15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (2760)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Það hefur komið fram hér í þessum umræðum, að það hefur slegið nokkrum ótta á fólk við það, þegar það fréttist og það hefur komið fram í blöðum, að það er beinlínis auglýst, að hermenn varnarliðsins geti í skemmtiferðum sínum farið óeinkennisklæddir út frá bækistöðvum varnarliðsmanna. Nú mun standa í varnarliðssamningnum eitthvað þannig, að hermenn varnarliðsins skuli að jafnaði bera einkennisbúning, og mun þar með hafa verið hugsað, að þeir yfirleitt skyldu bera sinn einkennisbúning, og eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, þá mun hafa verið talin í því einmitt nokkur vörn frá hálfu landsmanna, að þetta væri regla. Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. í viðbót við það, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., hvaða álit hún hafi á þessu, hvort hér sé ekki nánast um samningsbrot að ræða, þar sem hefur verið talað um, að þeir skyldu að jafnaði bera þennan einkennisbúning, og þá um leið, hvaða ráðstafanir ríkisstj. gæti hugsað sér að gera í þessu sambandi?

Þá kom það hér fram í fyrri ræðu hæstv. ráðh. áðan, að í raun og veru hafi verið settar þrívegis upp a. m. k. einhverjar reglur gildandi ferðir hermanna til Reykjavíkur. En ég minnist þess ekki, — það munu þá aðrir vita það, — að nema tvennar af þessum reglum hafi verið auglýstar í blöðum, þ. e. a. s. fyrstu reglurnar, sem settar voru af McGaw hershöfðingja um það, að hermenn skyldu vera hér í bænum aðeins til kl. 10 að kvöldi. En nú kemur fram í umræðunum, að í millitíðinni hafi verið settar einhverjar nýjar reglur, aðrar víðari reglur, sem almenningur hefur nú aldrei heyrt um og komið hefur fram að væru eins og bara regluleysi. En þriðja tilkynningin er svo sú, sem hæstv. ráðh. las upp núna áðan um nýjar og strangari reglur, sem vitanlega á að miðast við þær reglur, sem enginn hefur áður heyrt um að hafi verið settar. Ég vildi þá spyrja að því, ef það er rétt hjá mér, að þessar miðreglur, sem hér er verið að tala um. hafi ekki verið auglýstar, hvers vegna þær hafa þá ekki verið auglýstar líka, til þess að almenningur vissi, eftir hverju væri farið, úr því að hinar, sem þóttu viðhlítandi, sérstaklega þær fyrstu, hafa verið auglýstar, og svo er talað hér um strangari reglur, eins og það væri einhver bót frá því, sem við þó ekki þekktum?