14.10.1952
Neðri deild: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

54. mál, sala og útflutningur á vörum

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég hef leyft mér að leggja fram ásamt hv. 2. landsk. þm., fjallar um breyt. á lögum nr. 11 12. febr. 1940, um sölu og útflutning á vörum. Á þeirri lagasetningu frá 12. febr. 1940 byggist nú allt það einokunarvald, sem ríkisstj. landsins hefur á útflutningi á íslenzkum afurðum. Og eins og hv. þm. vita, þá hefur engin tilslökun verið gerð á þessu valdi ríkisstj. yfir útflutningnum, þó að hins vegar hafi mikið verið um það talað — og á sumum sviðum ofur lítið af því framkvæmt — að skapa nokkru meira frelsi, a. m. k. í orði kveðnu, um innflutninginn. Þessi lög voru sett í byrjun síðustu heimsstyrjaldar með tilliti til þess að reyna að tryggja afstöðu Íslands þá út á við viðvíkjandi útflutningnum og sjá um, að þær vörur, sem Ísland ætti, færu ekki út úr landinu, án þess að það fengist þá sem tiltölulega bezt verð fyrir þær, og enn fremur þurfti þá líka að gera ýmsa samninga við erlend ríki til þess að tryggja það að koma okkar vörum burt frá landinu, og ríkisstj. áleit þess vegna, að hún þyrfti að hafa þetta vald í sínum höndum, og fékk það. Þá var raunverulega gengið út frá því, að þessi lög mundu falla úr gildi, þegar stríðinu lyki. Hins vegar héldust þessi lög nokkru lengur, sérstaklega eftir að fiskábyrgðin kom til greina, vegna þess að það þótti að ýmsu leyti eðlilegt, að ríkisstj., sem tæki á sig ábyrgð á öllum útflutningsvörunum, hefði um leið nokkurt vald yfir því, hvernig þær væru seldar, og var það ekki óeðlilegt.

Nú er öllum kunnugt, hvað Ísland á mikið undir útflutningnum, þar sem upp undir helmingurinn af öllu því, sem við framleiðum og vinnum í landinu, er flutt út, og hvernig afkoma landsbúa þess vegna er alveg sérstaklega undir því komin, hvort eins mikið er unnið að útflutningnum og eins mikið framleitt og kraftar eru til í landinu og hvort öll þau tækifæri, sem landið hefur út á við til þess að koma sínum afurðum í verð, eru hagnýtt. Og ég held það sé engum efa bundið, að það hljóti allir að vera sammála um, að það sé sjálfsagður hlutur fyrir Íslendinga að einbeita öllum þeim kröftum, sem á annað borð hafa áhuga fyrir því að fást við útflutninginn, að því að framleiða sem mest og að selja sem mest erlendis, og að þetta verði að gerast án tillits til þess, hvers konar hagkerfi eða hvers konar lönd og þjóðskipulög það eru, sem við seljum til, og án tillits til þess, hvers konar verðlagssvæði það eru, sem við seljum til. Og eins og hv. þm. er kunnugt, þá er um allmörg verðlagssvæði þannig að ræða í heiminum. Á sumum verðlagssvæðum er máske gefið minna t. d. fyrir þá vöru, sem við flytjum út, en vörurnar, sem við þurfum að kaupa, eru þar aftur ódýrari. Á öðrum verðlagssvæðum er máske gefið hærra fyrir þá vöru, sem við þurfum að flytja út, og sumar vörur, sem við þurfum þar að kaupa, dýrari. En almennt mun þetta samt vera þannig, að ef hægt er að hagnýta viðskiptin við öll verðlagssvæðin á skynsamlegan hátt, þá er hægt að ná á þeim öllum mjög praktískum viðskiptum, ef fylgt er þar eftir með kunnáttu á því, hvaða vörur sé hentast að kaupa frá hverju svæði og hvaða íslenzkar vörur sé hentast að selja til hvers svæðis.

Þetta frv. miðar þess vegna í fyrsta lagi að því að gefa öllum þeim, sem áhuga hafa á og möguleika til að efla okkar útflutning og koma okkar útflutningsvörum í verð, tækifæri til þess; skapa m. ö. o. nokkurt frelsi á þessu sviði í staðinn fyrir þá algeru einokun, sem nú á sér stað.

