14.01.1953
Sameinað þing: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

144. mál, risnukostnaður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk. þm., sem ég vildi leyfa mér að gera örstutta athugasemd við. Hann lagði áherzlu á það hér, að forsetar Alþingis hefðu notið þeirra hlunninda, sem sú tala gefur til kynna, sem hæstv. forsrh. nefndi í sambandi við risnu forseta Alþ. og Alþingis. Ég vil taka það fram, að þessi upphæð, 13.310 kr., er ekki risna forseta Alþingis einna, heldur Alþingis sem stofnunar, og það fé hefur fyrst og fremst gengið til þess að halda hina árlegu þingveizlu, þá kvöldmáltíð, sem ég vænti, að hv. 3. landsk. einnig hafi verið þátttakandi í. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram, vegna þess að mér virtist hv. 3. landsk. vilja láta liggja að því, að um óhóflega risnu væri að ræða hjá forsetum Alþingis, og finnst mér þar ekki gæta alveg fullrar háttvísi, þar sem, eins og ég sagði, hv. þm. hefur verið sjálfur, sem betur fer og forsetum Alþingis og þingbræðrum hans til gleði og ánægju, þátttakandi í þeirri kvöldmáltíð, sem meginhluti þessa veizlufjár hefur gengið til að halda uppi.