29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

49. mál, laun forseta Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og mun ekki hafa verið neinn ágreiningur um það þar. Frv. er borið fram til staðfestingar á brbl. frá 20. marz 1952, og eru það ný ákvæði um laun forseta Íslands, um það, að í stað 50.000 kr. komi 85.000 kr.

Ég man það, að þegar þessi brbl. voru gefin út af þáverandi handhöfum forsetavaldsins, þá voru ýmsir, sem skildu það svo, að þessir heiðursmenn væru að hækka sín eigin laun fyrst og fremst með setningu þessara brbl. En þetta frv. og brbl. eru ekki um neina hækkun á launum þessa æðsta embættismanns þjóðarinnar, heldur um allverulega lækkun, og eru þau gefin út á þeim tíma, þegar enginn vissi, hver yrði næsti forseti Íslands, og þar af leiðandi getur ekki verið að ræða um, að þar sé miðað á nokkurn hátt við sérstaka persónu. Að öðru leyti tel ég, að í forsendum brbl. sé alveg nægilega tekið fram, hvaða ástæður liggja til þess, að brbl. voru gefin út. N. hefur athugað málið og leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.