Eins og ég minntist á áðan, þá var það að mörgu leyti eðlilegt, á meðan ríkið tók að sér að ábyrgjast útflutningsverðið á fiskinum, að ríkið gæti þá líka ráðið allmiklu um söluna. Það var ekki nema eðlilegt, þegar ríkið ef til vill átti að borga svo skipti millj. kr. fyrir fisk, sem ekki seldist á nægilega háu verði, að ríkisstj. áskildi sér íhlutun um, hvernig fiskurinn væri seldur, og hefði jafnvel sjálf með höndum sölu á honum. Nú hefur hins vegar fiskábyrgðin verið afnumin. Það þýðir m. ö. o., að sá maður, sem framleiðir fisk á Íslandi, hefur enga tryggingu frá ríkinu fyrir því, að hann fái kostnaðarverð fyrir þennan fisk. Engu að síður, þó að þessi fiskframleiðandi hafi enga tryggingu fyrir því, að hann fái kostnaðarverð fyrir sína vöru, þá getur ríkisstj. neitað honum um það að koma þessari eign sinni í verð, neitað honum um það að selja þessa vöru út úr landinu. Og sem stendur er ástandið þannig, að svo og svo mikið af mönnum í landinu, sem framleiða fisk, fær ekki frelsi til þess að selja þennan fisk erlendis, fær ekki frelsi til þess að vinna að því að koma honum í verð erlendis og kaupa fyrir hann aftur nauðsynjar til landsins. Þetta getur m. ö. o. þýtt það, að svo og svo mikið af mönnum, sem lagt hafa sína vinnu í það og sitt fé að framleiða slíka vöru, er neytt til þess að sitja uppi með vöruna, láta falla á hana mikinn kostnað, láta hana jafnvel skemmast á endanum í höndunum á sér eða verða óseljanlega, — eða láta allar vöruskemmur hjá sér, hvort sem það eru hraðfrystihús, saltfisksgeymslur eða annað, fyllast og verða að hætta að framleiða, eins og nú hefur átt sér stað í stórum stíl, og það allt saman án þess, að ríkisstj., sem neitar mönnum um það frelsi, sem þeir þurfa að hafa til þess að geta selt sínar afurðir, hafi nokkra ábyrgð á þessum hlutum. Eins og ég gat um áðan, þá var það að vissu leyti eðlilegt, að ríkisstj. hefði slíkt vald, meðan hún tók að sér ábyrgð á sölu fisksins. Þegar ein ríkisstj. hins vegar sleppir því að taka á sig þessa ábyrgð, þá á hún ekki heldur að svipta eigendur fisksins réttinum og frelsinu til að selja. Ef fiskframleiðandinn á sjálfur að hafa ábyrgð á sínum fiski og bera sjálfur tapið af því, ef ekki er hægt að selja, eða tapið af því, ef hann stöðvar sína útgerð, þannig að hann þori ekki að framleiða meira. þá verður hann líka sjálfur að hafa valdið til þess að mega selja hann eða a. m. k. að reyna það. Meðan fiskábyrgðin er ekki tekin upp aftur, sem ég fyrir mitt leyti hef oft látið í ljós, að ég áliti skynsamlegt og alveg sjálfsagt fyrirkomulag, svo framarlega sem ríkisstj. heldur áfram að hafa í sínum höndum einokunarvald yfir fiskútflutningnum, þá er þess vegna óviðunandi annað en að þeir menn, sem vinna að því að framleiða fiskinn í landinu eða setja sitt fjármagn í það, hafi frelsi til þess að selja hann erlendis. Undanfarin ár hefur sem sé ríkisstj. verið ábyrgðarlaus í þessum efnum, en valdið hins vegar verið hjá ríkisstj., og slíkt skapar alltaf vandræðaástand, verður alltaf grundvöllur að meira eða minna gerræðislegri misnotkun á valdi, eða þá að því, að ekki eru notuð þau tækifæri, sem fyrir hendi eru til þess að greiða götu fyrir íslenzka útflutningnum, og það þá venjulega með þeim afleiðingum, að meiri eða minni stöðvun í útflutningnum hljótist af.

