15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

53. mál, kjötútflutningur til Bandaríkjanna

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lauk máli sínu með því að fullyrða, að ég hefði búizt við öðrum svörum en þeim, sem nú eru fram komin. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur ástæða til að bera fram slíkar fullyrðingar, nema hann skyldi treysta þeim mönnum, sem standa að „Frjálsri þjóð“ og rita í hana, vegna gamalla, náinna kynna og samstarfs, til þess að fullyrða það eitt, sem flestir mundu skoða sannleikann einan saman. Ég hef ekki gefið neitt tilefni til þess, að hæstv. ráðh. bæri fram slíkar fullyrðingar sem þessar, enda verð ég að segja það, að nógu er nú slæmt samt, þó að ekki sé satt allt, sem blaðið „Frjáls þjóð“ segir um þetta efni.

Hæstv. ráðh. upplýsir hér að gefnu tilefni, að um 700 tonn af dilkakjöti, úrvalskjötinu, bezta dilkakjötinu, hafi verið flutt til Bandaríkjanna, selt þar í orði kveðnu fyrir sem næst því verði, sem fæst fyrir kjötið hér heima, að mér skildist heldur lægra þó, með því verði, sem hann nefnir nú, en af þessu sé hvorki meira né minna en slatti, 200 tonn, ógreiddur, og eigi nú að fara að nota það, þegar það er orðið ársgamalt, til þess að reyna að skapa nýja möguleika í Bandaríkjunum. Kjöt, sem var slátrað hér í september í fyrra, slatta upp á 200 tonn, 3–4 millj. kr., á nú að nota til að skapa nýja möguleika fyrir kjötsölu í Ameríku.

Ég verð að segja, að þessar upplýsingar eru á tvennan hátt mjög ömurlegar. Landið hefur verið kjötlaust síðan seint á s. l. vetri. Flutt er út úr landinu um 700 tonn af kjöti og selt fyrir sama verð, í bezta falli, eins og fengist greitt fyrir það hér heima. En tveir níundu hlutar af magninu eru ekki greiddir enn og á nú að nota til að skapa nýja markaðsmöguleika í Bandaríkjunum.

Ég hef engu við þetta að bæta. Ég harma aðeins þau stórfelldu mistök, sem á hafa orðið í þessu efni.

Útflutningur kjöts til Bandaríkjanna var réttlættur með því á s. l. hausti, að það þyrfti að halda við þeim markaði, sem tekizt hefði að opna fyrir dilkakjöt í Bandaríkjunum, og talið, að ekki dygði minna en upp undir 1.300 tonn, að dómi viðskiptadeildar rn., til þess að gera það sæmilega. Matið hefur verið mjög á annan veg, en reynslan hefur nú sýnt.

Ég sem sagt harma þau mistök, sem orðið hafa í þessu efni.