14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (2831)

144. mál, risnukostnaður

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við hv. þm. Ísaf. höfum leyft okkur að bera fram nokkrar fyrirspurnir á þskj. 218 um risnukostnað ríkisstjórnarinnar. Við spyrjum fyrst og fremst um, hvaða starfsmenn ríkisins fái greitt risnufé í peningum og hversu miklu risnufé þetta hafi numið árið 1951. Jafnframt spyrjumst við fyrir um, hvaða starfsmenn ríkisins fái áfengi til risnu með sérstökum kjörum hjá Áfengisverzlun ríkisins og hversu miklu áfengissala í þessu skyni hafi numið á árinu 1951, og jafnframt, hvað risnukostnaður stjórnarinnar í heild hafi verið mikill á því ári.

Höfuðástæða þessara fyrirspurna er sú, að í fjárlögum eru fáeinir risnuliðir. Við lauslegan yfirlestur hef ég ekki fundið nema 3 risnuliði; forseti Íslands hefur 70 þús. kr. í risnu, ráðherrar 40 þús. kr. og háskólarektor 7.500 kr. Allir þessir liðir eru eðlilegir, og ég hef ekkert við þá að athuga, hvorki að þeir séu í fjárlögum né heldur við upphæð þeirra. En hitt er vitað, að risnukostnaður ríkisstj. og ýmissa embættismanna er allmiklu meiri en þetta, en þessi risnukostnaður er færður undir aðra liði í fjárlögum, þ. e. a. s. fyrst og fremst undir „ýmsan kostnað“ eða „annan kostnað“, og grunur leikur á, að hvað hann snertir sé ekki gætt fyllsta hófs. Ég hef jafnvel heyrt þess getið, að ýmsir embættismenn og opinberir starfsmenn fái greitt risnufé í peningum, án þess að hafa nokkra raunverulega risnu með höndum. Þetta er auðvitað óeðlilegt og enn þá óeðlilegra, að þess skuli ekki vera getið í fjárlögum, ef um slíkt er að ræða. Auðvitað á að færa þessar greiðslur á fjárlögunum sem risnu, en ekki að dulbúa þær með því að færa þær undir ýmsan kostnað, og er æskilegt að fá að vita, hversu miklu þessar fjárhæðir nema.

Sama máli gildir um þann risnukostnað, sem fólginn er í því að veita mönnum heimild til að kaupa áfengi og tóbak fyrir aðeins brot af því verði, sem það er almennt selt við í landinu. Þetta eru hlunnindi fyrir hlutaðeigandi aðila. Það er sjálfsagt, að það komi fram, hversu mikil þessi hlunnindi eru. En það er og almannarómur, að vafasamt sé, að í þessum efnum sé gætt fyllsta hófs. Þess vegna er eðlilegt, að um það sé spurt, um hversu mikla fjárhæð hér sé að ræða. Hæstv. ríkisstj. hefur talsvert rætt um sparnaðarvilja sinn, og það er fróðlegt að fá að vita það, hvort á þessu sviði hefur verið gætt viðunandi sparnaðar. Þess vegna eru þessar fyrirspurnir fram bornar.