14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

144. mál, risnukostnaður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er aðeins til þess að skjóta að örlítilli viðbótarskýringu, til þess að ekki verði sagt, að rangt hafi verið frá sagt. Hæstv. forsrh. sagði, að engir einstaklingar í ráðuneytunum nytu þessara hlunninda varðandi vínkaup. Skrifstofustjórinn í utanrrn. hefur stundum á nafn utanrrh., en stundum á sitt eigið nafn fengið einhverja fyrirgreiðslu í þessum efnum, og vonast ég til þess, að það verði ekki talið óeðlilegt, að hann, sem starfi sínu samkvæmt hefur mikið samband við erlenda menn og þarf að halda uppi mjög mikilli risnu, verði að hafa einhverja fyrirgreiðslu að þessu leyti. Þetta vildi ég að kæmi fram, til þess að ekki væri sagt, ef nafn skrifstofustjóra sæist í einhverjum skýrslum um þetta, að rangt hefði verið frá sagt.

Ég vil svo taka fram til viðbótar því, sem hæstv. forsrh. sagði, að það fer auðvitað mjög eftir atvikum, hversu mikil þessi útgjöld verða hverju sinni. Það má segja, að sú fastákveðna risna, sem ákveðin hefur verið til handa ríkisstj. og upphaflega var ætlað að gengi aðallega til utanrrh. og forsrh., hafi reynzt vera ófullnægjandi. Ég hef varðandi mig látið útbúa reikning um hverja einustu veizlu, til þess að útgjöldin væru skýlaus, og reynt að hafa hóf á, eftir því sem hægt er. En það eru ýmis atriði, sem hér koma til greina, við skulum segja t. d. um kostnað ríkisstj., hvort forseti Íslands heldur uppi mikilli risnu eða ekki. Það er augljóst dæmi, að síðustu árin sem okkar ágæti forseti, Sveinn Björnsson, var lifandi, þá hélt hann uppi tiltölulega lítilli risnu af skiljanlegum ástæðum. Núverandi forseti heldur uppi sýnu meiri risnu, hann hefur t. d. á þessu hausti haldið boð fyrir innlendan félagsskap, sem ríkisstj. áður hafði annazt, þannig að sá kostnaður og þau hlunnindi, sem áður voru talin og t. d. 1951 voru talin á reikningi ríkisstj., koma nú yfir á reikning forsetans. — Ég vil benda á þetta til upplýsinga. Þetta fer nokkuð eftir atvikum og hvernig á stendur fyrir hverjum aðila hverju sinni.