Eins og við vitum allir, þá hefur það verið svo upp á síðkastið, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum, hefur svo að segja einbeitt sér að því og auðsjáanlega trúað á það sem höfuðstefnu í þessum málum, að það bæri fyrst og fremst að selja allar íslenzkar útflutningsvörur fyrir pund og dollara og raunverulega væri ekkert annað peningar heldur en pund og dollarar — og jafnvel pund og dollarar væru ekki einu sinni fyrst og fremst peningar til að kaupa vörur til landsins, heldur væri svo að segja takmark í sjálfu sér að öðlast þessa mynt. Hins vegar vitum við ósköp vel, að það, sem við þurfum að gera við okkar fiskútflutning, er að kaupa nauðsynjavörur inn í landið aftur í staðinn, og þess vegna getur það verið alveg jafnpraktískt fyrir okkur, stundum meira að segja praktískara, að selja okkar vörur á þann hátt, að við getum keypt aðrar vörur þar í staðinn, þó að við þurfum að gera það í öðrum myntum en pundum eða dollurum. Hæstv. ríkisstj. virðist hins vegar auðsjáanlega hafa trúað á það, máske að nokkru leyti eftir ráðleggingu síns efnahagsráðunauts, að það væri í þeim löndum, sem geta greitt í pundum og dollurum, alltaf nægur markaður fyrir allt það, sem Ísland getur framleitt. Það höfum við hins vegar rekið okkur á, að er síður en svo rétt, enda var það þegar sagt fyrir 1947–48, þegar Marshallaðstoðin hófst, að það mundi lítill markaður verða fyrir íslenzkan fisk í Vestur-Evrópu eftir 1950, og mátti þess vegna alltaf ganga út frá því fyrir alla þá, sem til þekktu í þessu, að við mundum, þegar að þeim tíma kæmi, þurfa að vera búnir að koma okkur upp öruggum mörkuðum í ýmsum öðrum löndum. Nú hefur það líka sýnt sig, hvernig farið hefur með þann markað, sem við um tíma höfðum í Englandi, Hollandi, Belgíu, Frakklandi, þ. e. Vestur-Evrópulöndunum, og nú virðist ríkisstj. seint og síðar meir vera að sjá það, að það mundi hafa verið heppilegra að fara fyrr inn á að gefa Íslendingum möguleika til þess að afla sér markaða fyrir okkar framleiðslu sem víðast. Einbeitingin að því að framleiða svo að segja einvörðungu okkar fisk til sölu til þeirra landa, sem geta borgað pund og dollara, hefur reynzt háskasamleg fyrir landið. Sökum þessarar einbeitingar höfum við á undanförnum árum sleppt því að vinna að öflun markaða úti um allan heim, sem við hefðum getað náð í, í stórum stíl. Og við höfum látið okkar keppinauta, Norðmenn og aðra slíka, sópa greipar svo að segja um þessa markaði, komast inn til þessara landa, einmitt á sama tíma sem þessi lönd höfðu hvað mesta þörf fyrir fiskinn og við hefðum getað unnið þann markað fyrir okkar vörur, sem eru hvað gæði snertir alltaf mun betri, en þeirra. Nú hins vegar rekum við okkur á það og höfum sérstaklega orðið áþreifanlega fyrir barðinu á því nú á þessu ári, að markaðirnir í Vestur-Evrópu hvað hraðfrysta fiskinn snertir hrynja, og hefur þess vegna verið dregið stórkostlega úr okkar framleiðslu á þessari aðalútflutningsvöru okkar, og möguleikarnir til þess að hagnýta okkar togara til stórkostlegnar framleiðslu á því sviði með því að láta þá leggja upp í frystihúsin um allt land hafa ekki verið hagnýttir, m. a. vegna þess, að öll frystihús hafa verið full og ríkisstj. talið mönnum trú um, að það væri mjög erfitt að selja meira, og ekki gefið mönnum rétt til þess að gera það. Við erum sem sé vegna rangrar verzlunarstefnu í þessum efnum komnir í erfiðleika, sem hafa hindrað framleiðsluna stórum fyrir okkur nú í ár og gert okkur ókleift að hagnýta þá stórkostlegu möguleika, sem Ísland hefur, í fyrsta lagi vegna þeirra tækja, sem við eigum, togara- og bátaflotans og okkar fiskiðjuvera, sem geta framleitt mörg hundruð millj. kr. meira verðmæti, en þau hafa framleitt í ár eða í fyrra, og í öðru lagi hafa ekki verið hagnýttir þeir möguleikar, sem staðið hafa til boða á undanförnum árum með markaði úti um allan heim, og í því sambandi vil ég greinilega taka fram, að ég á þar jafnt við markaði í þeim kapítalistísku löndum eins og þeim sósíalistísku. Ég efast ekki um, að það hafi verið jafnlítið hagnýttir ýmsir þeir markaðir, sem við gætum haft í Brazilíu og Afríku, eins og þeir hafa verið vanræktir í Austur-Evrópu. Og það er enginn efi á því, að þrátt fyrir ýmislegt, sem álasa mætti íslenzkri verzlunarstétt fyrir, þá hefði það verið okkar þjóð miklu hentugra á undanförnum árum, að allur sá fjöldi manna, sem í verzlunarstéttinni starfar, hefði fengið að beita sínum kröftum að því að reyna að afla íslenzkum fiski markaðs úti um allan heim, heldur en að einbeita þeim öllum saman við slagsmálin um leiðina upp á Skólavörðustíg, og það hefði verið eitthvað nær að láta keppa við Norðmenn í öllum löndum heimsins um að koma okkar fiski inn, heldur en að skapa stöðugt umsátursástand árum saman, eins og verið hefur, um alla þá í fjárhagsráði eða gjaldeyrisnefndum, sem veitt hafa leyfi til innflutnings. Slíkt var hægt með því að rýmka um útflutninginn og gefa mönnum leyfi til þess að fá að flytja út. Og þetta frv., sem við leggjum hér fram, var einmitt upprunalega hugsað sem praktísk till. um, hvernig hæstv. ríkisstj. og Alþingi gætu út frá þeirri stefnu, sem í orði kveðnu á að ríkja nú, komið slíku fyrir. Þetta frv. er ekki neitt prinsipmál. Það er aðeins og hefur aldrei verið flutt öðruvísi, en sem praktísk tillaga um, hvernig, miðað við núverandi aðstæður, miðað við það t. d. að hafa ekki fiskábyrgð og annað slíkt, væri hentugast að koma þessum málum fyrir.

