29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. heldur því fram, að ég geti ekki fært nein rök fyrir því, að ólíkum aðferðum sé beitt við rannsókn mála og menn séu ekki jafnir fyrir l. Ég held þó, að það geti hver séð, sem kynnir sér nokkuð gang þeirra mála, sem ég nefndi hér áðan, að mjög ólíkum aðferðum er beitt, og að það sé því alls ekki ástæðulaust að finna að þessu.

Upphaf þessa máls, sem hér er til umr., var það, eins og hæstv. ráðh. nefndi, að fyrrv. umboðsmaður Landssambands íslenzkra útvegsmanna í Lundúnum, Geir Zoëga, hafði í starfi sínu þar komizt að því, að það voru mjög óviðeigandi viðskiptaaðferðir í sambandi við fisksölu til Ítalíu. Hann gerði yfirboðurum sínum hér heima, L. Í. Ú., viðvart um þetta, og sum þessi málsatriði voru líka þannig, að það hefði verið með öllu óverjandi af honum að láta það liggja í þagnargildi, sem hann fékk um þetta að vita, og hann lagði fram sönnunargögn um viss atriði í þessu sambandi, og stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda sá sér ekki annað fært, en óska eftir rannsókn á málinu. En það er vitanlega ekki sama, hvernig farið er með þau gögn, sem lögð eru fyrir rannsóknardómara til athugunar. Ég nefndi hér til samanburðar aðferðir við rannsókn í öðru máli, sem sérstakur setudómari fer einnig með, í máli Helga Benediktssonar í Vestmannaeyjum. Þar er það kunnugt, að rannsóknardómarinn og menn hans létu greipar sópa í skrifstofu Helga, tóku þaðan skjöl og bækur án þess að skrásetja nokkuð það, sem tekið var, og síðan var þessum gögnum haldið margfalt lengur, en nokkur þörf var á, til þess að rannsaka þau, og með þessu var rannsóknarþola valdið tjóni að ástæðulausu, og jafnvel er talið, að glatað hafi verið nokkru af þessum gögnum. Ég held, að það hefði ekki síður verið ástæða til að rannsaka skjöl og bækur málsaðila í S. Í. F.- málinu, — þó að ég mæli ekki bót slíkum aðferðum eða telji, að þar hefði átt að viðhafa slíkar aðferðir eins og hjá Helga Benediktssyni, ég tel þær óhæfar og ósæmilegar og þeim eigi hvergi að beita, — en ég tel, að það hefði verið þörf á að rannsaka þar ýmis gögn, þ. á m. símskeytaviðskipti umboðsmanns S. Í. F. á Ítalíu og framkvæmdastjóra þess hér, en það hefur víst ekki verið gengið að þeirri athugun með neitt svipuðum hætti og annars staðar hefur verið beitt.

Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra, að ég teldi það nýjung, að settir væru sérstakir setudómarar. Mér er það vel ljóst, að það hefur oft verið gert, enda sagði ég, að það hefði nokkrum sinnum verið gert að undanförnu, en hitt vil ég leggja áherzlu á, að það eiga að vera í þjóðfélaginu vissar grundvallarreglur við rannsóknir mála, sem á að fylgja. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, að það er ekki hans verk, hann á ekki að hafa persónuleg afskipti af framkvæmdum dómara, meðan þeir fara með einstök mál, en hitt á hann að gera, að hafa eftirlit með því, að ekki sé beitt í einu tilfelli árásaraðferðum að óþörfu til að upplýsa málin, en á sama tíma sé á öðrum stöðum gengið mjög slælega að því að upplýsa mál.