20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm., minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 2. þm. N-M. bauð mér fræðslu um staðhætti í Egilsstaðalæknishéraði. Ég kæri mig ekki um meiri fræðslu af því tagi. sem hann veitti hér áðan. því að hún er mjög óábyggileg og ég mundi engum manni veita slíka fræðslu. Ég hygg að vafasamur málstaður hans í þessu máli hafi mjög litað fræðslu hans í þessu efni, og tel ég mig þar tala mjög varlega og vinsamlega í hans garð. Ef hann leyfir sér að kalla leiðina úr Jökuldal og út í Víðidal á Fjöllum fjallveg, þá notar hann orðið fjallvegur í talsvert annarri merkingu en hér tíðkast, því að hér er um að ræða heiði, jafnvel heiðadrög, en alveg tvímælalaust ekki fjallveg í þeim venjulega skilningi, sem lagður er í það orð og a. m. k. mundi vera lagður í það orð, þegar talað er um leiðir í öðrum læknishéruðum. Það er áreiðanlegt, að það eru ekki sambærileg samgönguskilyrði í Egilsstaðalæknishéraði og fjölmörgum öðrum læknishéruðum í landinu. Egilsstaðalæknishérað er auðvelt yfirferðar. Egilsstaðalæknishérað er eitt í hópi þeirra læknishéraða, sem eru auðveldust yfirferðar af læknishéruðum í landinu, þar sem samgöngur eru þar einna beztar. Þetta er líklega eina leiðin, sem segja má að um geti verið að ræða verulegar torfærur á, á vetrum sökum snjóa, en að kalla þessa leið fjallveg er fjarstæða, og hefði hv. þm. N-M. átt að spara sér þessa kennslu í landafræði, því að hún er hvorki honum til vegsauka né málinu til framgangs.