12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

220. mál, þátttaka Íslands í Bernarsambandinu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þessi fsp., sem er á þskj. 113, 5. liður, var hér til umr. í síðasta fyrirspurnatíma, og var þá ekki svarað af minni hálfu nema einum lið fsp., um það, hverjar hefðu verið heildartekjur STEFS frá ríkisútvarpinu, en það eru þær tölur, sem rn. hafði tök á að afla sér. Hins vegar tók ég fram, að leitað hefði verið til þessa fyrirtækis (STEFS) um upplýsingar um þá liði, sem fsp. að öðru leyti fjallaði um, og fékk rn. það svar, að forstjóri þess væri þá erlendis og óskað væri, að fsp. yrði ekki svarað af hendi fyrirtækisins fyrr en hann kæmi heim. Nú er forstjórinn kominn heim, og rn. hefur fengið svo hljóðandi svar frá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEFI. Ég leyfi mér að lesa upp bréfið:

„Vegna munnlegra tilmæla hr. Jóhannesar Elíassonar, fulltrúa hins háa menntmrn., um ýtarlegri svör við fsp. en getið er í bréfi voru til ráðuneytisins, dags. 4. þ. m., út af bréfi rn. 25/10 dagbók L12, S11, B 3 og 4, hefur stjórn STEFS á fundi sínum 7. þ. m. samþykkt eftirfarandi ályktun:

Formaður lagði fram samrit af bréfi hans til menntmrn., dags. 4. nóv. s. l., varðandi fsp. Gylfa Þ. Gíslasonar á Alþ. um starfsemi STEFS og skýrði frá því, að fulltrúi menntmrh., Jóhannes Elíasson, hefði munnlega óskað eftir ýtarlegri svörum við ofangreindri fsp.

Samþykkt var að svara tilmælum þessum á þann hátt, að samkv. löggildingu STEFS væri aðeins skylt að láta ráðuneytinu í té endurskoðaða ársreikninga félagsins, en að öðru leyti væri STEFI ekki skylt að gefa ráðuneytinu eða Alþ. frekari upplýsingar en hverju öðru einkafyrirtæki. Jafnframt var Jóni Leifs, Gústaf A. Sveinssyni og Sigurði Reyni Péturssyni falið að ganga á fund ráðherra og tjá honum þessa afstöðu stjórnarinnar.“

Ég hef litlu við að bæta þessa ályktun, en vil gjarnan skýra frá því, að það, sem rn. hefur í höndunum frá þessu fyrirtæki, er ársreikningur frá 1951, sem gefur vissar reikningslegar upplýsingar, en vegna þess að reikningurinn gefur ekki þær upplýsingar, sem beðið er um, þá tel ég ekki ástæðu til að fara neitt út í hann.