20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

145. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal játa það, og ég gerði mér það ljóst í upphafi, að ég get ekki þrýst fræðslu minni inn á hv. 3. landsk., og verður við það að sitja, þó að hann vilji vera áfram í villu og svima. Hann segir, að upplýsingar mínar í landafræði, er varða læknishérað Egilsstaða, séu mjög villandi. Ég held mig við staðreyndir. Ég sagði, að um fjöll og heiðar væri að fara tiltekna vegalengd, og það er rétt, og ég legg það ekki fyrir hv. prófessorinn, en ég bara bið hann um að kynna sér þetta, t. d. með því að fara í næsta sumarfríi sínu um þessar heiðar og fjöll og vita, hvort ég skýri ekki rétt frá, og ég held, að ef hv. 3. landsk., prófessor í hagfræði, kennir ekki sinum nemendum meiri fjarstæður og staðleysur, en ég hef verið að reyna að bjóða honum upp á í þessum fáu orðum mínum, þá megi hann vel við una, hvað hann ber á borð fyrir sína nemendur. Þetta er sem sagt staðreynd. Það eru ekki orðnir miklir möguleikar á því að bjóða hv. þm. að fara að vetrarlagi um Möðrudalsfjöll, en fyrir 10–20 árum mundi ég hafa reynt að stuðla að því, að þáverandi mjög duglegur póstur, sem ferðaðist frá Egilsstöðum til Grímsstaða á Fjöllum, hefði leyft hv. 3. landsk. þm. að ferðast með sér, og ætla ég, að þá hefði hv. þm. sannfærzt um, að leiðin væri meira en heiðadrög. Hitt er annað mál, að ég hefði ekki hér lofað því, að nefndur póstur hefði tekið hv. þm. í umsjá sína, því að ég býst við, að honum hefði ekki litizt fjallgöngumannlega á nemandann. En ég mundi nú hafa reynt samt að stuðla að þessu, en ég skora á hv. þm. að sannfærast á næsta sumri af eigin raun.