20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2889)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það væri í raun og veru ástæða til þess í sambandi við þetta mál að rifja upp nokkuð sögu þess, en ég mun nú ekki eyða í það mjög miklum tíma. En þó er óhætt að segja það, að þetta mál var hér á sínum tíma talsvert baráttumál á Alþ., og var Ferðaskrifstofu ríkisins komið á, þegar sat að völdum samstjórn Framsfl. og Alþfl. á árunum 1934–38, en þáverandi stjórnarandstaða beitti sér mjög hart gegn þessu máli. Ég sé nú ekki ástæðu til þess, a. m. k. ekki enn sem komið er, að rifja upp þá sögu. Hún er mörgum mönnum kunn, sem enn þá eiga setu á þingi. En maður hefði varla við því búizt, að einn af hv. þm. úr þeim flokki, sem upprunalega barðist mjög skelegglega ásamt samstarfsflokki sínum hér á Alþ., mundi nú hefjast handa um að flytja frv. það, sem fyrir liggur. Hitt eru engin undur, þó að hv. Sjálfstfl. að verulegu leyti í samræmi við sína fyrri afstöðu fallist á till. þessa hv. þm. En ég ætla ekki heldur að fara neitt út í það mál að athuga, af hvaða ástæðum þessi hv. þm. hafi nú séð sig knúinn til þess að flytja það frv., sem hér liggur fyrir og mér skilst að vissu leyti brjóta í bága við það, sem hans eigin flokkur hefur fram haldið um skipulag þessara mála á undanförnum árum. En einhverjar ríkar ástæður hljóta það að vera, þegar hann sker sig út úr sínum eigin flokki um þetta mál. Ef til vill getur hann sérstaklega skýrt það hér í umr., hverjar þær ástæður eru.

En þó að sleppt sé nú baráttusögunni um stofnun Ferðaskrifstofu ríkisins, þá liggur nær að athuga það atriði, hver reynsla hefur fengizt af rekstri þessarar stofnunar og hvort sú reynsla beri til þess, að breyta eigi um skipulagshætti og taka upp nýjan sið varðandi móttöku erlendra ferðamanna alveg sérstaklega.

Ég vil mjög taka undir það með hv. þm. V-Sk., að ég hygg, að allir þeir, sem til þekkja, hafi komizt að raun um það, að ferðaskrifstofa ríkisins hafi verið ágætlega rekin og það hafi verið hennar gæfa, að hún hefur haft fyrir forstöðumann mjög áhugasaman mann og hæfan. En það er sannast sagna, að örlög slíkra fyrirtækja eins og þeirra, sem stofnað er til af almannavaldinu, fara að verulegu leyti eftir því, hvaða menn veljast til forustunnar, hvort þeir hafa vilja, skilning og hæfni til þess að veita fyrirtækjunum forstöðu og séu trúaðir á það, að fyrirtækin sjálf hafi þjóðfélagslega mikla og góða þýðingu. En ég held, að það sé alveg óhætt að segja, að núverandi forstöðumaður ferðaskrifstofu ríkisins hafi leyst störf sín af hendi á þann veg, að með rökum verði ekki fundið að starfsemi hans. Og ég held, að það megi einnig slá því föstu, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi aflað sér mjög mikilla vinsælda, ekki einungis innanlands, þar sem mikið hefur verið til hennar leitað, bæði í sambandi við sérleyfisferðir og orlofsferðir, heldur er mér einnig kunnugt um það, að ferðaskrifstofa ríkisins hefur áunnið sér mikið og gott álit og þakklæti fjölda erlendra ferðamanna, sem við stofnunina hafa skipt. Munu skipta mörgum tugum eða hundruðum þau bréf, sem stofnunin hefur fengið í þakkarskyni fyrir þá fyrirgreiðslu, er hún veitti erlendum ferðamönnum, er leituðu hingað til Íslands. Og þessi ferðaskrifstofa hefur gert meira. Hún hefur verið það eina, sem gert hefur verið hér á landi, svo að verulegu máli skipti, til þess að auglýsa Ísland út á við sem ferðamannaland, til þess að vekja athygli á sögu landsins, á fegurð landsins og á því, hversu margt sé raunverulega hingað að sækja fyrir þá menn, sem vilja hleypa heimdraganum og létta sér upp á skemmtiferðalögum eða á annan hátt til annarra 1anda.

