12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

220. mál, þátttaka Íslands í Bernarsambandinu

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós mestu vonbrigði út af því svari, sem hæstv. menntmrh. veitti. Ég ásaka hann að vísu ekki í þessu sambandi, hann hefur ekki getað gert meira en hann gerði á þessu stigi málsins. Ég furða mig hins vegar á stjórn STEFS, sem hefur látið sér sæma að neita menntmrn. og þar með Alþ. um vitneskju um þá hluti, sem hér er um spurt.

Ég vil aðeins með örfáum orðum vekja athygli á því, um hvað er að ræða. Það er spurt um, hversu mikið STEF hafi greitt íslenzkum og útlendum mönnum fyrir höfundarrétt. Það er spurt um, hversu miklu nemi 10 hæstu greiðslurnar og 10 lægstu greiðslurnar og hversu miklu hafi numið stjórnar- og skrifstofukostnaður STEFS, síðan það var stofnað; enn fremur, hversu mikið hafi verið yfirfært á vegum STEFS til erlendra manna vegna höfundarréttar, síðan Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu, og hversu mikið sé óyfirfært af slíku fé, og í síðasta lagi, hversu miklar gjaldeyristekjur á vegum STEFS íslenzkir menn hafi hlotið á sama tíma.

STEF hlýtur að hafa upplýsingar um allt þetta, sem um er spurt, og hlýtur að geta gefið upplýsingarnar með mjög lítilli fyrirhöfn; þær eiga allar saman að liggja fyrir. Ég sé ekki betur en að hér sé því STEF í raun og veru að segja ríkisvaldinu stríð á hendur með því að neita að gefa þessar sjálfsögðu upplýsingar, sem allir, menntmrn. og Alþ. og raunar hver sem er, ættu að eiga heimtingu á að fá að vita, og mun ég fyrir mitt leyti ekki láta þetta mál kyrrt liggja.

Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á því vandamáli, sem hér er í raun og veru um að ræða. Samkv. íslenzkum höfundal. er réttur höfunda tvenns konar. Annars vegar er sá réttur, sem kalla mætti prentrétt, þ. e. a. s. rétturinn til að prenta bækur og prenta tónverk, og hins vegar flutningsrétturinn. Hvor tveggja rétturinn er verndaður. Höfundur ritverks eða tónverks á rétt á gjaldi fyrir prentleyfi verksins, og hann á rétt á gjaldi fyrir flutningsleyfi á verki sínu. Þegar tónskáld selur útgefanda lag til útgáfu, á hann rétt á gjaldi fyrir það. Með því selur hann hins vegar ekki réttinn til að flytja lagið, ef það er gert fyrir peninga. Hann á enn þá rétt á gjaldi af hálfu þess, er flytur lagið opinberlega og tekur gjald fyrir. Þessi réttur er verndaður í íslenzkum höfundalögum. Samkv. þeim eru öll hugverk lögvernduð. Þetta er sjálfsagt. Móti þessum réttarreglum mæli ég auðvitað ekki. Það er nauðsynlegt að tryggja öllum höfundum, bæði íslenzkum og erlendum, réttmætar tekjur af útgáfu og flutningi verka þeirra, enda hefur það verið svo hér. Það, sem síðan gerðist, þegar Íslendingar gerðust aðilar að Bernarsambandinu, var, að þá var erlendum höfundum tryggður sami réttur á Íslandi og íslenzkum höfundum og íslenzkum höfundum sami réttur erlendis og erlendum höfundum þar. Sams konar reglur gilda í alheimssambandi Stefjanna, sem hið íslenzka STEF er nú orðið aðili að. Gildandi reglur eru því þær, að ef t. d. íslenzka ríkisútvarpið fellst á að greiða íslenzkum tónskáldum ákveðna upphæð fyrir klukkutíma flutning í ríkisútvarpinu, þá verður það að greiða erlendum höfundum sama gjald fyrir klukkutíma flutning á erlendri tónlist í útvarpið. Þessi regla er mjög hæpin fyrir smáþjóð eins og Íslendinga. Það er mjög erfitt að vera listamaður á Íslandi sökum smæðar þjóðarinnar. Við viljum gera vel við íslenzka höfunda, tónskáld jafnt sem aðra höfunda. Við höfum gert vel við íslenzka höfunda, og ég tel, að við eigum að gera enn betur. En þótt við viljum borga íslenzkum höfundum vel, þá má það ekki sökum hinna sérstöku aðstæðna hér skapa okkur skyldu til þess að borga útlendum höfundum jafnmikið. Ef svo er, þá verður þetta kerfi hér á landi í reyndinni aðallega innheimtukerfi á höfundarlaunum fyrir útlendinga, vegna þess að tekjuöflunarmöguleikar okkar á þessu sviði eru enn sem komið er litlir, því miður allt of litlir. En þangað til þeir vaxa mjög verulega, verður kerfið fyrst og fremst að innheimtukerfi fyrir útlenda rétthafa.

