29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að rekja ræðu hv. fyrirspyrjanda í einstökum atriðum. Eins og hann setti málið fram, þá er þar fyrst og fremst um að ræða pólitískt mál og mál, sem heyrir undir framleiðendur og eigendur þess fisks, sem S. Í. F. hefur haft til meðferðar. Þetta mál var gert að pólitísku áróðursmáti við kosningar á sínum tíma með þeim árangri, sem kominn er í ljós, að flokkur hv. þm. græddi sízt á þeim málflutningi, og það er einnig vitað, að eigendur fisksins, framleiðendurnir, hafa ekki séð ástæðu til að sinna þeim atriðum, er hann ræddi um. Þau hafa vitanlega verið til athugunar og ákvörðunar bæði í L. Í. Ú. og í S. Í. F. með þeim árangri, að þeir hafa ekki talið rétt að hefjast handa út af því á annan veg en stjórn S. Í. F. bað um rannsókn v nokkrum atriðum málsins. Annars minnti fyrirspurnin og það, hvernig hún var sett fram, og allur málflutningur hv. þm. í því sambandi mig á það, að hann er nú þegar búinn að hljóta a. m. k. þrjá dóma, refsidóma, fyrir fyrri ummæli sín í málinu. Ég sé, að hann hefur hinn 17. nóv. 1950 verið dæmdur í bæjarþingi Reykjavíkur í 900 kr. sekt til ríkissjóðs og umstefnd ummæli hans út af þessu máli dæmd dauð og ómerk, sama dag var hann enn fremur dæmdur í 750 kr. sekt vegna annarra ummæla í sambandi við málið og loksins enn sama dag vegna enn annarra ummæla dæmdur í 1.200 kr. sekt fyrir ummæli sín um málið. Þarna gafst hv. þm. fyrir dómstólunum færi á því að standa við þær sakargiftir, sem hann hefur haft í frammi með þeim árangri, sem ég áður greindi.

Og það sýnir umhyggju hans fyrir að vita hið sanna í þessu máli, að hann ber fram fyrirspurn á Alþ. um gang málsins, rannsókn og dóm, þegar dómur hefur fyrir mörgum mánuðum verið kveðinn upp. Hann lætur nú svo sem það hvíli einhver þagnardula yfir þeim dómi. Allir þeir, sem eftir málinu vildu grennslast, gátu fengið upplýsingar um gang málsins bæði með því að spyrja dómarann og dómsmrn., enda er mér kunnugt um það, að einstakir aðilar, blaðamenn t. d., hafa spurt þessa aðila, þó að þeir af einhverjum ástæðum hafi svo eftir á þagað um þær upplýsingar sem þeir fengu.

Að öðru leyti vil ég taka það fram, að með bréfi, dags. 20. jan. 1950, óskaði stjórn S. Í. F. þess, að dómsmrn. léti fara fram opinbera rannsókn á afskiptum stjórnar og framkvæmdastjóra S. Í. F. af sölu og flutningi á saltfiski til Ítalíu og Grikklands. Var ósk þessi fram borin vegna árása Geirs H. Zoëga, fyrrv. framkvæmdastjóra L. Í. Ú. í London, Sigfúsar heit. Sigurhjartar.sonar og dagblaðsins Þjóðviljans á forráðamenn S. Í. F. út af afgreiðslu þessara mála. Af þessu tilefni fyrirskipaði dómsmrn. réttarrannsókn í málinu með bréfi, dags. 14. febr. 1950. Rannsókn málsins er nú lokið, og niðurstöður rannsóknarinnar urðu þær, að enginn grundvöllur var til málsóknar gegn neinum af forráðamönnum S. Í. F. eða öðrum þeim mönnum, er rannsóknin náði til, að einu atriði undanteknu. Var það varðandi umboðslaun, sem Geir H. Zoëga taldi að Kristján Einarsson framkvæmdastjóri S. Í. F. hefði fengið af saltfiski, sem seldur var til Grikklands sumarið 1948. Þótti rétt að láta dómstóla skera úr þessu atriði. — Varðandi seinni lið fyrirspurnarinnar vil ég taka það fram, að samkv. framansögðu var höfðað mál gegn Kristjáni Einarssyni með ákæruskjali dómsmrh., dags. 25. marz 1952. Og með dómi sakadóms, uppkveðnum 30. maí 1952, var Kristján algerlega sýknaður af ákærunni. Dómi þessum áfrýjaði dómsmrh. til hæstaréttar með stefnu, dags. 11. sept. 1952, og var málið sent hæstarétti með bréfi, dags. 18. sept. 1952. Mál þetta hefur ekki enn verið dæmt í hæstarétti, en mun verða tekið þar fyrir svo fljótt sem unnt er, og þá mun hæstiréttur vitanlega segja sitt álit á því, hvort málið hafi verið rannsakað með þeim hætti, sem vera ber.