31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

145. mál, skipun læknishéraða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka bæði hv. þm. Barð. og hv. 7. landsk. þm. fyrir þau gögn, sem þeir lögðu fram í þessu máli og mér finnst mjög hníga að því, að samþykkja beri rökstuddu dagskrána, — að málið liggi ekki þannig fyrir enn þá, að það sé hægt að taka um það fullnaðarákvörðun af hv. d. eða að það sé yfirleitt verjandi.

En mér finnst þó, vegna þess að ekki er öruggt, að hún verði samþykkt, rétt að ræða nokkru nánar um þá till. að setja sérstakan héraðslækni í Kópavog. Eins og ég sagði áðan, þá er enginn vafi á því, að mannfjöldi í Kópavogi er svo mikill, að út af fyrir sig væri mjög eðlilegt, að þar starfaði sérstakur héraðslæknir, en það, sem þvælist fyrir mér, er þetta, hvort líklegt sé eða hugsanlegt, að sá maður geti fengið nóg að starfa.

Hv. 7. landsk. drap á það um menn í byggðahverfum, t. d. upp við Elliðavatn, Vatnsenda og jafnvel enn þá ofar, nærri Lækjarbotnum, að vafasamt væri, að þeir gætu fengið sjúkrasamlagslækna úr Reykjavík til þess að fara þangað upp eftir. Þetta kann út af fyrir sig að vera rétt, — ég skal ekki um það dæma, er því ekki nógu kunnugur, — en hitt virðist mér greinilegt, að það muni vera auðveldara oft og tíðum fyrir lækna úr Reykjavík að komast einmitt á þessa staði, sérstaklega á þá staði, sem eru fyrir ofan Elliðavatn, heldur en fyrir mann, sem væri búsettur í Kópavogi. Það er beinlínis um styttri og greiðfærari leið að ræða úr Reykjavík á þessa afskekktustu staði heldur en er um að ræða fyrir mann í Kópavogi.

Til viðbótar þessu kemur það, að íbúarnir þarna eru í sjúkrasamlagi og eiga þar að vera, og mundu þeir þá ekki eftir sem áður halda áfram að velja sér sjúkrasamlagslækna hér í Reykjavík? Eða er meiningin að banna þeim að velja sér slíka lækna, og mundi þá ekki leiða af því réttarsviptingu þeim til handa, þannig að þeir teldu sig verr setta en áður? Ef ekki væri um slíkt bann að ræða, heldur ættu menn kost á því að velja — við skulum segja úr 70 manna hóp — þann, sem hverjum líkar bezt, er þá ekki greinilegt, að af því mundi leiða, að héraðslæknirinn mundi hafa sáralitlum störfum að gegna? Það er að vísu rétt, sem hv. 7. landsk. þm. sagði, að hér í Reykjavík er sérstakur borgarlæknir, sem fyrst og fremst annast heilbrigðis- og eftirlitsstörf, en ekki venjuleg læknisstörf. En ég minnist þess frá þeim tíma. er ég var borgarstjóri hér í Reykjavík og verið var að stofnsetja embætti borgarlæknis, að það var einmitt mjög illa séð af heilbrigðisstjórninni, að það embætti væri sett á stofn. Þá taldi heilbrigðisstjórnin, að það væri alveg nóg að hafa sérstakan héraðslækni. Það mundi vera allsendis óþarft að hafa tvo slíka lækna til að annast ýmiss konar heilbrigðiseftirlit. Í Reykjavík voru þó þá í kringum 50 þús. manns, — nú kringum 60 þús., — og það fékkst samþykkt, aðallega fyrir forgöngu heilbrigðisstjórnarinnar, að embætti borgarlæknis og héraðslæknis var sameinað, eftir að hinn ágæti maður, Magnús Pétursson, lét af héraðslæknisstörfum, og nú starfar borgarlæknir einn, ásamt að því er ég hygg aðeins einum aðstoðarlækni og einhverju af eftirlitsmönnum og skrifstofufólki. En með þetta er hægt að komast af í þessum víðlenda bæ, sem er þó með upp undir 60 þús. manns, ýmist búsetta hér eða dveljandi meginhluta ársins. Það eru þó ekki nema fáar þúsundir, ef það skiptir þúsundum, sem í Kópavogi eru, þannig að ég efast mjög um, að sérstakur heilbrigðiseftirlitslæknir, sem starfi þar fyrir utan 70 sjúkrasamlagslækna, sem teygja þangað sínar klær héðan úr Reykjavík, gæti haft nóg að starfa, þannig að menn mundu lenda í vandræðum með það embætti, áður en langt um liði. En eins og ég segi, þá er ég ekki þessu kunnugur, og það kunna að vera fleiri viðhorf í málinu, sem verður að íhuga, en ég vildi benda á þetta til styrktar því, að það er rétt að samþ. hina rökstuddu dagskrá, af því að mér sýnist það augljóst, að af öllum þeim læknisembættum, sem hér er verið að tala um að bæta við, þá sé þó einna ríkust ástæðan til að setja héraðslækni í Kópavog, því að þar er langflest fólkið.