Annað í þessu máli er svo það, að kerfið, eins og það nú er framkvæmt, hefur í för með sér gífurlegan innheimtukostnað. Hæstv. viðskmrh. skýrði frá því hér síðasta miðvikudag, að ríkisútvarpið hefði þegar greitt til STEFS 700 þús. kr. Það, sem íslenzk tónskáld hafa fengið greitt í sinn hlut af þessum 700 þús. kr., mun nema mjög smáum upphæðum. Ég átti núna í hádeginu tal við eitt kunnasta og mikilvirkasta tónskáld Íslendinga. Hann sagði mér, að hann hefði fengið í höfundarlaun á þeim 4–5 árum, sem STEF hefði starfað, milli 300 og 400 kr. Ég veit um tónskáld, sem hefur fengið nokkra tugi króna, ég veit um tónskáld, sem hefur fengið minna en 10 kr. í höfundarlaun fyrir þessi 4–5 ár, sem þetta kerfi hefur verið í gildi.

Mér hefur skilizt, að áætlaðar tekjur STEFS á ári muni vera um 300 þús. kr. Gert hefur verið ráð fyrir því, að hér um bil helmingur af þessari fjárhæð fari í innheimtukostnað og skiptingarkostnað á höfundarlaunum, eða um 150 þús. kr. Af afganginum er gert ráð fyrir, að um 10% fari í sérstakan sjóð, sem er góðra gjalda vert, svo kallaðan tónlistarsjóð, sem er til að styðja útgáfu íslenzkra tónverka, eða 15 þús. kr. Afgangurinn er þannig um 135 þús. kr. miðað við eðlilegan framtíðarrekstur fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir því, að því er mér er tjáð, að aðeins 10% af þeirri upphæð gangi til íslenzkra tónskálda, þ. e. a. s. um 13.500 kr. á ári, en afgangurinn til erlendra höfunda, eða um 121.500 kr., sem auðvitað þarf fyrr eða síðar að yfirfærast í erlendum gjaldeyri. Þannig virðist mér, að þetta kerfi, ef það fær að haldast algerlega óbreytt, muni starfa. M. ö. o.: Af 300 þús. kr. árstekjum fer helmingurinn í innheimtukostnað, 10% í tónlistarsjóð, 13.500 kr. til íslenzkra höfunda, en 121.500 kr. til erlendra höfunda, sem verður að greiðast í gjaldeyri.

Ég veit ekki, hvort ég þarf að eyða að því fleiri orðum, að þetta kerfi má ekki standa svona algerlega óbreytt. Spurningin er þá, hvað á að gera til þess að leiðrétta þetta. Það, sem þarf að gera, er fyrst og fremst, að meiri hluti hins innheimta fjár gangi til íslenzkra tónskálda. Og í öðru lagi þarf að gera ráðstafanir til þess, að hinn gífurlegi innheimtukostnaður minnki mjög verulega. Íslenzku höfundalögin er eðlilegt að séu eins og þau eru. Við því verður ekkert gert, enda eiga erlendir kröfuhafar skýlausan rétt samkvæmt þeim. En það verður að breyta þessu kerfi einhvern veginn í grundvallaratriðum til þess að tryggja höfundunum sjálfum meiri hluta teknanna og til að minnka skrifstofukostnaðinn.