02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2963)

187. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er alls ekki flutt að tilefnislausu. Til þess er fullt tilefni. Að því leyti er ég fullkomlega samþykkur flm. og frsm. meiri hl. fjhn. Rekstur ríkisins hefur á síðustu árum færzt mjög í aukana. Talið er, að nálega ¼ hluti af þjóðartekjunum leggi leið sína í gegnum ríkissjóðinn. Fyrirtækjum ríkisins hefur fjölgað mjög og þau þanizt út. Þetta hlýtur að valda ráðdeildarsömum þegnum þjóðfélagsins áhyggjum. Menn spyrja, hvernig verði við komið skynsamlegu og öruggu eftirliti á þjóðarbúinu, og menn svara á ýmsa vegu. Hv. þm. Barð. stingur með frv. þessu upp á, að sú fjvn., sem fyrsta Alþ. eftir reglulegar kosningar kýs, kjósi á 2. fundi sínum eftirlitsmann með rekstri ríkisins og stofnana þess. Kosning hans gildi kjörtímabilið og í raun og veru 6 mánuði í viðbót. Hann hafi skrifstofustjóralaun, skrifstofu og starfslið, eftir því sem þurfa þykir, og starfi sem fulltrúi fjvn. og Alþ.

Við hv. 1. þm. Eyf. gátum ekki fallizt á það í fjhn. að mæla með samþykkt þessa frv., eins og það liggur fyrir, á þessu þingi. Við höfum gert grein fyrir ástæðum okkar fyrir því í minnihlutaáliti á þskj. 680. Við viðurkennum þörfina fyrir aukið eftirlit, en teljum ekki rétt að fara svo geyst að stofna að ekki betur athuguðu máli dýrt embætti með skrifstofuhaldi og þjónustuliði. Við teljum rétt, að athugað sé, áður en til þess komi, hvort ekki eru til ódýrari ráð. Nóg virðist orðið til af embættum í landinu og yfirdrifið margir menn meðal þjóðarinnar, sem stunda skrifstofustörf. Við bendum á, að til athugunar sé, hvort ekki væri rétt að færa út verksvið yfirskoðunarmanna þeirra, sem Alþ. kýs til þess að endurskoða reikninga ríkisins og stofnana þess. Þeir hafa haslað sér furðulega þröngt starfssvið. Í þeirra starfi horfir eftirlit mjög vel við. Ég sé líka á bréfi því frá aðalendurskoðanda ríkisins, sem prentað er með áliti meiri hl., að aðalendurskoðandinn álitur heppilegt, að eftirlitsmaðurinn sé úr hópi yfirskoðunarmannanna. Við bendum einnig á það, að rétt geti verið að auka eftirlitsstörf endurskoðunardeildarinnar, og síðan við skiluðum áliti okkar, hef ég fengið upplýsingar um, að aðalendurskoðanda ríkisins, hr. Einari Bjarnasyni, hefur beinlínis verið falið að hafa umsjón og eftirlit með rekstrarkostnaði embætta, stofnana eða fyrirtækja, sem tekin eru á fjárlög. Hæstv. núv. menntmrh. var fjmrh. um áramótin 1949–50, og í febrúar, nánar til tekið 28. febr. 1950, gaf hann út erindisbréf til aðalendurskoðandans, hr. Einars Bjarnasonar, og það erindisbréf er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Yður er hér með falið, hr. aðalendurskoðandi, að hafa umsjón og eftirlit með rekstrarkostnaði embætta, stofnana eða fyrirtækja, sem tekin eru í fjárlög eða standa beint undir stjórn einhvers ráðuneytisins. Um framkvæmd starfsins skal þetta tekið fram:

1) Komið skal upp fullkominni spjaldskrá yfir rekstrarkostnað viðkomandi aðila 31. des. 1949 og síðan sé skráin endurnýjuð og leiðrétt um áramót eða oftar, ef þörf krefur.

2) Sá maður, sem valinn verður til eftirlitsins, skal sjálfur kynna sér einstök atriði rekstrarins, svo sem starfsaðferðir, vinnutíma, afköst starfsmanna. fjarvistir, hvort þörf er allra starfsmanna o. s. frv. Enn fremur um húsnæði, aukavinnu, bifreiðakostnað og ýmsan annan kostnað.

3) Eftirlitið á að ná til allra kostnaðarliða og alls þess, sem áhrif hefur á kostnaðinn. Er í því efni bent á nauðsyn þess, að allar stærri stofnanir hafi vinnuklukku, er sýni, hversu reglulega starfsmenn komi til vinnu. Er til þess ætlazt, að eftirlitið nái einnig til þessa og að fylgzt sé með því, hvernig vinnubrögðin eru að þessu leyti.

4) Verði eftirlitið þess vart, að embætti eða stofnanir auki starfsmannafjölda sinn eða rekstrarkostnað að öðru leyti án samþykkis fjmrn., ber strax að tilkynna það ráðh.

