19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2816)

222. mál, veðlán til íbúðabygginga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hv. 8. þm. Reykv. vil ég leyfa mér að taka eftirfarandi fram :

Á síðasta Alþ. var samþ. svo hljóðandi þál.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því í sambandi við endurskoðun bankalöggjafarinnar, sem nú er hafin, að unnið verði að því eftirleiðis með sérstökum ráðstöfunum, að þeir, sem koma vilja upp nauðsynlegum íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum, geti fengið til þeirra hæfileg 1. og 2. veðréttar lán með viðunandi kjörum, og að byggingarfélög verkamanna, byggingarsamvinnufélög og aðrir, sem byggja smáar íbúðir til eigin nota, verði látnir sitja fyrir slíkum lánum, enda verði, ef með þarf, komið upp sérstakri veðlánastofnun í þessum tilgangi, er hafi milligöngu um útvegun fjármagns innanlands og utan til íbúðarhúsabygginga.“

Þessi þál. var svo send félmrn. til fyrirgreiðslu. Eins og ályktunin ber með sér, varðar hún að miklu leyti störf n. þeirrar, sem skipuð hefur verið eða skipuð var á síðasta þingi til þess að endurskoða bankalöggjöf landsins, og beinir því til þeirrar n. að taka málið sérstaklega til meðferðar. En tillögur þeirrar n. um þetta efni hafa að sjálfsögðu mikla þýðingu um, hvað gera skuli eða þurfi að gera yfirleitt í málinu. Félmrn. taldi því sjálfsagt að kynna sér fyrst, hverja afstöðu bankamálanefndin hefði til þessa máls og hvaða ákvæði kynnu að verða sett í hinni nýju bankalöggjöf varðandi þessi mál. Þál. var því s. l. sumar send frá félmrn. til formanns bankanefndarinnar, dr. Benjamíns Eiríkssonar, og jafnframt að því spurt, hvort í væntanlegum tillögum n. um breyt. á bankalöggjöfinni mundu verða tekin upp ákvæði, sem miðuðu að því að tryggja þeim, sem koma vildu upp nauðsynlegum íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum, hæfileg 1. og 2. veðréttar lán með viðunandi kjörum, og einnig, að byggingarfélög verkamanna, byggingarsamvinnufélög og aðrir, sem byggðu smáar íbúðir til eigin nota, yrðu látnir sitja fyrir slíkum lánum. Þess var sérstaklega óskað í þessu bréfi rn., að n. léti rn. í té þær upplýsingar, sem fyrir hendi væru um þessi efni, og það væri gert svo fljótt, að unnt yrði að gefa Alþ. skýrslu um málið, þegar það kæmi saman til funda næst. Svar frá n. hefur enn ekki borizt, en form. hefur upplýst það, að n. hafi ekki enn þá gefizt tóm til þess að taka mál þetta til verulegrar meðferðar eins og fyrirhugað væri. En meðan afstaða n. og till. þær, sem hún kann að vilja leggja fram í þessu efni, eru ekki vitaðar, þá er að sjálfsögðu mjög erfitt að vinna að frekari athugunum eða framgangi þessa máls. — Þetta vildi ég sérstaklega taka fram varðandi þetta atriði.

En á síðasta Alþ. var einnig samþ. önnur þáltill. varðandi þetta sama efni, en hljóðar dálítið öðruvísi. Hún hljóðar þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstjórninni að láta safna ýtarlegum skýrslum um lánsfjárþörf til íbúðabygginga og leggja fyrir þingið á grundvelli þeirrar rannsóknar till. til úrbóta, sem við það miðist, að hægt sé að fullnægja eðlilegri lánsfjárþörf til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum og bæta úr húsnæðisskortinum.“

Félmrn. sendi einnig báðar þessar þál. til Landsbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Sparisjóðs Reykjavíkur. En þessar tvær ályktanir eru að því leyti mjög skyldar, að þær fjalla að mestu um útvegun lánsfjár til húsbygginga eða þá um rannsókn á, hve þörf er mikil fyrir slíkar framkvæmdir. Og í bréfi sínu til þessara lánsstofnana bað rn. um upplýsingar um eftirfarandi atriði:

1) Hve mikið lánsstofnanir þessar og útibú þeirra lánuðu á árinu 1951 til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum.

2) Hversu miklu þessar lánveitingar hafa numið það sem af er árinu 1952.

3) Hversu miklu fé er líklegt, að lánsstofnanir þessar geti varið til lánveitinga til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum árið 1953.

Það var óskað eftir svörum sem fyrst. Að vísu voru þessi bréf heldur seint send út, en við óskuðum eftir svörum fyrir 1. okt. s. l., en svör um þessi atriði hafa enn ekki borizt, og hefur það verið ítrekað við þessar lánsstofnanir að gefa svörin sem allra fyrst. En fyrr en þessi svör liggja fyrir, er erfitt að gera sér verulega grein fyrir því, hversu mikið þarf að auka lánsfé til íbúðarhúsabygginga frá því, sem verið hefur, en það er að sjálfsögðu einn liðurinn í heildartill. í þessum efnum.

Þá vil ég einnig geta þess, að auk þess sem fyrr greind þáltill. um lánveitingar til íbúðabygginga, þar sem ákveðið var að safna skýrslum um lánsfjárþörf vegna íbúðarhúsabygginga, eins og áður er nefnt, var send til þessara lánsstofnana, sem ég var að geta hér um áðan, voru tillögurnar einnig sendar öllum bæjarstjórum og oddvitum í kauptúnum með 500 íbúum og þar yfir, og þessir aðilar hafa verið beðnir að láta í té skýrslu um heilsuspillandi húsnæði í byggðarlögum sínum, þar með skyldu taldir hermannabraggar, gamlir íbúðakjallarar, svo og aðrar vistarverur, sem fólk hefst við í, en ástæða væri til að útrýma sérstaklega. Jafnframt var svo óskað tillagna um, hvaða leiðir sýndust tiltækilegastar á hverjum stað til þess að útrýma hinu heilsuspillandi húsnæði og hvað sveitarsjóðir gætu eða vildu á sig leggja í því efni yfirleitt. Til þessa hafa svör borizt frá 4 kaupstöðum af 13 og 5 af 13 eða 14 kauptúnum, sem þetta var einnig sent til, og svörin berast væntanlega nú á næstunni.

Þar sem, samkvæmt því, sem ég hef nú skýrt hér frá, tilskilin og umbeðin gögn eru ekki komin í hendur rn. nema að litlu leyti og frá sumum aðilum ekki að neinu leyti, þá er rn. ókleift að svo stöddu að leggja fram ákveðna till. til úrbóta á þessu stigi málsins, en mun að sjálfsögðu leggja fram skýrslu um þetta mál undireins og hinar nauðsynlegu upplýsingar eru fyrir hendi, sem væntanlega berast rn., a. m. k. sumar hverjar, tiltölulega fljótt hér eftir.