29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (2775)

217. mál, rannsókn sjóslysa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hinn 12. des. s. l. var samþ. hér á hv. Alþ. þál., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara ýtarlega rannsókn á slysum þeim, sem orðið hafa á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum frá ársbyrjun 1948, og hverjar höfuðorsakir megi telja til slysanna. — Á grundvelli þessarar rannsóknar og með hliðsjón af löggjöf annarra þjóða um öryggisráðstafanir á skipum skal ríkisstj. undirbúa og fá lögfest svo fljótt sem verða má ákvæði, sem tryggi svo sem auðið er öryggi skipverja gegn slysum.“

Eins og ég nefndi í upphafi, þá var það fyrir miðjan des. s. l., sem Alþ. gerði þessa ályktun. Ég varð þess ekki vísari, að neitt væri gert í málinu, fyrr en allmörgum mánuðum seinna, en þá mátti lesa í blöðum hér fregnir um það, að skipuð hefði verið nefnd til þess að framkvæma þá rannsókn, sem hér um ræðir. Mér er ekki kunnugt um gang málsins síðan. Þó hef ég fregnað það, að n. mun hafa lokið störfum fyrir nokkru og skilað áliti sínu til ríkisstj. En þó að nú sé liðinn næstum mánuður af þessu þingi, þá hafa enn ekki komið frá hæstv. ríkisstj. neinar till. til úrbóta í þessu efni, þrátt fyrir það þó að þess megi vænta samkv. niðurlagi till., þar sem gert er ráð fyrir, að sett verði ný löggjöf á grundvelli þeirrar rannsóknar, sem framkvæma átti, og með hliðsjón af löggjöf annarra þjóða um þetta efni.

Ég hef þess vegna talið ástæðu til þess að bera hér fram þá fsp., sem ég hef flutt hér á þskj. 113, þar sem í fyrsta lagi er spurt um það, hvort rannsóknin hafi verið framkvæmd, sem ég tel að muni hafa verið gert samkv. því, sem ég sagði áðan; í öðru lagi, hver hafi orðið niðurstaða þessarar rannsóknar, um tíðni slysanna t. d., og þá sérstaklega um það, hvað telja mætti höfuðorsakir þeirra; og síðan í þriðja lagi, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hyggist gera á grundvelli þessara rannsókna, því að ég tel það skipta miklu máli, að ekki sé látið sitja aðeins við þau störf, sem þessi n. kann að hafa framkvæmt og mér er nú ekki kunnugt um niðurstöður af, heldur tel ég það mjög nauðsynlegt, að á grundvelli þessara rannsókna verði látið fylgja það, sem till. fer fram á, ný löggjöf, þar sem tryggt væri svo sem frekast mætti verða, að slysin yrðu ekki jafntíð og raun hefur verið á undanfarið.

Ég ætla ekki að ræða slysamálin út af fyrir sig neitt frekar, enda er ekki tími til þess í þessu sambandi, en vonast aðeins til þess, að hæstv. ríkisstj. gefi greið svör við þeim spurningum, sem hér eru settar fram.