21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu að svara úr ræðu hv. 2. þm. Eyf., sem hér talaði síðast. Hann sagði í upphafi máls síns, að hér væri ekki um stórmál að ræða. Ég er nú þeirrar skoðunar, að hér sé um nokkuð stórt mál að ræða, hvort eigi að fara að rífa niður kerfi og stofnun að einhverju leyti, sem byggð hefur verið upp með góðum árangri á alllöngu árabili. En tilætlunin er að höggva skarð í múrinn, sem umlykur þessa stofnun. ef svo mætti segja, og það kemur fram í nál. meiri hl., að tveir hv. sjálfstæðismenn eru líka þeirrar skoðunar, að leggja ætti ferðaskrifstofu ríkisins niður með öllu. Það er þess vegna að mínu viti fyrsta skrefið í þá átt, sem stíga á með frv., sem hér er til umr. í dag, og það er frá mínu sjónarmiði séð mjög hættulegt skref. Það má alltaf tala um og hljómar illa í eyrum margra Íslendinga að tala um einokun, enda er það óspart notað af andstæðingum þeirra manna, sem vilja koma á öðrum skipulagsháttum í þjóðfélaginu, en nú gilda. Frá mínu sjónarmiði er það eftirsóknarvert að reyna að koma því svo fyrir, að þjóðfélagið sjálft og kjörnir trúnaðarmenn þess hafi með höndum mörg þau atriði, sem eru þannig löguð, að ætla má, að þjóðinni sé fyrir beztu, að þau séu í höndum þjóðfélagsins sjálfs, en ekki í höndum einstaklinga. Og ég hygg, að eitt af því sé Ferðaskrifstofa ríkisins og verkefni þau, sem henni er gert að inna af höndum með löggjöf þeirri, er um hana gildir.

Þó að segja megi, að víðast hér í nágrannalöndunum séu ekki slíkar ferðaskrifstofur, sem séu alveg eins og Ferðaskrifstofa ríkisins, þá er það samt svo, að á Norðurlöndum eru járnbrautirnar alls staðar eign ríkisins, og ferðaskrifstofur þeirra, sem eru þá eins konar ríkisskrifstofur, hafa með höndum mjög mikla fyrirgreiðslu í ferðalögum, ekki einungis innanlands, heldur á milli landa, og má því segja, að ríkisjárnbrautirnar á Norðurlöndum annist að verulegu leyti það, sem Ferðaskrifstofu ríkisins er ætlað að annast um. En vegna þess að hér er högum svo háttað, a. m. k. enn sem komið er, að það er tiltölulega fámennur hópur útlendinga, sem leitar hingað til landsins í því skyni að skemmta sér eða er í verzlunarerindum eða öðru slíku, þá þykir mér langeðlilegast, að það sé ein stofnun, sem ekki hafi einstaklingsgróða í huga, er hafi með höndum að greiða götu þessara manna, sem til landsins koma á þann veg, sem nú hef ég lýst. Fyrir Ferðaskrifstofunni vakir ekkert annað og á ekki að vaka annað en að reyna að fá sem flesta erlenda gesti til landsins og sjá um það, að þeir geti unað sínum högum vel, eftir því sem bezti kostur er á hér á landi. Það er ekki aðalsjónarmiðið að græða á þessum útlendu ferðamönnum, heldur að þjóðfélagið sem heild græði á þeim á þann hátt, að þeir verji einhverjum hluta af þeim peningum, sem þeir hafa til umráða, hér í landinu til kaupa á fæði, húsnæði og minjagripum og mörgu öðru, sem þeir kynnu að girnast, þegar þeir væru hingað komnir. En hins vegar þarf að sjá um, að allt, sem fyrir þá væri gert til þess að hæna þá að landinu, yrði sem aðgengilegast og til þess lagað, að fleiri kysu að ferðast til landsins.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að ferðaskrifstofa ríkisins hefði ekki sinnt því verkefni sem skyldi, hvað varðar landkynningu. Ég held nú satt að segja, að Ferðaskrifstofan hafi gert æði mikið í því efni, en hafi orðið að sumu leyti að takmarka það af þeim ástæðum, að þess er ekki kostur að hvetja útlendinga til að koma hingað í svo stórum stíl sem æskilegt væri annars vegna skorts á hótelum eða gistihúsum og öðrum verustöðum hér á landi. Á meðan svo er háttað, að slíkt vantar, þá er það kannske bjarnargreiði við landið og íslenzku þjóðina að reyna að fá hingað stórkostlega hópa erlendra ferðamanna, sem svo yrðu fyrir vonbrigðum, þegar þeir kæmu til landsins og ættu þess ekki nægan og sæmilegan kost að fá almennilega gistingu og dvöl í landinu. En að öðru leyti hygg ég, að ferðaskrifstofa ríkisins hafi eiginlega gert það, sem mest og bezt er hægt að gera til landkynningar, og hafi í því efni leitað eðlilegs samstarfs t. d. við flugfélögin. Og ég veit ekki betur en að Ferðaskrifstofa ríkisins og Flugfélag Íslands reki nú skrifstofu í Lundúnum, þar sem veittar eru allar þær upplýsingar, sem frekast er unnt, um ferðalög til Íslands og menn hvattir til þess að leita þangað í sínum skemmtiferðalögum, eftir því sem kostur er á að veita mönnum viðtöku. Hygg ég, að ferðaskrifstofan hafi farið þar rétt að, eins og yfirleitt í starfsemi sinni.

Hv.2. þm. Eyf. sagði, að hann teldi ekki miklar líkur til þess, eftir því sem högum væri nú háttað, að margir einstaklingar gætu haft af því uppgripagróða að taka á móti útlendum ferðamönnum, og ég er honum sammála um það. Að minnsta kosti álít ég, að gróðinn yrði ekki mikill með öðru móti en því, að reynt yrði að rýja ferðamennina, ef ég má svo segja, óhæfilega af einstaklingum, sem tækju á móti þeim hér. En það mundi brátt hefna sín, því að það spyrðist og menn mundu siður leita til landsins. Og það er einmitt æði mikill kjarnapunktur í þessu máli, að ekki er til margskipta sú fyrirgreiðsla, sem á að veita erlendum ferðamönnum hér á landi, og eðlilegt, að stofnun, sem starfað hefur að því um alllangt skeið og það með mestu sæmd og prýði, geti annað því áfram og það sé bara óheppilegra fyrir þjóðfélagið í heild, að því sé otað að einstaklingum til þess að reyna þar að maka krók sinn, sem svo yrði kannske til óhagræðis fyrir þjóðarheildina þegar til lengdar léti.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið meira, en ég nú hef gert, en ég hef í fyrri ræðu minni lýst þeim ástæðum, sem valda því, að ég er eindregið andvígur frv., sem hér liggur fyrir.