19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (2815)

222. mál, veðlán til íbúðabygginga

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn á þskj. 179 varðandi þál. um veðlán til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum, er samþykkt var á síðasta þingi. Þál. þessi var um það að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því í sambandi við endurskoðun bankalöggjafarinnar, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess, að þeir, sem vilja koma upp nauðsynlegum íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum, geti fengið til þeirra hæfileg 1. og 2. veðréttar lán með viðunandi kjörum, og að byggingarfélög verkamanna, byggingarsamvinnufélög og aðrir, sem byggja smáar íbúðir til eigin nota, verði látnir sitja fyrir slíkum lánum. Þá er gert ráð fyrir því í ályktun þessari, að ef með þarf, verði komið upp sérstakri veðlánastofnun í þessum tilgangi og hafi sú stofnun milligöngu um útvegun innlends og erlends fjármagns til íbúðarhúsabygginga. Eins og fram kemur af ályktuninni, var svo ráð fyrir gert, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að í sambandi við störf mþn. í bankamálum og nýja heildarskipun bankamála yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja heppileg veðlán til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum. Er miki1 nauðsyn á því, þar sem öllum er kunnugt um þau vandkvæði, sem á því eru að fá lán til íbúðarhúsabygginga. Stofnun, sem ætlað var að gegna því hlutverki að veita slík lán, veðdeild Landsbankans, hefur nú orðið mjög litla þýðingu í þessu sambandi, og aðrar stofnanir, sem veitt hafa lán til íbúðarhúsabygginga, hafa fé af skornum skammti. Má þar nefna byggingarsjóð kaupstaða og kauptúna, sem lánað hefur fé til byggingar verkamannabústaða, en hefur á síðari árum haft allt of lítið fé til ráðstöfunar. Byggingarsamvinnufélög hafa enga möguleika til fjárútvegana fyrir félagsmenn sína, og lánadeild smáíbúðarhúsa gat á s. l. sumri ekki gert úrlausn nema fáum af þeim fjölda manna, sem sótti um lán til þeirrar stofnunar. Það, sem vantar, eru almennir möguleikar fyrir hæfilegum 1. og 2. veðréttar lánum út á hús, sem byggð eru eða eigendaskipti verða að. Og við framtíðarskipun þessara mála þarf að ganga þannig frá, að hver sá maður, sem hefst handa um byggingu hæfilegrar íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína, geti gengið að því nokkurn veginn vísu þegar í byrjun, að hann fái lán, og jafnframt hve háa upphæð hann fær á sínum tíma út á 1. og 2. veðrétt í húsi sínu.

Nú sem stendur er lánsfjárskorturinn ein aðalhindrunin fyrir því, að menn geti byggt yfir sig, og skapar það alveg ótrúlega erfiðleika fyrir almenning, hve lítið er um lánsfé. Oft ráðast menn í byggingar í þeirri von, að úr rætist, en þeim framkvæmdum fylgir áhætta og öryggisleysi. Byggingarnar verða dýrari en þörf væri á, og eigendur þeirra lifa í stöðugum ótta um það, að þeir komi aldrei húsi sínu upp. Þjóðfélagslega séð er þetta hættulegt til lengdar og óheilbrigt og fær oft þann endi, að menn komast í klærnar á mönnum, sem lána út fé með okurkjörum, og missa svo allt sitt upp í kröfur þeirra. Það er talað um það manna á milli sem opinbert leyndarmál, að hér sé rekinn svartur markaður með peninga, einkum í sambandi við lán til íbúðarhúsabygginga. Þessi okurlánastarfsemi er bein afleiðing lánsfjárskortsins, en það, að hún á sér stað, sýnir jafnframt, að til er eitthvert fé til lánastarfsemi, þótt viðurkenndar lánsstofnanir hafi það ekki til ráðstöfunar. Mun það vera staðreynd, að fé sé tekið út úr sjóðum bankanna til þess svo að lána það út, utan við þá, gegn hærri vöxtum en leyfðir eru og með háum afföllum.

Hlutverk veðlánastofnunar eins og þeirrar, sem gert er ráð fyrir í nefndri þál., mundi verða tvíþætt. Hún mundi veita með sanngjörnum kjörum lán til íbúðarhúsabygginga, og einnig mundi hún hafa milligöngu um útvegun fjármagns til þessarar lánastarfsemi. Það fé mundi mega útvega með ýmsum hætti, en sérstaka nauðsyn ber til þess, að veðlánastofnunin næði tökum á því fé, sem er í umferð til íbúðarhúsabygginga, til þess svo að lána það aftur út með eðlilegum hætti. Einnig mundi þurfa að verja öðru innlendu fjármagni til þessarar starfsemi, og sömuleiðis yrði að útvega stofnuninni erlent fjármagn. Fram til þessa hefur eingöngu verið byggt fyrir innlent fjármagn, þótt um geysimiklar íbúðarhúsabyggingar hafi verið að ræða undanfarið í kaupstöðum og kauptúnum. En þessar byggingar hafa aldrei verið teknar sem ein heild, þannig að lagt væri til þeirra erlent fjármagn. Stofnun, sem eingöngu hefði með höndum veðlánastarfsemi, mundi eiga auðveldara með það en aðrar lánsstofnanir og sjóðir að útvega erlend lán, og mætti vænta þess, að starfræksla slíkrar stofnunar gæti orðið til þess að auðvelda, að erlent fjármagn fengist til íbúðarhúsabygginga.

Nú mun störfum mþn. í bankamálum vera lengra komið en var, er hv. Alþ. afgreiddi þetta mál, og er því tímabært að fá fregnir af því, hvað líði ákvörðun nefndarinnar um þetta mikla nauðsynjamál og hvaða áætlanir ríkisstj. hefur gert í sambandi við það.