5) Eftirlitinu ber að gera till. til ráðh. um sparnað á rekstrarkostnaði, hvar sem því verður við komið að dómi eftirlitsins að vandlega athuguðu máli, og skal fylgja grg. tillögunum. Þess er óskað, að eftirlitið taki til starfa svo fljótt sem verða má.“ — Þetta er dags. 28. febr. 1950. Þá er eftirlitsmaður skipaður með framangreindu bréfi.

Eins og þetta bréf ber með sér, er því eftirlitið, sem hv. flm. frv. vill koma á, að nokkru leyti til í höndum aðalendurskoðandans og endurskoðunardeildarinnar. Ef þess hefur gætt of lítið, sem mér finnst nú satt að segja vera, þá virðist liggja beint við að herða þar á reipunum, bæta benzíni á vélina. Og víst er, að það er alls ekki rétt að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir, fyrr en eftir athugun á þessu. Ekkert vit er í því að hlaða embætti ofan á embætti eða negla embætti við embætti.

Við minnihluta mennirnir bendum enn fremur á, að þótt fjvn. kysi ekki úr sinum hópi slíkan fulltrúa sem frv. gerir ráð fyrir, fastan og dýran mann, sem hefði skrifstofuhald, gæti verið æskilegt, að hún tæki þótt í eftirliti því, sem öllum kemur sennilega saman um að efla beri, og gerði það með því t. d. að hafa starfandi fulltrúa úr sínum hópi milli þinga við og við til þess að rannsaka fjárhagsmálefni og gera tillögur um úrbætur. Þörfin fyrir slíkt þarf ekki að vera viðvarandi. Hún er vitanlega mest eftir útþenslutímabil eins og það, sem nú hefur verið um skeið.

Við teljum augljóst, að þótt frv. þetta sé um mikilsvert mál, þá eigi ekki að samþ. það nú og sé varla greiði gerður að reyna að ýta því lengra í gegnum þingið og láta það daga þar uppi, heldur vísa því til ríkisstj. til meiri og betri athugunar, en hægt er að koma við hér eftir á þessu þingi og með þeim fyrirmælum, að ríkisstj. skuli undirbúa málið fyrir næsta Alþ., eins og dagskrártill. okkar hljóðar um. Í bréfum þeim, sem meiri hl. lætur fylgja áliti sínu, kemur glöggt fram, að bréfritararnir mæla með stefnu frv., en ekki með frv. eins og það er. Yfirskoðunarmennirnir segja: „Við álítum, að aukið eftirlit mundi gagnlegt, ef til slíkra starfa veist heppilegur maður, og teljum við, að heppilegra mundi, að tryggilegar væri búið um ráðningu hans en ákvæði 2. gr. frv. benda til.“ Aðalendurskoðandinn segir t. d.: „Maður, sem skipaður er til eftirlitsins, verður að mega treysta því, að hann fái að halda stöðu sinni, ef hann gegnir henni óaðfinnanlega. Að öðrum kosti er hæpið, að völ sé á hæfum manni í stöðuna. Því virðist óheppilegt það ákvæði frv., að eftirlitsmanninn skuli kjósa til eins kjörtímabils í einu. — Ekki verður séð, að þm. séu betur fallnir til þessa starfa en aðrir. Líklegra virðist að vænta megi betri árangurs af manni, sem ekki gefur sig opinberlega að stjórnmálum.“ Enn fremur segir aðalendurskoðandinn: „Tillögur sínar tel ég heppilegra að eftirlitsmaðurinn leggi fyrir ríkisstj. en fjvn., og yrðu þær þá ræddar á ráðherrafundi, en ríkisstj. tæki ákvörðun um framkvæmd þeirra. Virðist ástæðulaust að fela þingnefnd þennan þátt framkvæmdastjórnarinnar, eins og áður segir, enda situr sú nefnd ekki að störfum nema meðan Alþingi situr og hefur þá nægum störfum að sinna í þágu löggjafarinnar. — Ef gert er ráð fyrir því, að eftirlitsmaðurinn yrði kosinn á þann hátt, sem í frv. segir, virðist ekki óeðlilegt, að hann verði jafnframt einn af yfirskoðendum ríkisreikninganna, en jafnvel þótt hann yrði skipaður af ríkisstj. til eftirlitsstarfans, virðist að ýmsu leyti heppilegt, að hann yrði sjálfkjörinn einn af yfirskoðunarmönnunum. Það mundi styrkja aðstöðu hans gagnvart báðum aðilum, Alþ. og ríkisstj., og auðvelda samstarfið við þingnefndirnar, sem svo mjög ríður á.“ Mér skilst enn fremur, að báðir þeir hv. þm., sem skipa meiri hl. fjhn. og skila áliti með flm., muni hugsa sér að leggja fram brtt. við frv. Allt þetta ber að einum og sama brunni um það, að málið þarf miklu meiri athugunar. Þess vegna tel ég heppilegast að afgreiða það á þessu þingi með þeirri dagskrá, sem við minnihlutamennirnir leggjum til, með því að ráðstafanir verði gerðar til þess, að það verði rækilega undirbúið af ríkisstj. fyrir næsta Alþ. Ég tel málið eiga slíkan undirbúning skilið.