Þegar ég flutti þetta frv. fyrst hér á Alþingi 1950, þá lét ég fylgja með því frv. allýtarlega grg. og sýndi fram á möguleika, sem ég víssi að væru fyrir hendi um markaði fyrir íslenzkar afurðir í Austur-Þýzkalandi. Það frv. mitt þá var þá á þskj. 23 á þinginu 1950, og þar var birt allýtarleg grg. um viðskiptamöguleikana við Austur-Þýzkaland. Ég sýndi þá fram á, að það væri hægt að selja til Austur-Þýzkalands íslenzkar vörur, og hafði í höndunum og lagði fram og lét fylgja með þessu frv. bréf frá verzlunarmálaráðuneyti Þýzkalands um, hvers konar vöruskiptum væri hægt að koma þarna á, að það væri hægt að selja íslenzkar vörur fyrir um 2 millj. dollara eða um 32 millj. íslenzkra króna og kaupa í staðinn ýmsar vörur, sem eru líka taldar hér upp, þar sem fyrst er talin vefnaðarvara, rafmagnsvara, byggingarvara, járn, gler og glervörur og annað slíkt. Og það varð aldrei neinn maður til að bera brigður á það, að þessir möguleikar væru fyrir hendi. Hæstv. ríkisstj. hins vegar gaf út ýmsar yfirlýsingar út af þessu til þess að reyna að hnekkja þessu. Ég gaf út yfirlýsingu þá á móti, sem ég birti líka í þessari grg., og skoraði á ríkisstj. að gera gangskör að því að leyfa samninganefndum íslenzkra aðila að fara út til Þýzkalands til þess að semja og sýndi fram á, hvernig bæði Danir, Svíar og Norðmenn væru að semja við Þýzkaland. Hæstv. ríkisstj. gerði aldrei neitt í þessum málum nema koma með yfirlýsingar gagnvart þjóðinni, blekkjandi yfirlýsingar til að reyna að draga úr trú almennings á það, að þessir möguleikar væru fyrir hendi. Ég gat sýnt, að það var hægt að gera þetta 1950, og hafði lagt sannanirnar á borðið. Ég vissi, að það var hægt að gera þetta líka í fyrra, og ég veit, að það er hægt að gera þetta í ár. Og ég veit, að nú, þegar hæstv. ríkisstj. er búin að koma sölumálum á hraðfrysta fiskinum og öðru í öngþveiti með vitlausri stjórnmálastefnu og með því að hirða ekki nokkurn skapaðan hlut um allar þær aðvaranir, sem hún hefur fengið, þá getur hún ekki lengur lokað augunum fyrir því, að þessir möguleikar eru til og liggja jafnvel á borðinu fyrir henni núna. Og það væri raunar æskilegt að fá upplýsingar um það, hvort hæstv. ríkisstj. sé orðin sannfærð um það nú, að það sé hægt að selja hraðfrystan fisk, 2 þús. tonn, 3 þús. tonn, og jafnvel meira af vörum til Austur-Þýzkalands og fá þaðan nýtar vörur í staðinn. Ég býst nú við, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki nú svara þessu með sama yfirlætinu eins og hún gerði og sams konar yfirlýsingum eins og hún kom með 1950, þegar hún lýsti því yfir, að hún hefði sótzt eftir að fá í Austur-Þýzkalandi sykur, fóðurvörur og rúgmjöl, — nokkrar þær vörur, sem hún sízt gat fengið þar, — og látið svo við það sitja að vera ekkert að athuga með aðrar vörur, sem ég lagði nákvæmlega fyrir þá að hægt væri að útvega. Á þeim tveim árum, sem t. d. þessir möguleikar ekki hafa verið hagnýttir, hafa allar Norðurlandaþjóðirnar gert mikil viðskipti bara við þetta eina land, og er þetta þó ekki nema lítið land, sem þarna er um að ræða, en land, sem ég veit að getur tekið miklu meira en 2 eða 3 þús. tonn af íslenzkum hraðfrystum fiski, land, sem raunverulega er og hefur verið einn af okkar beztu fiskmörkuðum hér áður fyrr, ef það er notað. Berlín og Saxland, þessi iðnaðarsvæði Þýzkalands, hafa alltaf verið miklar fiskætur, ekki sízt á íslenzka fiskinn, sem fluttur var til Þýzkalands fyrir stríð. Ég minnist aðeins á þetta núna vegna þess, að þetta er dæmi, sem mér er persónulega vel kunnugt um og ég hef áður lagt hér fyrir til þess að reyna að fá hæstv. ríkisstj. til þess að hugsa um þessi mál, en ég veit, að það munu vera mörg lönd, sem eins er ástatt um. Og mér finnst það ákaflega hart, ef það þarf að skaða þjóðina um 5060 millj., máske upp í 200 millj. kr. á hverju ári með því að sleppa að framleiða verðmæti, sem við getum selt erlendis, bara vegna þess að landsmönnum er ekki gefið frelsi til þess að fá að flytja út úr landinu þær vörur, sem þeir treysta sér til þess að selja sjálfir.

Ég er, eins og hv. þm. er kunnugt, ekki á móti ríkisafskiptum, en vilji ein ríkisstj. taka að sér að stjórna þjóðarbúskap, þá verður hún að gera það með því að hafa ábyrgð á því, sem hún gerir. Ef ein ríkisstj. hér á Íslandi ætlar að taka að sér að hafa valdið um allan útflutning Íslendinga, þá á hún að segja við landsmenn: Þið megið allir framleiða eins mikið og þið getið af fiskafurðum. Við tryggjum ykkur þetta hér ákveðna verð, og við tökum alla framleiðsluna og seljum hana. — Ef ein ríkisstj. treystir sér ekki til að gera þetta, þá á hún að gefa landsmönnum frelsi til þess að mega framleiða og selja eins og þeir bezt geta sjálfir. Aftur á móti er nauðsynlegt, að með slíku frelsi sé haft visst og ákveðið eftirlit, og við höfum þess vegna í þessu frv. reynt að bóka í hverri einstakri grein þess eftirlit ríkisins til þess að tryggja almenningshag í þessum efnum, eins og ég nú skal athuga og skýra stuttlega. Ég vonast sem sé til þess, að hv. þm. geti verið mér sammála um það, að möguleikarnir séu nægir fyrir hendi í heiminum til þess að selja allt það, sem Íslendingar geta framleitt, og að svo fremi sem ein ríkisstj. tekur ekki að sér að tryggja slíkt, þá sé rétt að gefa landsmönnum sjálfum frelsi til þess að reyna það. Hins vegar þurfi af hálfu ríkisstj. að hafa visst eftirlit með, að þetta frelsi sé ekki misnotað, og út á það að tryggja slíkt eftirlit ganga þessar einstöku brtt., sem við flytjum við hverja af þessum greinum. Ég skal taka það fram þeim þm. til skýringar, sem ekki hafa kynnt sér lögin sjálf, að ef þetta frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, þá hljóða lögin alveg eins og það er, þar er hverri grein breytt.

Í 1. gr. er slegið föstu, að það sé frjálst að bjóða til sölu og selja og flytja út íslenzkar afurðir með þeim takmörkunum, sem þessi lög ákveða eða ákveðnar eru í öðrum lögum um gjaldeyrisverzlun. Það þýðir sem sé gjaldeyriseftirlit, menn verða að skila gjaldeyrinum, en annars afnemur þetta þau gömlu lagaákvæði, að það megi ekki selja vöru eða bjóða út nema með leyfi ríkisstj.

