02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

187. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, þó að það sé í nýju formi, er gamall kunningi d. Það var búið hér að ræða mjög mikið og koma með ályktanir um málíð áður fyrr, — mig minnir 1949, — og með harðfylgi fékkst það þá fram í gegnum d. í nokkuð annarri mynd, en það er borið hér fram, en dagaði uppi — að mig minnir — í Nd. Ég tel yfirleitt mikla nauðsyn á því, að þetta starf eða embætti sé stofnað, en venjulega er það, þegar mikilvæg störf eru falin einni og sömu persónu, þá er nær allt komið undir því, að takist að velja þar réttan mann á réttan stað. Um þetta mái er það að segja, að heppnist að fá mann skýran, atorkusaman og laginn, hógværan að vissu marki, en þó ákveðinn, ef í hart skerst, þá tel ég, að hér sé mikill áfangi kominn með það vandamál, sem hefur verið hinn mikli starfsmannafjöldi og hvernig starfi hefur verið háttað í ýmsum stofnunum. En það er sennilegt, að slíkur maður verði vandfundinn og seint fenginn, sá maður, sem er gallalaus, hvort sem er við þetta starf eða ýmis önnur mikilsvarðandi störf. Ég taldi rétt og sjálfsagt að fylgja frv., jafnvel þó að kæmi fram till. um að afgr. málið með dagskrá. Ég segi fyrir mig, að ég er alveg með dagskránni út af fyrir sig, ef ekki er von um að þoka málinu lengra, en ég vil með samþykkt frv. sýna enn betur minn vilja og mína skoðun á því, hver nauðsyn sé að ýta þessu máli sem lengst fram. Og enginn skal skilja það þannig, þó að ég segi nei við rökstuddu dagskránni, að ég vilji ekki koma málinu sem lengst fram. Við, sem greiðum atkv. á móti rökstuddu dagskránni, viljum lengra fram með þetta frv. heldur en hinir, sem verða með dagskránni, að ég hygg.

Ég játa það, að því miður eru nokkur líkindi til þess, þar sem frv. þetta er svona seint fram komið, að það sé andvana fætt. En af því að ég var hv. flm. ekki alveg sammála um málið og ég veit ekki, hvort gefst kostur á því framar að láta sína skoðun í ljós um það, þá gat ég ekki sneitt hjá því að koma hér fram með brtt., eins og ég hafði líka boðað með fyrirvara, og þessar brtt., sem ég tel óþarft að vera mjög að þjarka um hér á þessum tíma, þar sem ef til vill kemur ekki til atkv. um þær einu sinni, eru yfirleitt fólgnar í því, að fjvn. hafi minna eða nær ekkert um að segja veitingu þessa starfs og ekki heldur um framkvæmd þess nema að litlu leyti, þar sem honum er ætlað samkv. mínum till. að vinna og starfa með n., er hún situr, en ekki undir n. Hann á ekki að ganga undir henni, hann á að koma þar sem jafn henni fyrir stjórnarinnar hönd (Gripið fram í: Fulltrúi hennar.) eftir mínum till. Hann er ekki fulltrúi hennar, heldur sjálfstæður, því að hann skal vera n. til aðstoðar um öll þau mál, er lúta að sparnaði í rekstri ríkisins og ríkisstofnana og sitja fundi n., þegar hún óskar þess. Það tel ég alveg rétt og sjálfsagt, að samvinna sé milli hv. n. og þessa manns. En ég gat ekki verið með því, að nokkurra manna n. velji alveg þennan mann, heldur taldi ég, að Alþ. Íslendinga ætti að gera það sjálft, og er ég þó í vafa um það, hvort ekki væri það ríkisstj. verk að velja þennan mann. Það getur komið til álita. En ég kaus hitt til þess að koma á móti hv. flm. og ýmsum nm. í þessu. Ég tel, að hann eigi að sitja allt kjörtímabilið, og er það kannske það skemmsta. Ég hefði heldur verið á því að hafa ákveðinn árafjölda og lengri, en kjörtímabilið væri, hvað sem liði alþingiskosningum, og vel mundi ég greiða atkvæði með því, að það væri til að mynda 6 ára starfstímabil, sem þessi maður hefur, enda þótt styttra kjörtímabil sé hjá Alþ., sem getur verið stundum 1–2 ár. Ég sem sagt álít heppilegra, að það sé ríkisstj. eða þá a. m. k. Alþ., sem hafi yfirráðin yfir þessum manni, en hann fari ekki að verða eins og nokkurs konar starfsmaður hjá fjvn., sem sum árin gerir ekki nema skjótast saman. Ég veit það, að hennar tilraunir, — og henni er nokkur vorkunn að ýmsu leyti, — til að verða hvekkur í hvers manns koppi eru náttúrlega gerðar í góðri meiningu og ætlunin er að rétta við það, sem hallast, en það eru ýmsar skoðanir um það, hvernig það hefur tekizt, og sem sagt hef ég mína skoðun um það fyrir mig sjálfan, og ég tel ekki ástæðu til þess að veita henni, þeirri ágætu n., sem hún kallar sjálfa sig, neitt alveldi í þessu máli.