29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lét eins og það hefði verið ég, sem byrjaði hér umr. um afurðasölumálið. Það vita allir, sem til heyrðu, að það var hv. fyrirspyrjandi, sem byrjaði umr. um afurðasölumálið. Bæði fyrri og síðari ræða hans voru nær eingöngu um afurðasölumálið, en ekki nema að örlitlu leyti fyrirspurn um þá réttarrannsókn, sem hér átti að vera til umr., en hv. fyrirspyrjandi hvarf frá að tala um af ástæðu, sem ég áður gat um. Það er því alls ekki ég, sem byrjaði þessar umr., heldur flokksbróðir hv. þm.

Um það, að einstakir framleiðendur ættu að fá leyfi til þess að bjóða vöru í Rússlandi og löndunum fyrir austan járntjald, eins og kallað er, þá veit ég ekki til þess, hafi verið um raunverulegt tilboð eða möguleika að ræða, að þá hafi nokkurn tíma verið settur fótur fyrir það af íslenzkum stjórnvöldum. Skýrslurnar sýna þvert á móti, að viðskiptin við þessi lönd, þau þeirra, sem hafa viljað skipta við okkur, hafa stórlega vaxið á undanförnum árum. Og íslenzka stjórnin hefur gert allt, sem í hennar valdi hefur verið, til þess að auka þessi viðskipti. Þetta sér hver maður, sem athugar verzlunarskýrslur, og þetta veit hver maður sem vill sannleikanum fylgja og hafa hann að leiðarstjörnu, en ekki pólitískan áróður.

Varðandi Rússlandsviðskiptin vil ég aðeins taka það fram, að þar var einmitt í sumar af framleiðendum sjálfum og þeirra fulltrúum leitað eftir viðskiptum. Eftir að þessi viðskiptaráðstefna var austur í Moskva, þá símaði síldarútvegsnefnd strax til hlutaðeigandi einkasölu í Moskva. Ég mun áður hafa sagt, vegna þess að ég hafði ekki skjölin við höndina, að nefndin mundi ekki hafa fengið svar. Það er rangt. Hún fékk svör, en þau voru á þá leið, að ekki væri áhugi á síldarkaupum héðan.