20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

145. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal vera fáorður, því að það er raunverulega ekkert nýtt, sem kom fram í ræðu hv. 3. landsk. þm. frá því, sem hann hafði áður sagt. Hann staðfesti enn þá á ný þær fjarstæður, sem voru í málflutningi hans. Ég hélt nú, að hann hefði látið sér vel líka þann fróðleik, sem hv. þm. A-Sk. veitti honum. Það má segja, að ég hefði kannske átt að veita honum eitthvað af þeim fróðleik, en ég taldi það ástæðulaust. Ég ætlaði, að prófessorinn víssi betur en hann hefur látið í sínu nál. og sínum ræðum.

Ég skal aðeins nefna eitt dæmi í sambandi við nál. hans, sem sýnir, hvað málflutningur hans er í raun og veru undirstöðulaus. Hann er að gera samanburð á ýmsum aðstæðum í ýmsum læknishéruðum, þ. á m. í sambandi við erfiðleika á að ferðast um þau, og hann segir, að í Egilsstaðahéraði sé ekki um neinn fjallveg að fara. Þetta væri nú gott, ef satt væri. En ég held, að hv. 3. landsk. verði þungt fyrir skóflunni, ef hann ætlar að gera það að láglendi, þar sem er nú yfir fjöll að fara í ferðalögum um Egilsstaðahérað. Ég ætla þá að fræða hann um það, sem ég hélt að þyrfti ekki, að það er milli 50 og 60 km vegalengd yfir að fara um heiðar og fjöll í Egilsstaðalæknishéraði, og ef hann vill fá enn fyllri fræðslu, sem ég geri ráð fyrir að hann sé vanur að gefa úr sinum prófessorsstól, þegar hann er að fræða nemendur sína, þá skal þess getið, að hér er um að ræða leiðina úr Jökuldal alla leið til Víðidals á Fjöllum. Hugsið ykkur nú, þegar hv. 3. landsk., prófessor í hagfræði, vanur að virða tölur og aðrar staðreyndir, virðir þetta mál ekki meira en það, að hann telur óþarfa að rifja upp svona einfalda hluti í landafræðinni, — þá hluti, sem afi hans, Gísli í Húsey í Hróarstungu, sá mæti maður, þurfti ekki að fara í skóla til að vita. Hér er bara eitt dæmi tekið af málflutningi og rökstuðningi hv. þm. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að ég sé að eltast við fjarstæðurnar í löngum málflutningi í nál. og ræðum þessa hv. þm., og þarf ég ekki að afsaka það, þó að ég endurtaki það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að málflutningur hv. þm. væri fjarstæðukenndur, sem rökrétt hlyti að enda í röklausri dagskrártill. En ef hv. þm. óskar eftir frekari fræðslu um Egilsstaðalæknishérað, þá skal ég reyna að verða við þeim tilmælum.