05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

221. mál, innflutningur fólksbifreiða

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ef til vill er því ofaukið hér á hv. Alþ., að menn reki sínar persónulegu raunir, en þó ætla ég að gera það lítils háttar að þessu sinni.

Síðastliðinn áratug hef ég gert allmargar tilraunir til þess að fá innflutningsleyfi fyrir fólksbifreið með það fyrir augum að hafa atvinnu af akstri hennar. Þetta hefur gengið mjög illa, og hefur mér alla tíð verið neitað um slíkt leyfi. Á árinu 1946 komst þetta þó svo langt, að þáverandi hæstv. viðskmrh. gaf mér ákveðið loforð fyrir því, að ég skyldi þá um haustið fá keypta eina af bifreiðum þeim, sem það ár voru fluttar inn á vegum ríkisstj. og ætlaðar ýmsum starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana. Þetta fór þó á annan veg. Þetta haust slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi því, sem kennt er við nýsköpunina í íslenzku atvinnulífi, og við sósíalistar vorum settir utangarðs á nýjan leik. Og svo undarlega brá við, að í sama mund tilkynnti þáverandi hæstv. viðskmrh. mér, að því miður yrði engin bifreið eftir handa mér af þeim áður nefndu bifreiðum, sem hann hafði til ráðstöfunar. Síðan hef ég oft sótt til innflutningsyfirvaldanna um innflutningsleyfi fyrir bifreið og átt um það ítrekaðar viðræður við þá hæstv. viðskmrh., sem setið hafa að völdum. En þetta hefur, eins og áður segir, engan árangur borið og því allajafna borið við, að vegna gjaldeyrisörðugleika væru engin innflutningsleyfi veitt fyrir fólksbifreiðum. Nálægt miðju s. l. sumri gerði ég síðustu ferð mína þessara erinda upp í viðskmrn. og tjáði hæstv. núverandi viðskmrh., hversu ómögulegt það væri fjárhagslega að stunda bifreiðaakstur sem atvinnu á minni tólf ára gömlu bifreið. Ég var svo heimskur að halda, að ef til vill mundi hann skilja þetta betur þá en áður, af því að ég vissi, að einmitt þá dagana var hann að endurnýja sína einkabifreið, Cadillac 1947, með fallega Buicknum, sem þið væntanlega hafið séð standa hérna fyrir utan. En það var sama sagan og áður: Enginn gjaldeyrir til, því miður, og þess vegna engin innflutningsleyfi veitt fyrir fólksbílum. Nú var að vísu upplýst af einum stuðningsmanni ríkisstj. í umr. hér á hv. Alþ. fyrir skömmu, að s. l. áratug hafi verið fluttar inn nokkuð á annað þúsund fólksbifreiðar, svo að einhver leyfi virðast hafa verið veitt. Og nú á s. l. sumri hefur mátt líta hér á götum Reykjavíkur og víðar allmikinn fjölda nýrra og glæsilegra lúxusbíla, sem maður fær tæplega skilið að séu hingað komnir í algeru leyfisleysi eða án þess, að allverulegri gjaldeyrisupphæð hafi verið varið til kaupanna. Í umr., sem ég áðan vitnaði til, spurði ég hæstv. viðskmrh., hverju þetta sætti og hvort þetta væri vottur þess, að gjaldeyrisástandið væri orðið það gott, að jafnvel ég gæti búizt við því að fá innflutningsleyfi fyrir bifreið til atvinnuaksturs. Hæstv. ráðh. skaut sér þá undan því að svara, og þess vegna hef ég borið formlega fram þær fyrirspurnir, sem hér liggja fyrir, og vona að fá við þeim glögg og góð svör.