05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

221. mál, innflutningur fólksbifreiða

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf, svo langt sem þau náðu. Þó voru þau ekki eins glögg og ég hafði búizt við að þau mundu verða.

Ef ég hef tekið rétt eftir, þá upplýsti hann í fyrstu, að fluttar hefðu verið inn 48 bifreiðar samkv. fullkomnum innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, en í þeirri sundurliðun, sem hann síðan gaf, fæ ég ekki fram nema 31, og vantar þá að vita, til hverra hefur verið úthlutað hinum 17. (Gripið fram í.) Mér skildist, að þér segðuð, að það hefði verið úthlutað með fullu leyfi 48 bifreiðum (Gripið fram í.) Þá bið ég afsökunar á því, ef það hefur verið misheyrn.

En síðan er það þá viðvíkjandi hinum 40 bifreiðunum, sem fluttar eru inn án gjaldeyrisleyfis. Hæstv. ráðh. var að vísu með ýmsar skýringar á því, sem hann hafði eftir fjárhagsráði, en ég álít nú, að það séu ekki fullnægjandi skýringar, a. m. k. ekki eins og þær voru fluttar hér, og mig furðar það nokkuð mikið, hvernig skuli vera hægt að flytja inn jafnmikinn fjölda bifreiða á jafnskömmum tíma og hér er um að ræða, án þess að fyrir því séu veitt gjaldeyrisleyfi. Ég veit satt að segja ekki, hvaðan menn geta með löglegum hætti fengið svo mikinn gjaldeyri til umráða. Mér er ekki kunnugt um það, að samkv. l. séu það aðrir en bankarnir, sem hafa gjaldeyri til umráða. Ég held, að allir þeir, sem flytja út vörur og fá fyrir þær gjaldeyri, séu lögum samkvæmt skyldaðir til þess að skila honum til bankanna og síðan verði honum ekki ráðstafað þaðan öðruvísi, en í samráði við innflutningsyfirvöldin, þ. e. a. s. með gjaldeyrísleyfum. Það er að vísu til, að þeir, sem vinna sér fyrir gjaldeyri persónulega, fá leyfi til að ráðstafa honum, þó ekki nema að einhverju leyti. En að Íslendingar hafi unnið sér fyrir gjaldeyri á þann hátt, sem nægi til þess að flytja inn þann fjölda bíla, sem hér um ræðir, það held ég að varla geti staðizt. — Samt sem áður vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið í þessu efni. Þó að ég telji þær í raun og veru alls ekki fullnægjandi, þá er þó bót að því að hafa fengið þær, svo langt sem þær ná.