Þá segir í 2. gr., að ríkisstj. sé heimilt að auglýsa lágmarksverð á hverri vöru, sem út er flutt, og hver útflytjandi sé skuldbundinn til þess að bjóða ekki út eða selja undir því lágmarksverði. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá var sú hætta í þeirri gömlu frjálsu samkeppni hér heima fyrrum, að menn áttu til að undirbjóða hver annan, og enn fremur hitt, að þegar margir voru seljendur, þá leit þannig út fyrir útlendum kaupanda, er hafði tilboð frá mörgum stöðum, ef máske sama magnið af vöru var boðið út á mörgum stöðum og máske af mörgum seljendum til sama kaupandans, að það væri miklu meira magn á markaðnum, heldur en raunverulega var. Þetta gat valdið því, að verð þess vegna félli, án þess að ástæður væru til. Til þess að koma í veg fyrir þetta er í þessum lögum ríkisstj. heimilað að ákveða lágmarksverð á íslenzkri vöru. Eins og gefur að skilja, er slíkt lágmarksverð af hálfu ríkisstj. ákveðið með tilliti til þess verðs, sem fáanlegt er á hverjum tíma. Hæstv. núverandi ríkisstj. hefur t. d. raunverulega framkvæmt þennan hlut á víssan hátt. Í hvert skipti sem útflytjandi nú biður um leyfi til þess að flytja út, þá spyr ríkisstj., hvaða verði hann geti selt á, eða segir jafnvel: Það má þá ekki selja fyrir lægra verð heldur en þetta og þetta. — Ég vil aðeins geta þessa vegna þess, að einstaka sinnum hafa menn, svona meira í gríni, heldur en í alvöru, verið að segja, að það væri nú nógu þægilegt, ef ríkisstj. gæti bara sagt: Þetta þurfum við Íslendingar nú að fá fyrir okkar vöru, og þetta er lágmarksverð, — þótt ekki nokkur lifandi maður í heiminum geti borgað það. Og náttúrlega dettur engum manni í hug neitt slíkt nema einstöku blöðum kannske. Það, sem hér er um að ræða, er, að ríkisstj. með sínum samböndum við þá, sem sérþekkingu hafa, eða með aðstoð sinna sérfræðinga ákveður, hvað óhætt sé á hverjum tíma með tilliti til erlends markaðs að setja sem lágmarksverð á vöru. En þegar lágmarksverð er sett á íslenzka vöru, þá skapast þeir erfiðleikar, að verðið er mismunandi á hinum ýmsu stöðum í heiminum. Það er annað verð í Bandaríkjunum, en í Englandi, annað verð á Spáni, en á Ítalíu, annað verð í Hollandi, en í Tékkóslóvakíu o. s. frv. Og við hvað á þá ríkisstj. að miða lágmarksverð? Getur hún farið að miða það við hvert land út af fyrir sig? Ég álít, að það mundi vera eðlilegast fyrir Ísland, ef við eigum að reyna að skapa frjálsa verzlun á þessum sviðum, að miða lágmarksverð á útflutningsvörunni við eitt ákveðið verðlagssvæði. Við skulum segja t. d., að ef ríkisstj. ákveður að miða við brezka verðlagssvæðið, þá segir hún: Jú, það er leyfilegt að flytja út íslenzka vöru, miðað við það verð, sem við álitum nú að fáist í Bretlandi, — og tilkynnir það verð og segir um leið: Hins vegar munum við miða alla verðlagningu á innlendum vörum og hámarksverð þar við þetta sama verðlagssvæði, — og kem ég að því betur síðar, hvað það muni þýða í praktískri framkvæmd. M. ö. o.: Á Íslandi sjálfu getur helzt ekki gilt nema eitt verðlagssvæði. Það þýðir, að þegar við ætlum að reyna að ákveða hér samfellt verðlag. Þá verði þess vegna að miða við eitthvert af þeim verðlagssvæðum, sem við skiptum við.

Í 3. gr. er síðan ákveðið, að svo framarlega sem ríkisstj. gerir samning við önnur ríki um sölu ákveðinnar vörutegundar þangað, þá sé henni heimilt að ákveða, að ekki megi bjóða til þess ríkis eða selja þangað það magn af vörutegundum, sem hún hefur samið um sölu á. M. ö. o.: Ríkisstj. hefur eftir sem áður, þrátt fyrir samþykkt þessara l., möguleikann til þess að gera samninga við ákveðið ríki um svo og svo mikið magn af vöru, sem hún selur út úr landinu, og þá geta engir aðrir aðilar farið að undirbjóða ríkisstj. eða á nokkurn hátt orðið til þess, beint eða óbeint, að spilla fyrir þeirri sölu. Þar hefur hún alveg sitt gamla vald, svo framarlega sem hún hefur sjálf samið um ákveðið magn af vöru til slíks lands.

