29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

218. mál, uppbót á sparifé

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Drátturinn á greiðslu uppbótanna orsakast af því, að það er ekki fyrr en á þessu ári, að stóreignaskatturinn var innheimtur. Og fyrr en sýnilegt var, hvernig skatturinn greiddist, með reiðu fé eða skuldabréfum, var ekki hægt að ákveða, a. m. k. ekki auðvelt, hvort unnt yrði að greiða uppbæturnar í peningum eða hvort notuð yrði heimild sú, sem gefin er í lögunum um, að ríkissjóður megi greiða þær með skuldabréfum. Fjmrn. hefur nú ákveðið, að uppbæturnar verði greiddar með ríkisskuldabréfum. Undanfarið hefur farið fram athugun um framkvæmd málsins, sem að mörgu leyti sýnist vera erfið, en nú er svo komið, að reglugerð hefur verið gefin út í samræmi við lögin, og auglýsing verður gefin út næstu daga um innköllun í þessu sambandi.