Sú barátta eða sú málafylgja ferðaskrifstofunnar, sem fólgin er í því að auglýsa Ísland á þann veg, sem hún hefur gert, bæði með bæklingum, bréfum, auglýsingum, kvikmyndum og sölu minjagripa og á allan annan hátt, hefur verið mikil landkynning fyrir íslenzku þjóðina, og ég hygg, að sú landkynning hafi heppnazt ágætlega og beinlínis vegna hennar hafi margir til Íslands leitað, og það sem betra er, ekki á neinn hátt verið blekktir af heimsókninni til Íslands. Þetta mikla brautryðjandastarf ferðaskrifstofu ríkisins hefur haft geysilega þýðingu, en það hefur ekki getað náð tilgangi sínum af þeirri ástæðu, er forstöðumaður ferðaskrifstofunnar bendir á í umsögn sinni um frv., sem hér er prentuð sem fylgiskjal með nál. á þskj. 256. Það er annað atriði alveg sérstaklega, sem gerir það að verkum þann dag í dag að það er örðugra en ætti að vera að koma hingað, svo að vel sé, miklum útlendum ferðamannastraumi, og það er fyrir þær sakir alveg sérstaklega, að skortur er hér mjög tilfinnanlegur á hæfilegum hótelum, vistlegum, en ekki of dýrum, að minnsta kosti sumum hverjum, fyrir útlenda ferðamenn, sem leita til landsins. Og ég held það væri meiri þörf fyrir Alþ. að beita sér að því að reyna að bæta úr þeim vandkvæðum heldur en reyna nú að veikja aðstöðu ferðaskrifstofu ríkisins og á þann veg þakka henni ágætt starf unnið fyrir þjóðina á undanförnum árum. Ég held, að það hefði verið miklu viðkunnanlegra fyrir flm. þessa frv. og aðra áhugamenn um það að fá útlenda ferðamenn til landsins að koma með einhverja skynsamlega og framkvæmanlega till. til þess að bæta úr hinum mjög mikla hótel- eða gistihúsaskorti, sem hér er í landinu og hindrar það, að hingað geti komið ferðamenn eins og gæti ella orðið.

