26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (2841)

156. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið í sambandi við þessa fyrirspurn. En það kemur í ljós samkv. þeim upplýsingum, sem hann gefur, að það hafi verið meiningin á miðju s. l. ári, að lögin yrðu þá látin koma til framkvæmda, en þá, eins og hann orðaði það, hefði fjmrn. óskað eftir því, að mér skildist, að þessari framkvæmd yrði frestað þangað til um áramótin n. k.

Nú skil ég ekki almennilega, hvernig það má vera, að hægt sé af einu rn., hvort sem það er af fjmrn. eða öðru, að fresta framkvæmd laga, sem Alþ. hefur ákveðið að skuli koma í gildi. Við vitum það allir hér hv. þm., að það er iðulega á landsreikningi póstur, sem heitir útgjöld samkv. sérstökum lögum. Það er gert ráð fyrir því, að þegar lög hafa verið samþ., sem hafa útgjöld í för með sér, þá verði þau sett á reikning, þó að ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim í fjárlögum, og hlýtur ævinlega svo að vera, því að annars væri samþykkt Alþ. hér höfð að engu. Mér þykir það þess vegna í hæsta máta undarlegt, ef hvort sem er samgmrn. eða fjmrn. getur ákveðið það, hvenær lög, sem Alþ. hefur samþ. að skuli ganga í gildi strax, komi til framkvæmda, aðeins vegna þess að framkvæmd laganna kostar nokkrar krónur. Ég hef það fyrir satt þar að auki, að lögin um eftirlit með verksmiðjum og vélum, eins og þau nú eru framkvæmd, hafi ekki valdið ríkissjóði neinum útgjöldum, frá því að þessi lög fyrst voru sett. Mér hefur þvert á móti verið tjáð, að af störfum vélaeftirlitsins hafi orðið afgangur, sem nemur á annað hundrað þús. kr., þannig að ríkissjóður hafi ekki þurft að leggja fram fé í þessu skyni. Og mér hefur einnig verið tjáð, að það væri meiningin nú, eftir að þessi lög, sem samþ. voru hér og staðfest 1. febr. s. l., gengu í gildi, þá yrði ekki heldur gert ráð fyrir því, að ríkissjóður ætti að hafa af þeim nein útgjöld, heldur ætti skoðunargjaldið að nægja til þess að standa undir útgjöldum öryggiseftirlitsins. og þá verður enn miklu hæpnari sú ákvörðun, hvort sem það er fjmrn. eða samgmrn. eða þeirra beggja, að ákveða af fjárhagsástæðum, að því er virðist, að framkvæmd laganna skuli frestað fram yfir næstu áramót.

Ég læt þetta nægja. Það hefur aðeins verið staðfest, sem ég hafði pata af, þó að á skotspónum væri, að ríkisstj. hefur tekið sér leyfi til þess að taka fram fyrir hendur Alþ. og ákveða, hvenær lög skuli koma til framkvæmda, sem Alþ. hefur sett og samþ. að kæmu til framkvæmda snemma á þessu ári. Eins og hæstv. ráðh. sagði réttilega, stendur í lögunum, að þessi lög skyldu koma þegar til framkvæmda.

Annað atriði í þessu sambandi þætti mér einnig rétt að fá upplýst, ef hæstv. ráðh. telur sig geta það. Mér hefur verið tjáð, að launakjör starfsmanna öryggiseftirlitsins hafi verið ákveðin þannig og skorin þannig við nögl, að það sé ekki unnt að fá neinn hæfan mann til starfsins. Mér hefur verið tjáð, að það hafi verið ákveðið, af hverjum veit ég ekki, hvort það er af samgmrn. eða fjmrn., kannske af báðum, að launakjör þessara eftirlitsmanna, sem líf og öryggi fólksins veltur á að séu hæfir menn til starfa, hafi verið ákveðin í grunn 7.800 kr. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta sé rétt og hvort þetta sé gert vitandi vits til þess, að ekki fáist í starfið hæfir menn, því að hann getur sagt sér það sjálfur, hæstv. ráðh., að fyrir þessa upphæð fæst enginn, sem kunnáttu hefur til að bera til þess að annast starfið. Þetta er ekki síður nauðsynlegt að upplýsa heldur en hitt, og ég vænti, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að segja til um það, hvort þetta á svo að verða, ef lögin einhvern tíma að nafni til eigi að koma til framkvæmda, því að það getur þýtt, að þau komi aldrei til framkvæmda.