeir ætluðu sér að gera í upphafi.