24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

36. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur athugað þetta frv. Það er lagt fyrir þingið til staðfestingar á brbl. frá 16. júní s.l. Fram að þeim tíma var svo ráð fyrir gert í l., að fé hafnarbótasjóðs mætti verja í viðbótarframlög til þeirra hafnarframkvæmda, sem í gangi væru á hverjum tíma, eins og nánar er til tekið í l., og skyldu þessi framlög endurgreiðast í hafnarbótasjóð á 3 árum.

Með brbl. var þessu breytt í verulegum atriðum. Þar eru aðallega tvær nýjungar teknar upp. Í fyrsta lagi má veita beinan styrk úr sjóðnum til greiðslu á kostnaði vegna skemmda af náttúruhamförum, og í öðru lagi er heimilt að veita vaxtalaus lán með þeim kjörum og til þess tíma, sem ráðherra ákveður. Þessu var breytt nokkuð við meðferð málsins í Nd., á þann hátt fyrst og fremst að tryggja, að allar greiðslur úr sjóðnum, hvort heldur það eru kallaðir styrkir eða lán, skuli koma inn í sjóðinn aftur. Þetta er hvað lánin snertir tryggt frekar en í brbl. með því að setja beina ríkisábyrgð að skilyrði.

Nefndin hefur sem sagt athugað þetta frv. og borið það saman við fyrri löggjöf svo og brbl. og getur fallizt á, að það gangi fram eins og það er nú. Hún leggur því til, að það verði samþ. óbreytt.