Í 4. gr. er ákveðið, að svo fremi sem útflytjandi selji ekki vörur sínar gegn frjálsum gjaldeyri né upp í samninga samkv. viðskiptasamningum ríkisstj., þá sé honum heimilt að kaupa í staðinn vörur til innflutnings, svo fremi sem innflutningur slíkra vara sé ekki bannaður samkv. 5. gr. frv. Þá komum við að því atriði, sem snertir það, sem oft er hér mikið um rætt, sem sé vöruskiptin eða clearing-kerfið eða annað slíkt. Nú skulum við segja, að það sé selt til einhvers lands samkv. slíku kerfi, þ. e. selt upp í vörur, sem keyptar eru ýmist í einu lagi eða smátt og smátt á móti. Og hvernig hefur nú hátturinn raunverulega verið undanfarið í verzlun hvað þetta snertir? Hann hefur verið þannig, að þegar selt hefur verið til clearing-landanna, þá hefur t. d. hraðfrysti fiskurinn verið seldur á mun hærra verði, en hann hefur verið seldur til Belgíu og Bretlands. Hraðfrysti fiskurinn hefur þá jafnan verið seldur á framleiðslukostnaðarverði, jafnvel stundum yfir það. Varan, sem keypt hefur verið í staðinn, hefur hins vegar verið keypt stundum á nokkru hærra verði, en hún hefði verið keypt t. d. í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Þegar samsvarandi fiskur hins vegar hefur verið seldur t. d. til Bretlands, þá hefur hann máske verið seldur 30% undir framleiðsluverði, og útflytjandinn hefur síðan með bátaútvegsgjaldeyriskerfinu bætt sér upp þetta 30% tap á sölunni til Bretlands með því að fá að leggja á helminginn af andvirði þeirra vara, sem hann kaupir inn í staðinn, 60% álagningu, sem kölluð er bátaútvegsgjaldeyrir. Afleiðingin af þessu hefur verið sú, að sumpart hafa komið vörur frá þessum löndum með þessu sérstaka leyfi, og það hefur verið bein einokun á innflutningi þeirra vara, bátaútvegsgjaldeyrisvaranna. Hins vegar hafa svo komið inn vörur fyrir hinn helminginn, sem ekki var bátaútvegsgjaldeyrir, sem hafa þá verið keyptar fyrir punda- eða dollaragjaldeyri, sem fenginn er með því að selja vörur 30% undir framleiðsluverði, og eru síðan seldar hérna heima með venjulegu móti. Á sama tíma hafa svo verið keyptar fyrir íslenzku vöruna, sem seld hefur verið í clearing-löndunum á framleiðslukostnaðarverði, samsvarandi vörur og vörurnar frá Englandi og Bandaríkjunum, sem ekki lentu undir bátaútvegsgjaldeyrinum, heldur frjálsa hluta gjaldeyrisins þar, og síðan hefur átt að selja vörurnar frá clearing-löndunum í samkeppni við þær hérna heima. Með þessu móti hefur allt verðlag ruglazt á þessum hlutum, þannig að menn hér heima hafa ekki getað dæmt um það, hvar er heppilegast að verzla frá þjóðarbúskap Íslendinga séð.

Hvernig væri nú hægt að koma þessu fyrir, svo framarlega sem það ætti að vera jafneðlilegt fyrir íslenzkan einstakling að kaupa sína vöru t. d. frá einhverju clearing-landi og fyrir þjóðarbúið í heild að skipta við það? Það eðlilegasta væri, ef 2. og 4. gr. í þessu frv. væru framkvæmdar og bátaútvegsgjaldeyriskerfið afnumið. Útflytjandinn, sem selur sina vöru hvort heldur er til Bretlands, Bandaríkjanna, Tékkóslóvakíu eða til annars lands, verður til allra landanna að selja að minnsta kosti á sama lágmarksverðinu, sem ríkisstj. ákveður og við skulum segja t. d. að sé miðað við brezkt verðlagssvæði. Þegar þessir aðilar síðan kaupa inn í staðinn eða hafa sín skipti við heildsala eða S. Í. S. hér heima, þá verða þeir að kaupa inn í þessum löndum, hvort það er Bretland, Bandaríkin eða clearing-löndin, og jafna sjálfir á milli sín verðmismuninum, þ. e. útflutningsverðinu á íslenzka fiskinum og innkaupsverðinu á vörunni, sem þeir kaupa í þessum löndum. Ef maður, sem flytur út fisk til Bretlands eða Bandaríkjanna, fær þar 30% minna en kostnaðarverð, þá verður hann að leggja þessi 30% á þá vöru, sem hann kaupir fyrir þessi pund og þessa dollara, sem aflað hefur verið á þennan dýra hátt, þegar hún er flutt hér inn í landið, til þess að ná þannig sínum kostnaði, og hann er látinn gera það núna á víssan hátt með bátaútvegsgjaldeyrinum. Maðurinn, sem selur til Austur-Evrópulandanna eða annarra clearing-landa og fær þar framleiðslukostnaðarverð eða jafnvel hærra, verður, þegar hann kaupir vörur frá þessum löndum, að lækka þá vöru til þess að geta keppt við þá vöru, sem kemur ef til vill á ódýrara verði frá Bretlandi eða Bandaríkjunum. Og vörutegundirnar, sem streyma inn í landið frá þessum mismunandi verðlagssvæðum, verða að jafnast þannig í samkeppninni hér heima. Engum manni getur haldizt uppi að selja út úr landinu með tapi, öðruvísi en þannig, að hann tryggi sér þá jafnhliða að fá það bætt upp erlendis. Þannig kemur það greinilega í ljós fyrir þjóðina, hvar viðskiptin eru heppilegust, en um leið notast til fulls allir þeir möguleikar, sem hér væru, hvort heldur væri á almennum, frjálsum markaði í auðvaldslöndunum eða á markaði clearing-landanna eða annarra slíkra, til þess að koma út íslenzkum afurðum. Og 4. gr. miðast við það að gera þessa verðjöfnun að lögum. Þar er síðan ákveðið, þegar keypt er inn t. d. frá clearing-löndunum: „Eigi þarf innflutningsleyfi fyrir innflutningi vara, sem þannig eru keyptar, en tilkynna skal fjárhagsráði vörutegundir, verð, magn og komutíma. Skulu vörur þessar verðlagðar samkv. venjulegum álagningarreglum og einnig heimilt, ef þörf þykir, að setja á þær sama hámarksverð í smásölu og gildir um samsvarandi vörutegundir keyptar inn í landið fyrir frjálsan gjaldeyri, enda sé lágmarksverð samkv. 2. gr. miðað við sama verðlagsgrundvöll.“ — Það hafa stundum orðið deilur um þessi atriði, en eins og ég vona að menn skilji, mundi með þessu móti vera tryggt, að á markaði hér heima mundu þessir aðilar fyllilega fá að keppa og verðlagssvæðið íslenzka að jafna þann mismunandi verðlagsgrundvöll, sem væri í þeim ýmsu löndum, sem við skiptum við. Enn fremur segir þarna: „Þyki þörf á slíku, skal það hámarksverð auglýst sem almennt smásöluverð viðkomandi vörutegunda.“ Undir sumum kringumstæðum gæti þetta vafalaust þýtt, að þeir menn, sem seldu til sumra landa, þar sem erfitt væri að afla okkur markaða, mundu um tíma, ef þeir keyptu inn vörur frá þessum löndum aftur í staðinn og það væru frekar óhagstæð viðskipti, verða að leggja að sér, þeir mundu verða að taka mjög lítinn hagnað á slíkum viðskiptum og tryggja þannig það, sem þeir byggjust við að yrðu okkar framtíðarviðskipti, með því að fórna augnablikshagsmunum sínum fyrir framtíðarhagsmuni. Enn fremur segir þarna í 4. gr.: „Afhenda skal gjaldeyriseftirlitinu sölu- og kaupreikninga allra slíkra vöruskipta, og er því skylt að athuga, að ekki sé framinn gjaldeyrisflótti með slíkum vöruskiptum.“ M. ö. o.: Hvað snertir þá almenningshagsmuni, sem þarna eiga í hlut, að viðskipti við vöruskiptalöndin yrðu ekki til að hækka verðlagið í landinu, þá væri með framkvæmd þessarar greinar komið í veg fyrir það.