Þegar nú því er slegið föstu, — og ég vona, að enginn vilji draga það í efa, — að ferðaskrifstofa ríkisins hefur verið prýðilega rekin, að hún hefur áunnið sér vinsældir innanlands og utan, þá hljóta menn að spyrja: Hvaða ástæður út frá almennu sjónarmiði og þjóðarhag geta þá legið til þess, að það eigi að svipta hana þeim réttindum, sem hún hefur haft áður að íslenzkum lögum? Ef það hefði komið upp rökstuddur kurr um rekstur stofnunarinnar og ef menn hefðu getað sýnt það svart á hvítu, að hún hefði ekki verið rekin á þá lund, sem í upphafi var til ætlazt, og á þann veg, sem bezt skyldi, þá hefði getað verið eðlilegt að veita öðrum aðilum aukið tækifæri til að vinna að sömu málefnum og Ferðaskrifstofa ríkisins hefur unnið að og var stofnuð til þess að vinna að. En þegar því ekki er til að dreifa, verður óhjákvæmilega að leita spurningunni svars á öðrum vettvangi. Hvers vegna er þetta fram komið, og hagur hverra manna getur verið við það bundinn, að ferðaskrifstofan verði þannig svipt þeim rétti, sem til er ætlazt með frv.? Ég held, að það geti varla verið hagur íslenzkra ferðamanna, sem leita eftir aðstoð við orlofsferðir og á annan hátt um ferðalög. því að þeir menn eiga þess nógan kost nú með Ferðaskrifstofu ríkisins, með hinni nýju ferðaskrifstofu, sem h/f Orlof rekur, og með ferðafélögunum, sem stofnuð hafa verið víðs vegar um land, að njóta fegurðar landsins í hagnýtum og tiltölulega ódýrum ferðalögum. Þá er aðeins spurningin þetta: Eru það útlendingar, sem mundu frekar koma til landsins, mundu fá betri þjónustu og mundu auka meir hróður Íslands, ef skipt yrði nú um skipulag á ferðaskrifstofunni á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir? Í raun og veru get ég svarað þeirri spurningu þegar neitandi, að það geta engar frambærilegar ástæður verið fyrir hendi um það, að það séu líkur til þess, að útlendir ferðamenn mundu frekar leita til landsins, þó að þessir skipulagshættir væru upp teknir. Og ég held, að það sé enn þá minni ástæða til þess að ætla, að fyrirgreiðsla fyrir þá yrði betri, ódýrari og heppilegri með því móti, að fleiri aðilar eða einstaklingar settu sig sérstaklega niður til þess að reyna að fá útlendinga hingað til landsins. Forstöðumaður ferðaskrifstofunnar hefur í álitsgerð sinni bent réttilega á það, að áður en ferðaskrifstofan kom til skjalanna, þegar ekkert skipulag var á þessum málum, þá voru það nokkrir einstaklingar, eins konar spákaupmenn í því að græða á útlendum ferðamönnum, sem kepptu hver við annan um það að ná í ferðamennina og veita þeim fyrirgreiðslu með það fyrir augum að hafa sem allra mest upp úr þeim í eigin vasa. Ég varð ekki var við það hér, áður en ferðaskrifstofan kom til, að þeir einstaklingar, sem tóku að sér og vildu hafa með höndum að taka á móti útlendum ferðamönnum, gerðu neitt að ráði í þá átt að auglýsa Ísland erlendis sem ferðamannaland, að hæna útlenda ferðamenn að Íslandi, svo að þeir kæmu þangað í stríðum straumum. Og enn síður álít ég, að hægt sé að færa fyrir því frambærileg rök, að hinir útlendu ferðamenn, sem til landsins leituðu áður en ferðaskrifstofan kom til skjalanna, hafi verið þakklátari fyrir þá fyrirgreiðslu, sem þeir fengu hér, heldur en hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Ég held, að það sé engin ástæða til þess að ætla það.

Ég mundi því telja, að rökin fyrir þessu málefni séu harla einkennileg. Ég get sagt, eins og ég sagði áðan, að ég skil þau vel út frá vissum sjónarhóli Sjálfstfl., sem telur, að einstaklingar eigi að eiga þess allan kost að ná í eigin vasa í atvinnurekstri sem allra mestu og að löggjöfina eigi ekki við það að miða að skipuleggja atvinnureksturinn á þann hátt, að hann verði sem hagnýtastur, heldur eigi einstaklingarnir að sjá um það, að sjálfsögðu með þá höfuðhugsun að leiðarljósi að fá sem mest upp úr krafsinu. En ég skil það ekki heldur vel, að fulltrúi íslenzkra kommúnista í n. skyldi nú falla inn á þessa linu hinnar frjálsu samkeppni Sjálfstfl. Mætti hann þó vera minnugur, þar sem hann hefur ferðazt til Rússlands, að þar mun vera ferðaskrifstofa, sem heitir „Inturist“, og ég held, að það sé ekki sérstaklega mikil ástæða til að ætla, að á því verði breyt., á meðan ríkir það stjórnarkerfi í Rússlandi, sem nú er. Ég veit ekki, — kynni þó að geta skilið það, ef djúpt væri kafað, — hvers vegna flokkur hv. þm. telur nú ástæðu til þess að leggja sérstaklega lag sitt í þessu máli við þann flokk, sem hefur það sér til gildis að vernda hagsmuni einstaklinganna í atvinnurekstri yfirleitt, hvað sem viðkemur sérstaklega hag fjöldans og almennings.

Hæstv. forseti hefur gefið mér vinsamlega vísbendingu um það, að nú muni fundi lokið, en ég hafði ekki alveg lokið máli mínu og mundi því vilja halda því eilítið áfram, þegar málið verður tekið fyrir að nýju. [Frh.]