29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2777)

217. mál, rannsókn sjóslysa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við fyrirspurn minni. Hann hefur leyst úr þeim spurningum, sem þar eru bornar fram. Hitt furðar mig aftur meira, að svo lítur út sem niðurstaðan af þeirri rannsókn, sem þarna hefur verið framkvæmd, sé sú, að hæstv. ríkisstj. telji ekki þörf á því að gera neitt frekar í málinu.

Það er náttúrlega ekki tækifæri til þess að fara að ræða þetta mál hér, en mér virðist af því, sem fram hefur komið hér hjá hæstv. ráðh., að þessi rannsókn hafi í fyrsta lagi ekki verið framkvæmd eins ýtarlega og þörf hefði verið á. Það er einum embættismanni ríkisins að vísu falið að yfirfara sjóprófin og gera skýrslu samkv. því, og síðan er nefnd, skipaðri fulltrúum frá mismunandi samtökum sjómanna, gefinn kostur á því að fylgjast með þessari skýrslugerð, og að vísu hefur hún að sjálfsögðu leyfi til þess að gera tillögur til úrbóta, en mér sýnist af öllu, að þetta starf allt saman hafi ekki verið framkvæmt jafnýtarlega og þörf væri á, enda þessi nefnd, að því er mér er tjáð, ólaunuð og hefur ekki talið sér fært að leggja mjög mikinn tíma í þetta verkefni. Eins og ég sagði áðan, þá virðist niðurstaðan líka vera sú, að hæstv. ríkisstj. telji ekki þörf á því að gera neitt frekar í málinu, og samkvæmt orðum ráðherra mun hún ekki að minnsta kosti hyggjast að bera hér fram neina till. um nýja lagasetningu í sambandi við þetta mál.

Eins og ég hef rakið ýtarlega í umræðum um þetta mál á fyrri þingum, þá er nú ástandið í þessum málum samt sem áður þannig, að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að það séu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að draga úr þessum tíðu slysum, og fyrst svo virðist vera, að hæstv. ríkisstj. ætli ekki að gera neinar slíkar ráðstafanir, þá geri ég ráð fyrir því, að það verði að gera tilraun til þess á einhverjum öðrum vettvangi.