29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

219. mál, launalög

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Gildandi lög um laun opinberra starfsmanna eru frá árinu 1945. Vegna hækkunar verðlags og hækkunar á grunnkaupi ýmissa launastétta urðu lög þessi þegar úrelt á næstu árum. Opinberir starfsmenn drógust aftur úr öðrum launastéttum eins og fyrri daginn. Þetta var að nokkru viðurkennt af hæstv. ríkisstj. sumarið 1949 með skipun nefndar til þess að endurskoða gildandi launalög. Á þinginu 1950 voru síðan samþykkt ákvæði, fyrst í þáltill. og síðan í fjárlögum, um nokkra bráðabirgðahækkun á launum opinberra starfsmanna. Skyldi grunnkaupshækkunin nema frá 10 og upp í 17% á grundvöllinn frá 1945. Tvímælalaust er, að þessi hækkun á launum opinberra starfsmanna er í heild lægri, en hjá ýmsum öðrum, ef ekki flestum launastéttum. Þó má segja, að þeir, sem eru í 10. flokki og lægri flokkum, hafi fengið nokkurn veginn sambærilega hækkun við hliðstæðar starfsgreinar innan Alþýðusambands Íslands, en allir þeir, sem eru í 9. flokki og hærri flokkum, hafa fengið talsvert minni launahækkun heldur en menn hafa fengið að meðaltali innan Alþýðusambandsins t. d. Þess er auk þess að geta, að þessi hækkun á launum opinberra starfsmanna er greidd samkv. þál. og fjárlagaákvæðum, en hefur ekki hlotið staðfestingu í sjálfum launalögunum.

Mér er ekki um það kunnugt, hvort nefnd sú, sem skipuð var sumarið 1949, hefur endanlega lokið störfum. Ég hygg þó, að Bandalag opinberra starfsmanna hafi fengið málið til einhverrar athugunar og skipað einhverja nefnd í það. Mér er heldur ekki kunnugt um, hvort sú nefnd hefur endanlega lokið störfum. Af þeim sökum eru þessar fyrirspurnir fram bornar.

Það er mikið hagsmunamál opinberra starfsmanna að fá þær launauppbætur, sem þegar hafa verið viðurkenndar í reynd, færðar inn í sjálf launalögin, og það þarf að bæta þessi ákvæði, sem nú þegar eru í gildi, framkvæma ýmsar tilfærslur á milli flokka og því um líkt, en síðast en ekki sízt ber brýna nauðsyn til þess, að upp í launalögin sjálf verði tekin ákvæði um sjálfkrafa endurskoðun á þeim, ef tiltekin breyting verður á kjörum annarra launastétta í landinu, til þess að opinberir starfsmenn þurfi ekki svo að segja árlega að heyja baráttu fyrir því að verða ekki allt of mikið á eftir öðrum launastéttum í landinu hvað kaup snertir. Opinberir starfsmenn hafa ekki gengið á undan öðrum stéttum í kaupkröfum. Þeirra barátta hefur fyrst og fremst miðazt við það að verða ekki allt of langt á eftir. Það hefur jafnvel dregizt í 3–5 stundum í 10 ár fyrir þá að fá sams konar launahækkanir og aðrar stéttir hafa fengið. Við svo búið má ekki lengur standa. Þess vegna þarf að koma inn í lögin ákvæði um sjálfkrafa hækkun á launum opinberra starfsmanna, ef hækkun verður á launum annarra stétta. — Með tilliti til þessa er mér mikil forvitni á að vita, hvort hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að leggja fyrir Alþ. það, sem nú situr, frv. til nýrra launalaga.