20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

145. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég tel, að hv. nefndarmeirihluti hafi gengið of skammt í till. sinum. Ég veit, að eins og till. eru, þá eru þær, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, að verulegu leyti runnar undan rifjum landlæknis, sem á seinni árum hefur ætíð verið þrándur í götu nauðsynlegra lagfæringa, þegar um hefur verið að ræða að fá einhverja leiðréttingu á læknamálum Fljótsdalshéraðs. Ég skal hins vegar játa, að það er veruleg umbót frá því, sem er, að fá fastan aukalækni í stað ungra og óreyndra aðstoðarlækna, sem einlægt hafa verið og verða væntanlega áfram að koma og fara. En mér er ljóst, að ýmsir annmarkar eru á þessu fyrirhugaða fyrirkomulagi, sem hv. nefndarmeirihluti leggur til, og ég óttast, að reynslan sýni, að þetta verði ekki viðunandi lausn. Ég skal hins vegar játa, að það, sem ég segi um það efni, er meira hugboð mitt, heldur en rökstudd skoðun. En hins vegar vil ég vona, að það reynist svo, að hv. nefndarmeirihluti og landlæknir hafi hér fundið þá leið til úrlausnar í þessum málum, sem allir geta sæmilega við unað í framtíðinni.

Okkur flm. er ljóst, að á þessu þingi er, úr því sem komið er, ekki að vænta betri úrlausnar í þessu máli en þeirrar, sem felst í tillögum hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. Við munum því sætta okkur við þær og eigum þá eftir þá einu ósk, að málinu verði hraðað svo, að það geti orðið afgreitt á þessu þingi. Um till. hv. minni hl. skal ég vera fáorður. Ég verð að segja það, að mig undrar í raun og veru afstaða hv. 3. landsk. Þessi hv. þingdeild afgreiddi í fyrra samhljóða miklu róttækari breytingu í þessu efni, en nú er um að ræða, og ég vil fullyrða, að þessi hv. þm. hafði þá ekki sérstöðu í málinu. Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til að fara út í að ræða þau fjarstæðukenndu rök, sem hv. 3. landsk. færir fram í nál. sínu og gerði sömuleiðis í ræðu sinni áðan. En rökrétt afleiðing af þeim fjarstæðukennda málflutningi er auðvitað ekki rökstudd dagskrá, heldur algerlega órökstudd. Ég vil benda hv. þm. á það, að hér er ekki um að ræða að stofna nýtt embætti. Hér er aðeins um að ræða, að í staðinn fyrir aðstoðarlækna, sem hafa átt að vera á Egilsstöðum, á að koma fastur aðstoðarlæknir. Hér er ekki heldur um neina launabreytingu að ræða eða sérstakan aukakostnað fyrir ríkissjóð, því að það er gert ráð fyrir því, að þessi aðstoðarlæknir gangi inn í þau launakjör, sem þessir læknar hafa notið, nema þá að því leyti sem slíkur aðstoðarlæknir, ef hann verður lengi í embætti, fær hærri laun vegna lengri þjónustu. Hér er ekki heldur um það að ræða að skapa aukakostnað vegna íbúðar. Það eina, sem kemur til mála í sambandi við íbúð, eins og málum er nú háttað samkv. till. meiri hl. hv. heilbr.- og félmn., er það, að væntanlegur aukalæknir fái, vitanlega öllum að meinalausu, að njóta þeirrar íbúðar, sem nú er þegar til í læknisbústað Egilsstaðahéraðs og er notuð af aukalæknunum. Rökstudda dagskráin er því vindhögg og gersamlega út í bláinn í sambandi við þetta mál, en það örlar á gremju hjá .hv. 3. landsk. þm. yfir afgreiðslu annars máls, sem er algerlega óskylt þessu máli, eins og hv. þm. A-Húnv. tók fram. Ég vil því, eins og ég hef getið, aðeins lýsa því yfir, að eftir atvikum látum við flm. þessa frv. okkur líka þær till., sem hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. ber hér fram.