29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

217. mál, rannsókn sjóslysa

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að samgmrn. hefur ekki talið nauðsynlegt að gera lagabreytingar vegna niðurstöðu þeirra rannsókna, sem fram hafa farið í þessum efnum. Ég veit hins vegar ekki, hvort það er eðlilegt að ámæla ráðuneytinu fyrir, að rannsókn sú, sem mælzt var til í þáltill. þeirri, sem hv. fyrirspyrjandi einnig bar fram og samþ. var 12. des. 1951, hefur verið framkvæmd með þeim hætti sem hún var framkvæmd. Ég hef nú að sönnu ekki kynnt mér ræðu þá, sem hv. þm. flutti, þegar hann bar fram þá till. Í sjálfri tillögunni er ekkert, sem gefur tilefni til að ætla, að honum finnist það ófullnægjandi rannsókn málsins, að skipaskoðunarstjóra ríkisins sé af ráðuneytinu falið að semja skýrslu um þau sjóslys, sem orðið hafa á því árabili, sem tillagan fjallar um, og jafnframt að gefa ráðuneytinu leiðbeiningar um það, hvað hann telji að þurfi að gera í tilefni þeirra upplýsinga, sem í ljós koma við samdrátt eða rannsókn þeirra gagna, sem fyrir liggja í þessum málum. Og allra sízt hefði ég haldið, að ráðuneytið þætti ámælisvert, þegar það þá jafnframt fer fram á það við svo merka aðila sem Sjómannafélag Reykjavíkur, Farmanna- og fiskimannasambandið og Slysavarnafélag Íslands, að þeir nefni aðila, sem fylgist með öllum þessum rannsóknum og gefi einnig umsögn um málið. Og ég vil ekki að svo stöddu máli fallast á, að það séu rökstudd ámæli í garð rn., að það ekki sér til gamans eða einhverjum öðrum til eftirlætis fari að setja nýja löggjöf í þessum efnum, þegar upplýst er af hæstv. dómsmrn., að allt það, sem felst í tillögum hinna dómbærustu aðila, er þegar í íslenzkum lögum, en að svo miklu leyti sem um framkvæmdaratriði er að ræða, sem er þarna á einu sviði, þá kveðst dómsmrn. munu tryggja öruggari framkvæmd í þeim efnum.

Ég hef aldrei búizt við því, að slík till. eins og sú, sem hér er fram borin, geti verið borin fram einvörðungu til að sýnast. Sjóslys eru allt of alvarleg mál til þess, að Alþ. Íslendinga geti teflt þeim fram sem leiktjöldum í stjórnmálabaráttunni, og ég verð alveg hreinskilnislega að viðurkenna, að þó að ég hafi verið nokkuð við sjávarútveg riðinn og einnig í mínu embættisstarfi, þá hef ég alls ekki getað komið auga á, að hér hafi verið um vanrækslu að ræða.

Ég býst við, að hv. fyrirspyrjandi viti það, að auðvitað hafa farið fram bæði rannsóknir og málsóknir gegn einstökum aðilum í sambandi við slys, þegar þótt hefur orka tvímælis, hvort ákveðnir aðilar yrðu taldir ábyrgir fyrir því, sem skeð hefur. Það verður ekki hjá því komizt — ég játa það — að viðhafa eðlilega hörku við rannsókn slíkra mála, því að það má ekki láta undir höfuð leggjast neitt það, sem gæti skapað líkur fyrir, að endurtekningarnar yrðu færri og minni í þessum efnum. Hins er svo náttúrlega líka að gæta, að vanalega er sársaukinn svo mikill í sambandi við slíkt, að menn geri engan leik að því að hafast meira að fyrir opnum tjöldum heldur en nauðsynlegt þykir. Það er oft, þegar slys verða, að það eru fleiri, sem finna til, heldur en aðeins ástvinir þeirra, sem fyrir slysunum verða, og nefni ég þar náttúrlega fyrst og fremst til sakaraðila, ef um verulega sök einhvers er að ræða á slysinu. En það er nú samt sem áður svo, að ekki verður komizt hjá í slíkum efnum að viðhafa einarðlega hörku, því að það telja menn og þá sjálfsagt með réttu, að með því móti yrði helzt girt fyrir, að gáleysi eigi sér stað í þessum efnum.