26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

225. mál, sölunefnd setuliðseigna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar upplýsingar. Þær eru skýrar og glöggar. Ég vil taka það fram, að ég er sammála hæstv. ráðh. um, að það er eðlilegt, að sá varningur, sem varnarliðið kynni að vilja selja, gangi eingöngu um hendur ríkisstj. eða trúnaðarmanna hennar. En á hinu tel ég leika talsverðan vafa, hvort ríkisstj. hefur heimild til þessarar verzlunar, eins og hún nú er stunduð, þrátt fyrir ummæli hæstv. ráðh. þar að lútandi.

Sölunefnd setuliðseigna ríkisins var stofnuð samkv. heimild í lögum frá 1944, þar sem eingöngu var rætt um sölu eigna setuliðsins frá stríðsárunum. Nú er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur hefur þessi n. allt annað verkefni. Ég tel vafasamt, að þessi viðbótarsamningur, sem hæstv. ráðh. vísaði til, geti talizt hafa slíkt lagagildi sem hann vildi telja í þessu sambandi. Enn fremur vildi ég beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að framvegis verði kostnaður og tekjur af þessum liðum tekið í fjárlög. Hann upplýsti, að hér væri um 310 þús. kr. áætlaðan kostnað að ræða á árinu 1952, og minni upphæð en það á vissulega erindi í fjárlögin. Enn fremur sagði hann, að hagnaður á þessum viðskiptum hefði numið mjög verulegum fjárhæðum frá 1948 til 1. nóv. 1952, 2 millj. kr., hvorki meira né minna. Slíkir liðir eiga sannarlega erindi inn í fjárlög sem sérstakir liðir.