26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2839)

156. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þessa fyrirspurn mörg orð. Hún er afar ljós og skýr. Hún er svo hljóðandi: „Hafa lög nr. 23 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, komið til framkvæmda? Og í öðru lagi: Ef svo er ekki, hver er þá ástæðan?“

Eins og kunnugt er, þá voru lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum samþ. í febrúarmánuði s. l., eftir að það mál hafði verið hér til meðferðar á þrem þingum og mætt allharðri mótspyrnu. En ég var þeirrar skoðunar þá, að þegar frv. væri orðið að lögum, þó að vísu það væri nokkuð breytt frá því, sem það var upphaflega lagt fram, þá mundi það verða framkvæmt eins og lögin gerðu ráð fyrir. Mér hefur hins vegar borizt til eyrna, að það hafi verið upplýst í fjvn. af verksmiðjuskoðunarstjóra, að þessi lág væru enn ekki komin til framkvæmda í því formi, sem gert er ráð fyrir. Fyrirspurnin er sem sagt fram borin í því skyni að fá upplýst, hvort þetta sé rétt, og ef það er rétt, hvers vegna þau séu þá ekki komin til framkvæmda.