31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. 1. minni hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Barð. um það, að hér liggi fyrir og séu á dagskrá í dag tvennar brtt. við sömu l. Mál það, sem við erum hér að ræða nú, er um breyt. á l. nr. 44 1932, um skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna, en hitt málið, sem hv. þm. mun eiga við, er 121. mál, en það er um breyt. á l. nr. 30 frá 1933, um sjúkrahús o. fl., og er allt annar lagaflokkur. Ég vil leiðrétta það, því að með bezta vilja yrði þessu ekki steypt saman.

Út af máli því, sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég tel mína afstöðu vera fullkomlega í samræmi við það, sem hún var hér á síðasta þingi, þó að ég vilji láta samþ. það, að skipaður verði aukalæknir í Egilsstaðahéraði, því að það mundi ekki verða til þess að breyta læknisskipuninni, heldur er það eiginlega nánast annað form á því að hafa aðstoðarlækni, heldur en verið hefur. En það er nú búið að þrautreyna það um margra ára skeið, hvað erfitt er þar austur á Héraði að hafa aðstoðarlækni, og það svo, að fólkið, sem á við þetta að búa, telur ekki við það unandi lengur og hefur því stöðugt verið að reyna að gera tilraunir til þess að fá úr því bætt. Nú hafði m. a. þessi hv. d. hér ekki litið á það sem mögulegt að skipta læknishéraðinu, og þá var einmitt í samráði við landlækni gerð sú breyt., sem hér liggur fyrir varðandi Egilsstaðahérað, og var gengið frá þeirri breyt. af heilbr.- og félmn. Nd. Ég vil leggja áherzlu á það, að landlæknir var með í ráðum um þessa breyt. Það bendir ekki til þess, að hann sé málinu andvígur, að hann skuli hafa átt þátt í því. Og ég hygg, að menn ættu að spara sér allar áhyggjur út af þeim erfiðleikum, sem kunni að verða á starfi læknanna þar eystra, aukalæknis og aðallæknis, þangað til þeir erfiðleikar sýna sig, vegna þess að það má þá að minnsta kosti segja það, að þeir erfiðleikar, sem búið er við núna, séu svo miklir, að þeir muni tæpast verða meiri, þó að sú breyt. verði gerð, sem hér er gert ráð fyrir. — Ég leyfi mér svo að ítreka það, að ég óska þess, að hv. d. samþ. mína till., sem hefur m. a. þann kost, að hún gerir ekki ráð fyrir heildarbreyt. á læknaskipuninni.