Það er einn hlutur, sem ég vil greinilega taka fram, vegna þess að það hafa oft komið fram undarlegar skoðanir hér í hv. deild í sambandi við þetta efni. Það hafa komið þær skoðanir fram, að viðskipti við clearing-löndin væru okkur óhagstæðari, en viðskiptin við frjálsu verzlunarlöndin. Þessi viðskipti virðast því aðeins óhagstæð, að bátaútvegsgjaldeyrisskipulagið sé notað til þess að bæta upp útflytjendunum allt það tjón, sem þeir bíða á því að selja fiskinn til Bretlands og annarra slíkra landa, þar sem hann er seldur undirverði og bátaútvegsgjaldeyrisfyrirkomulagið þannig notað til þess að dylja raunverulega fyrir þjóðinni tapið á viðskiptunum við þau lönd. Hins vegar vil ég benda á, og það væri raunverulega full ástæða til þess að gera nokkra gangskör að því að athuga það betur, að bátaútvegsgjaldeyrisfyrirkomulagið hefur verið notað til þess að leggja bátaútvegsgjaldeyri á vörur frá clearing-löndunum, vörur frá löndum, sem greiða fullt framleiðsluverð fyrir freðfiskinn, þannig að það er enginn réttur til þess að leggja neitt bátagjaldeyrisgjald á þann lið. Þegar freðfisksútflytjendur fá framleiðsluverð fyrir sína vöru, þá eiga þeir, eins og bátaútvegsgjaldeyriskerfið raunverulega var hugsað, engan rétt á því að heimta neina extra álagningu á þá vöru, en sannleikurinn er, að þetta hefur verið framkvæmt á þann hátt, að það hefur verið lagt sérstakt aukagjald á vörurnar frá clearing-löndunum til þess að gera þær ósamkeppnisfærar hér heima við vörurnar frá frjálsu verzlunarlöndunum og til þess að dylja fyrir þjóðinni tapið á viðskiptunum við Belgíu og Bretland.

Þetta er eitt af því, sem hægt er að dylja í öllum þeim glundroða af mismunandi innflutningskerfum, sem nú er beitt á Íslandi. Það er hægt að dylja þetta og fara í svoleiðis skollaleik og blindingaleik og blekkingaleik frammi fyrir alþýðu manna, að hún hafi ekki hugmynd um, hvar heppilegast sé fyrir hana að verzla, eða hvort vara er raunverulega þjóðhagslega séð dýr frá þessu landi eða ódýr frá öðru, því að það eina, sem við getum raunverulega miðað við, er alls ekki peningaverð hérna heima, heldur hitt, hvað við fáum — næstum því eins og við reiknuðum á landsvísu — í hverju landi fyrir hverja einingu af þeim afurðum, sem við flytjum út.

Ég hef nú oft áður reynt að skýra þessar uppástungur, sem í þessu frv. felast, fyrir hv. þm., og ég hef að vísu orðið var við það, að þetta frv. hefur aldrei sætt neinum mótmælum og það hefur aldrei verið hægt að fá fram eina einustu aths. við það hér á þingi, ekki einu sinni í fjhn., eða nein rök um, að þetta kerfi geti ekki gengið. Þetta frv. var afgr. frá fjhn. í fyrra, án þess að nokkur í fjhn. treysti sér til þess að segja nokkurn skapaðan hlut á móti því, en meðnm. mínir vildu ekki heldur taka afstöðu með því. Vera má, að nú væri nokkur annar grundvöllur fyrir hv. þm. til að taka afstöðu til þessa máls með tilliti til þess efnahagsástands, sem núna ríkir í landinu. Og þó að það sé seint, þar sem þetta er nú þriðja þingið, sem þetta mál hefur verið flutt á, þá gæti það þó að minnsta kosti, að mínu áliti, afstýrt ýmsum skaða á næstunni. ef það væri gert.

