21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð til viðbótar þeim glöggu rökum. sem hv. 8. landsk. þm. hefur flutt fram gegn þessu frv.

Flm. þess er hv. þm. V-Húnv., einn áhugasamasti sparnaðarmaður þessarar hv. d. Það hefur hvað eftir annað komið í ljós, að hv. þm. V-Húnv. virðist hafa sérstakan áhuga á því, að útgjöld ríkissjóðs séu sem allra lægst. Hann kvartar mjög undan kostnaði við ýmsar stofnanir og segist jafnan vera mjög fús til þess að leggja sérhverri sparnaðartill. lið sitt. Með tilliti til þessa mikla og kunna sparnaðaráhuga hv. þm. V-Húnv. kom bæði mér og öðrum mjög undarlega fyrir sjónir, þegar þetta frv. birtist frá hendi hans.

Hvað felst í þessu frv.? Í því felst það, að heimilt skuli vera að stofna fleiri ferðaskrifstofur til þess að taka á móti erlendum ferðamönnum við hlið Ferðaskrifstofu ríkisins. Þessum nýju ferðaskrifstofum skulu þó engar skyldur lagðar á herðar til neins konar landkynningar eða auglýsingastarfsemi fyrir landið. Þær eiga einungis að hafa skilyrði til þess að hafa viðskipti við þá ferðamenn, sem hingað koma af því, að þeim er þegar kunnugt um landið sem ferðamannaland, og hafa áhuga á því að komast hingað. Nái þetta frv. fram að ganga, má búast við því, að 2–3 slíkar ferðaskrifstofur taki til starfa. Þessi viðskipti, sem hingað til hafa verið í höndum ferðaskrifstofunnar einnar, munu þannig skiptast á, að minnsta kosti 2, 3 eða 4 aðila.

Ferðaskrifstofa ríkisins er ríkisfyrirtæki, og reikningar þess eru birtir í fjárlögum. Í fjárlögum fyrir næsta ár er kostnaður þessarar skrifstofu talinn 853 þús. kr. Þar af eru 588 þús. kr. skrifstofukostnaður, aðallega launagreiðslur; 100 þús. kr. eru kostnaður við landkynningu; 75 þús. kr. eru kostnaður á Keflavíkurflugvelli; 10 þús. kr. hóteleftirlit, sem ferðaskrifstofunni er skylt að inna af hendi; 20 þús. kr. upplýsingaskrifstofa á Akureyri; 10 þús. kr. minjagripir; og upplýsingaskrifstofa í London til kynningar á landinu 50 þús. kr.

Til þess að standa undir þessum kostnaði, sem er þannig að mjög verulegu leyti landkynningarkostnaður til þess að hæna erlenda ferðamenn að landinu, eru ferðaskrifstofunni áætlaðar tekjur að upphæð 685 þús. kr. af viðskiptum sínum við hina erlendu ferðamenn, þannig að nettókostnaðurinn er aðeins 168 þús. kr. Nú liggur alveg í augum uppi, að ef stofnaðar verða fleiri ferðaskrifstofur, þá hlýtur ferðaskrifstofan að missa tilsvarandi í tekjum, því að ekki er við því að búast, að fleiri ferðamenn komi hingað til landsins einungis vegna þess, að fleiri ferðaskrifstofur eru stofnaðar, ef þeim er engin skylda lögð á herðar til að kynna landið og hvetja þannig fleiri ferðamenn til þess að koma til landsins. Afleiðingin yrði því sú, að tekjur þær, sem hingað til hafa orðið af komu erlendra ferðamanna til landsins, 685 þús. kr., mundu skiptast á 2, 3 eða 4 aðila. Og ferðaskrifstofan mundi þannig ekki halda nema helmingi, þriðjungi eða fjórðungi af þessum tekjum, auðvitað með þeim árangri, að rekstrarhallinn af ferðaskrifstofunni mundi vaxa sem þessu svarar, þar eð í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að neinni af þeim skyldum, sem á ferðaskrifstofunni hvíla, verði af henni létt. Bein afleiðing af samþykkt þessa frv. yrði því sú, að útgjöld ríkisins mundu vaxa um nokkur hundruð þús. kr., nokkurn veginn samsvarandi tekjum þeirra einkaferðaskrifstofa, sem stofnaðar yrðu. Það kom mér mjög undarlega fyrir sjónir, að einmitt sparnaðarpostulinn, hv. þm. V-Húnv., skyldi gerast til þess að flytja slíkt frv., sem ylli hækkun á fjárlögum næsta árs um hvorki meira né minna en nokkur hundruð þús. kr. Segja mætti, að sök- sér hefði verið, ef hv. þm. hefði lagt það til, að í staðinn fyrir réttinn til að mega skipta við erlenda ferðamenn og hafa hagnað af þeim viðskiptum, þá skyldi þessum nýju ferðaskrifstofum vera skylt að annast nokkra landkynningu. En þeim er ekki ætlað að taka á sig neinar slíkar skyldur. Þeim er aðeins ætlað að hafa hagnaðinn af viðskiptunum. Eftir sem áður á ríkið að standa undir allri kynningarstarfseminni með ferðaskrifstofu ríkisins. Það mætti líka segja, að það hefði verið svolitið vit í því að leggja beinlínis til, — eins og mér skilst raunar að sé skoðun sumra sjálfstæðismannanna í hv. n., — að ferðaskrifstofan sé lögð algerlega niður og hætt verði að leggja nokkurt fé í það að kynna landið erlendis, að gera viðskiptin við erlenda ferðamenn að hreinum einkaviðskiptum. Það væri að færa þessi utanríkisviðskipti á hreinan viðskiptagrundvöll. Mætti segja, að í því væri að minnsta kosti samkvæmni, þó að ég teldi það að vísu vera mjög óheppilegt og að það sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt fyrir ríkið að leggja talsvert fé, jafnvel enn þá meira, en nú er gert, í það að kynna landið erlendis og hvetja erlenda ferðamenn til þess að koma hingað. Þeir peningar skila sér aftur til þjóðarbúsins, þótt þeir skili sér ef til vill ekki beint í ríkissjóðinn.

Það, sem hér er um að ræða, er hins vegar alls ekki þetta. Það, sem hér er um að ræða, er að láta útgjöldin til landkynningarstarfseminnar haldast og eftir sem áður hvíla á ferðaskrifstofunni, en svipta hana tekjum, flytja hluta af tekjum hennar yfir í vasa nokkurra manna, sem hafa áhuga á því að græða á viðskiptum við útlenda ferðamenn, án þess þó að vilja taka á sig nokkrar skyldur í því sambandi. Það er þetta, sem er hið versta og varhugaverðasta við þetta frv. Og það er þetta, sem mér kemur mjög á óvart að skuli vera till. einmitt hv. þm. V-Húnv., hins kunna og ötula sparnaðarpostula. Það var þetta, sem ég vildi benda sérstaklega á. Hv. 8. landsk. þm. hefur þegar gert svo glögga grein fyrir nytsemi ferðaskrifstofunnar, fyrir því, hversu vel hún hefur innt sín störf af hendi, fyrir því, hversu mikils trausts hún hefur aflað sér meðal viðskiptamanna sinna, bæði erlendra og innlendra, fyrir því, hversu ágætrar forustu skrifstofan hefur notið síðan hún var stofnuð, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, en vildi vonast til þess, að hv. þm., einmitt þeir, sem hafa sérstakan áhuga á því, að útgjöld ríkisins séu ekki aukin að óþörfu, hugleiði þetta frv. alveg sérstaklega og þá vonandi með þeim árangri, að þeir snúist gegn því.