05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

110. mál, malbikun vega

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Samkvæmt l. nr. 84 frá 6. júlí 1932 er innheimt það, sem kallað er „sérstakt innflutningsgjald af benzíni“. Það er sérstakt vegna þess, að það er umfram aðra innflutningstolla, bæði vörumagnstoll og verðtoll, og þetta sérstaka innflutningsgjald nemur nú orðið hvorki meira né minna en 31 eyri á hvern lítra. Sömuleiðis er innheimt sams konar sérstakt innflutningsgjald af hjólbörðum og slöngum til bifreiða, sem nemur 3 kr. á kg. Enn fremur er samkvæmt þessum sömu l. innheimtur þungaskattur á bifreiðar, sem nú nemur 36 kr. á hver 100 kg bifreiðar. Í l. er tekið fram, að þetta eigi að vera til viðhalds og umbóta á akvegum, og síðar skilgreint nánar um það efni.

Samkvæmt fjárlagafrv. því, sem nú liggur hér fyrir hv. Alþ., þá áætlar hæstv. fjmrh. tekjur af þessu sérstaka innflutningsgjaldi af benzíni 9 millj. og 200 þús. kr. samkv. 5. lið 2. gr., og bifreiðaskattinn samkv 9. lið sömu gr. áætlar hann 3 millj. og 300 þús., eða þetta til samans 12 millj. og 500 þús., og er þá í rauninni ekki hægt að sjá, hvort í því eru innifaldar tekjur þær, sem ég nefndi áðan, af hjólbörðum og slöngum, en þó geri ég ráð fyrir því, að það muni vera innifalið í þessum tölum. En tekjur samkvæmt þessum l. eru þá á fjári lagafrv. áætlaðar 12½ millj. kr. Í 8. gr. þessara l., sem ég nefndi, eru síðan fyrirmæli um það, hvernig þessu fé skuli ráðstafað, og er þá í a-lið þeirrar gr. gert ráð fyrir því, að helmingnum af tekjum samkvæmt þessum l. sé varið til almenns viðhalds á þjóðvegum. Síðan koma í b-lið þannig fyrirmæli, með leyfi hæstv. forseta:

„15% af hvers árs tekjum má verja til akfærra sýsluvega og ræktunarvegarins í Vestmannaeyjum, samkvæmt reglugerð, er atvmrh. setur.“

15% af þeirri upphæð, sem ég áðan nefndi, mundu nema 1 millj. 875 þús. kr., en á fjárl.frv. get ég ekki fundið, að nein upphæð sé tekin til úthlutunar á þessum tekjum. Það er að vísu einn liður á fjárlfrv. um framlag til sýsluvega, en það er samkv. öðrum l., sem það framlag er, en ekki þeim, sem hér um ræðir.

Síðan kemur e-liður 8. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„20% af hvers árs tekjum skal verja til þess að greiða aukakostnað, er af því stafar að malbika þjóðvegskafla eða gera slitlag úr öðru varanlegu efni þar, sem mest er umferð bifreiða, og til að halda þeim köflum við.“

20% af þeirri upphæð, sem ég áðan nefndi, mundu nema 2½ millj. kr., en þann lið hef ég ekki heldur getað fundið neins staðar á fjárlfrv.

Síðan er d-liður 8. gr. enn þá um ráðstöfun þessa fjár. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „15% af hvers árs tekjum skal verja til þess að malbika umferðarvegi í kaupstöðum og verzlunarstöðum með fleiri en 300 íbúum eða gera á þeim slitlag úr öðru varanlegu efni.“

15% af þessari upphæð eru, eins og ég nefndi áðan, 1 millj. og 875 þús. kr. Í fjárlfrv. er að vísu liður um þetta efni, þ. e. á 13. gr. VIl., til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum og verzlunarstöðum af bifreiðaskatti, 100 þús. kr. En sú upphæð er ekki nema aðeins rúmlega 5% af því, sem ætti að vera samkvæmt þessu lagafyrirmæli.

Út af þessu hef ég leyft mér að bera fram þá fyrirspurn, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. um það, hvers vegna hæstv. fjmrh. fari ekki eftir þessum lagafyrirmælum, sem ég hef nefnt, og tekið á fjárlögin útgjaldaliði, sem þessu nemur. Er það kannske af því, að hæstv. ráðh. finnist ástand þjóðveganna og gatnanna í þeim kaupstöðum og verzlunarstöðum, sem hér eiga hlut að máli, vera þannig, að ekki sé þörf á því að vinna þar betur að, eftir því sem efni standa til? En efnin virðast vera hér fyrir hendi til allmiklu meira en notað er í þessu skyni.