Í 5. gr. er ríkisstj. heimilað að banna innflutning á vissum vöruflokkum, sem álitið er að þjóðin hafi ekki efni á að flytja inn. Ég á með þessu við það, að það sé ekki rétt, meðan þjóðin þarf á annað borð að neita sér um að hafa frjálsan innflutning á vörum, að láta flytja svo og svo mikið af óþarfavörum til landsins, og með þessu væri ríkisstj. gefin heimild til að banna bókstaflega innflutning á slíkum vörum. Hins vegar væri leyft að flytja til landsins alveg frjálst allar þær nauðsynjavörur, sem aldrei væri eðlilegt að takmarka þannig, matvörur, vefnaðarvörur, byggingarvörur eða annað slíkt, og við settum þessa grein eiginlega inn upphaflega vegna þess, að það hefur stundum þótt, að einmitt frá clearing-löndum væri reynt að flytja inn hina og þessa óþarfavöru, og að vísu hefur nú sama gilt, sérstaklega í ríkum mæli upp á síðkastið, um frjálsu verzlunarlöndin, en þessi heimild ætti að vera til, og eins og allir sjá, gæti hún verið mjög heppileg, ef rétt væri notuð.

Í 6. gr. er gengið út frá, að sams konar rétt til þess að kaupa aftur fyrir sínar vörur, sem fluttar eru út, skuli menn ekki aðeins hafa viðvíkjandi fiskútflutningnum, sem hér er gengið út frá. heldur hafi menn, ef þeir fara að flytja út íslenzkar iðnaðarvörur t. d., sem ekki hafa verið fluttar út áður, rétt til þess að ráðstafa gjaldeyrinum fyrir þær, eins og gert er ráð fyrir að menn hafi almennt eftir 4. gr. Ég efast ekki um það, að íslenzkur iðnaður hefur fyllilega möguleika á því að stunda útflutning í stórum stíl, svo framarlega sem hann aðeins hefur fullt frelsi til þess. Og það er til það mikið af verksmiðjum hér á Íslandi, sem hvað tækni snertir og vinnuaðferðir eru fyllilega sambærilegar við erlendar verksmiðjur, að svo framarlega sem þessar verksmiðjur eru reknar af fullum krafti, — og þegar ég tala um fullan kraft, þá meina ég með tveimur vöktum að minnsta kosti og árið um kring, — þá geta þær náttúrlega orðið margfalt samkeppnisfærari en þær eru núna, en það þýðir, að slíkar verksmiðjur verða að fá að flytja inn hráefni ótakmarkað, án þess að þurfa að spyrja nokkurn aðila að því, og það þýðir, að þær verða að fá að geta ráðstafað sínum gjaldeyri til að flytja inn slík hráefni.

Nú sem stendur er íslenzkur iðnaður, sumpart með ráðstöfunum ríkisstj. og sumpart með ráðstafanaleysi hennar, meira eða minna eyðilagður. Öll sú gífurlega framleiðslugeta, sem í honum felst, fæst ekki hagnýtt með þeim aðferðum, sem nú eru, að menn þurfi að hafa svo að segja í hverju iðnfyrirtæki tvo forstjóra, annan til þess að hanga yfir gjaldeyrisnefndinni eða fjárhagsráði til þess að reyna að blekkja út úr henni einhver leyfi, til þess að láta síðan verksmiðjurnar ganga einhvern hluta af árinu og venjulega þá næstum því með tapi og til þess að framleiða vöru, sem sé framleidd á þann allra ópraktískasta hátt, gera fólkið svo þess á milli atvinnulaust og reka það út á gaddinn. Með slíku móti er alls ekki hægt að reka nýtízku iðnað, svo að nokkurt vit sé í. — Og með þessari 6. gr. væri gengið út frá því að gefa íslenzkum iðnaði möguleika til þess að geta þannig keypt sér hráefni inn fyrir vörur, sem hann flytur út, án þess að þurfa að spyrja nokkur yfirvöld að því. Og ég get nú satt að segja ekki séð, hvað ætti að vera í vegi fyrir slíku, nema það sé eitt af því, sem uppálagt sé í sambandi við þann innflutning, sem hér hefur verið framkvæmdur fyrir pund og dollara á erlendum iðjuvarningi, nema því aðeins að það sé bókstaflega uppálagt að eyðileggja íslenzka iðnaðinn með þessu.

Þetta frv. fer sem sé í stuttu máli fram á, að fyrst ríkisstj. tekur ekki að sér að tryggja ábyrgðarverð á útflutningsvörunum, þá fái þjóðin að reyna að bjarga sér sjálf, fái frelsi til þess, með því eftirliti þó, sem í þessu frv. er tryggt að ríkisstj. geti haft í sínum höndum, gegn því annars vegar, að hægt sé að selja íslenzkar vörur erlendis fyrir allt of lágt verð, og gegn því hins vegar, að hægt sé að nota aðstöðuna til þess að fara að okra á almenningi hérlendis. Ég vil nú vonast til þess, með tilliti til þess ástands, sem nú er komið í landinu, að þetta frv. finni nú náð fyrir augum okkar hv. þingdeildar, og vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og fjhn.