12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2809)

125. mál, gæðamat iðnaðarvara

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Hinn 31. jan. 1951 var samþ. hér á Alþ. svo hljóðandi þál.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt hægt sé að tryggja gæðamat iðnaðarvara, innlendra og erlendra, sem seldar eru hér á landi.“

Síðan þessi ályktun var samþ. hefur komið æ betur og betur í ljós, að framkvæmd hennar er fyrir margra hluta sakir mikið nauðsynjamál. Hér hefur risið upp margháttaður innlendur iðnaður, sem einmitt frá þessum tíma hefur orðið að keppa við erlenda iðnaðarvöru bæði um verð og gæði. Forráðamenn iðnaðarins munu hafa fullan hug á því að framleiða ekki nema það sem gott er og getur staðizt allan samanburð við erlendar iðnaðarvörur, en auk ýmissa tæknilegra byrjunarörðugleika þarf á þessu sviði að vinna bug á hleypidómum fólks og vanmati á því, sem íslenzkt er. Með hlutlausu gæðamati iðnaðarvara og auglýsingum um matið í hverju einstöku tilfelli væri hægt að fá samanburð á því, hvað væru hagfelldustu kaupin hverju sinni. Með þessu ynnist bæði það, að fólk fengi á því glöggan skilning, hvað það ætti að kaupa, og yfirburðir þess varnings, sem betri væri, kæmu í ljós. Sannleikurinn er sá, að fólk virðist oft ekki hafa mikla vöruþekkingu, sem ef til vill er ekki við að búast. Oft kaupa menn fremur dýra vöru en ódýra án þess að hafa nokkra aðra tryggingu fyrir gæðunum heldur en þá, að varan er dýr. Og iðulega láta menn framleiðslugalla, sem eitt sinn kunna að hafa verið á innlendu vörunni, verða þess valdandi, að þeir kaupa aldrei framar sams konar innlenda vöru, þótt þessir gallar séu nú ekki lengur fyrir hendi. Hlutlaust gæðamat gæti orðið til þess að vinna á móti ótrú, sem því miður enn þá er fyrir hendi á innlendri framleiðslu, og það gæti líka orðið til þess, þar sem þess er þörf, að fá innlend fyrirtæki til þess að vinna enn þá betur og fjarlægja galla, sem kunna að vera á framleiðslu þeirra og gera það að verkum, að hún stenzt ekki samanburð við erlendar vörur. Einnig gæti verið nauðsynlegt að fá samanburð á innlendu framleiðslunni innbyrðis og leiðbeiningar um það, hvað væri hið bezta í hverjum vöruflokki. Gæðamat ætti m. ö. o. að geta unnið í þá átt að verða neytandanum trygging fyrir því, að hann geri hagkvæm vörukaup, og einnig ætti það að geta orðið til þess, að innlend framleiðsla fengi öruggan samanburð við þá erlendu hvað verð og gæði snertir. Ætti af þeim samanburði að leiða það, að innlenda framleiðslan yrði fremur keypt en innfluttar vörur, þar sem þær erlendu af einhverjum ástæðum eru mörgum sinnum dýrari, eins og t. d. á sér stað með kertin núna, en gæðin hin sömu, og einnig að þar sem innlendi iðnaðurinn stendur til bóta, þá sé það vitað og framleiðandinn læri af því.

En það er fleira í sambandi við gæðamat, sem þarf að taka til athugunar, og er það varðandi innflutning á vörum, sem ekki eru framleiddar hliðstæðar vörur við hér. Á Norðurlöndum eru stofnanir, rannsóknarstofnanir heimilanna, sem rannsaka og bera saman heimilistæki stór og smá, hollustu fæðutegunda o. s. frv. Þessar stofnanir gefa út yfirlit um athuganir sínar og benda m. a. á þau tæki, sem þær mæla með, og jafnframt hvers vegna mælt er með þessum tækjum í samanburði við önnur. Nú veit ég til þess, að heimilistæki, smáhlutir eins og sleifar, þeytarar og eldhúshnífar, sem mælt hefur verið með af þessum stofnunum, hafa verið flutt inn og seld hér í verzlunum við hliðina á öðrum tækjum, án þess að þess væri að nokkru getið, að hér væri um úrvalstæki að ræða. En það er sagt t. d. um þessa þeytara, að þeir séu svo góðir, að húsmæðurnar sakni þess ekki svo mikið, þótt þær eigi ekki hrærivélar, ef þær hafa þá, og önnur tæki mörg eru svo góð, að konur, sem nota þau, telja heimilisstörfin allt önnur, þegar unnið er með þeim. Það er þá ein hlið á þessu máli, að við færum okkur í nyt gæðamat, sem aðrir gera, til þess að hjálpa fólki til þess að fá góðar vörur og réttar tegundir vara, miðað við það, sem á að nota þær til.

Gæðamat iðnaðarvara er mikið stórmál, en ég geri mér ekki vonir um, að náð verði yfir það allt í einu, en tel, að dregizt hafi of lengi, að byrjað væri á því, og að það megi ekki dragast lengur. Af þessum sökum hef ég borið fram fsp. á þskj. 179.