20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ekki getað átt samleið með hv. meðnm. mínum um afgreiðslu þessa máls. En svo sem frsm. meiri hl. n. hefur gert grein fyrir, er upphaflega lagt til í frv. þessu, að Egilsstaðahéraði sé skipt í tvö læknishéruð. Meiri hl. n. hefur hins vegar gert á frv. þá breyt. að leggja til, að læknunum í Egilsstaðahéraði verði fjölgað í tvo, á þann hátt, að héraðslæknirinn verði að vísu aðeins einn, en við hlið hans verði skipaður sérstakur aukalæknir í læknishéraðinu. Ástæður til þess, að ég hef ekki getað orðið samferða meðnm. mínum í máli þessu, eru þessar:

Það hafa ekki verið færð fyrir því sterk rök, að meiri ástæða sé til þess að fjölga læknum í Egilsstaðahéraði, en í fjölmörgum öðrum læknishéruðum landsins. Egilsstaðahérað er ekki stærra, ekki fjölmennara en algengt er um læknishéruð, sem þykja af hæfilegri stærð, en í því eru um 1.750 manns. Fjölmörg læknishéruð eru miklu stærri, miklu fólksfleiri, svo sem Sauðárkróks-, Blönduós- og Húsavíkurhéruð, og mjög mörg eru svipuð að fólksfjölda. Fólksfjöldinn gerir því ekki nauðsynlegt, að fjölgað sé læknum í Egilsstaðahéraði. Samgöngur í héraðinu eru ekki heldur þannig, að af þeim sökum beri til þess brýna nauðsyn að skipta læknishéraðinu eða fjölga þar læknum umfram önnur læknishéruð, þar eð Egilsstaðalæknishérað er greiðfært yfirferðar. Þar er t. d. um enga fjallvegi að fara og allar meginár brúaðar. Það, sem hér er því um að ræða, er spurningin um það, hvort yfirleitt eigi að fjölga héraðslæknum í landinu eða ekki. Ég skal í sjálfu sér engan dóm á það leggja. Ef meiri hluti Alþ. og hæstv. ríkisstj. telja sig hafa fjárráð til þess að fjölga héraðslæknum í landinu, þá á að sjálfsögðu að fara fram á því athugun, hvar brýnust þörf sé fyrir nýjan héraðslækni. Og ég er sannfærður um, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir félmn. hafa legið í málinu, að sú athugun leiddi í ljós, að brýnust þörf fyrir hinn nýja lækni væri ekki í Egilsstaðahéraði. Það er því alveg augljóst mál, að ef þetta frv. í upphaflegri mynd eða hinni breyttu mynd nær fram að ganga, þá mun rigna yfir hið háa Alþ. tillögum eða frumvörpum um fjölgun lækna annars staðar á landinu, og mun verða hægt að rökstyðja þær till. betur, en þessi till. er rökstudd. Það er þegar komin fram ein till. á þskj. 238 frá hv. þm. A-Húnv., og ég sé nú raunar ekki, að hægt sé að standa gegn þeirri till., ef hið upphaflega frv. eða till. meiri hl. n. nær fram að ganga, því að mér finnst að ýmsu leyti mega færa sterkari rök fyrir þeirri till., heldur en flutt hafa verið fram fyrir frv. og áliti meiri hl. Það hefur að vísu verið sagt, að ekki muni hljótast af þessu mjög verulegur aukakostnaður, þar eð þegar sé í lögum ákvæði um aðstoðarlækni í Egilsstaðahéraði og það er rétt svo að vera má, að af samþykkt þessa frv. eins mundi ekki hljótast mjög verulegur aukakostnaður. En kostnaðaraukinn, sem hlytist af samþykkt frv., fælist fyrst og fremst í því, að önnur héruð mundu með réttu geta talið sig eiga að sigla í kjölfar þessa frv., og það mundi kosta ríkissjóð mjög verulegar fjárfúlgur. Það segir sig sjálft, að ýmis héruð mundu telja sig hafa brýnan hag af því að fá læknum í héraði sínu fjölgað, m. a. vegna starfrækslu sjúkrasamlaganna þar, og má sem sagt búast við því, að allmikið af slíkum kröfum kæmi fram þegar á þessu þingi og áreiðanlega á næstu þingum, ef þetta mál nær fram að ganga.

Nú má að vísu segja, að það sé ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar hér að halda sparsemiskenningum að hæstv. ríkisstj., og einmitt með tilliti til þess þykir mér dálítið undarlegt, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í heilbr.- og félmn. skuli hafa mælt með því, að slíkt frv. og þetta næði fram að ganga, jafnvel þótt í nokkuð breyttri mynd sé, og þykir mér það stinga allmikið í stúf við afstöðu sumra hv. nm. og raunar ríkisstj. í heild, ef hún reynist standa með þessu frv., því að það eru ekki nema tvær eða þrjár vikur síðan annars vegar var sumpart vísað frá og hins vegar fellt í þessari hv. d. frv. um fjölgun embætta, einmitt með þeim rökstuðningi, að fjárhagur ríkissjóðs væri með þeim hætti, að mjög varhugavert væri að fjölga embættum. Hér var um að ræða prófessorsembætti við læknadeild háskólans, sem þó var í sjálfu sér alls ekki á móti mælt að nauðsynlegt væri að stofna, enda hafði sjálf ríkisstj. gerzt flm. að því frv., — og það var um að ræða annað prófessorsembætti við háskólann, í lagadeildinni, sem ríkisstj. sjálf hafði einnig flutt frv. um. Má því geta nærri, að ekki hefur það verið algerlega að ástæðulausu flutt. En báðum þessum frv. var komið fyrir kattarnef, öðru með samþykkt rökstuddrar dagskrár, hinu þannig, að það var beinlínis fellt til 3. umr. Þar eð rökstuðningurinn var í báðum tilfellunum sá, að það bæri að gæta hinnar fyllstu varúðar í sambandi við fjölgun embætta, kemur það nokkuð á óvart, að nú, tveim eða þrem vikum síðar, skuli þessi sparnaðaráhugi sem þarna kom fram, allt í einu dottinn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. og nú skuli ekkert vera við það að athuga, þó að nýtt embætti sé stofnað, og menn skuli jafnvel líka loka augunum fyrir því, að þessi embættisstofnun hlýtur að kalla á tillögur um fjöldamörg önnur embætti nú þegar á þessu þingi og áreiðanlega á hinum næstu eða næsta. Hér finnst mér því skjóta nokkuð skökku við, og ég hef viljað leggja til við hv. d., að hún hviki að svo stöddu ekki frá þeirri sparnaðarbraut, sem hún hélt inn á, um leið og hún vék frá hinum tveim frv. um stofnun embætta, sem til umr. voru hér fyrir tveim eða þrem vikum, heldur haldi áfram á þessari braut a. m. k. út þetta þing. Á næsta þingi mætti þá athuga öll þessi nýju frv. aftur. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram rökstudda dagskrá í málinu á þskj. 553. Hún er í raun og veru í fyllsta samræmi við þá rökstuddu dagskrá, sem samþykkt var fyrir skömmu, og leyfi ég mér að vænta þess, að hv. þdm. hafi ekki skipt um skoðun hvað það snertir, að ríkissjóði sé nauðsyn á að halda vel á fé sínu, og samþykki því þessa dagskrá eins og þeir samþykktu dagskrána, sem náði fram að ganga fyrir rúmum tveim vikum.