03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

187. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það bréf, sem hv. frsm. mínni hl. las hér upp um daginn, þegar hann talaði gegn þessu frv., sem hér er til umræðu, held ég að sanni nú bezt þörfina fyrir því, að málunum sé skipað eins og ég legg til í mínu frv.

Mér þykir nú dálítið einkennilegt, að endurskoðunardeildin, sem fékk þetta mál til meðferðar, skyldi ekki minnast á þetta skjal í sinni umsögn, og því einkennilegra þykir mér, að endurskoðunardeildin skuli hafa leynt fjvn. því og einnig hæstv. ráðh., að fyrirskipað hafi verið slíkt eftirlit sem fram kemur í bréfi dags. 28. febr. 1950, því að mér er alveg ókunnugt um það, að sá eftirlitsmaður, sem raunverulega hefur verið fengið þetta verk, eða endurskoðunarskrifstofan hafi gert minnstu tilraun til þess að hafa nokkra samvinnu við fjvn. um þessi mál eða látið hana vita um það, að verið væri að vinna að þeim málum samkvæmt því bréfi, sem fyrir liggur hér. Ég verð að segja, að ákaflega hefur verið hljótt um þessa stofnun, sem fyrirskipuð hefur verið samkvæmt bréfi frá 28. febr. 1950, að hvorki alþm., fjvn.ríkisstj. eða nokkur embættismaður skuli hafa orðið þess var. Og ég held, að það sé ekki hægt að leggja fram öruggara gagn um, að svona á ekki að skipa málinu í framtíðinni, heldur en hv. frsm. minni hl. hefur gert hér með þessu skjali. Ég held, að það sé skýrasta sönnun þess, að rökstuddu dagskrána á ekki að samþykkja.

Ég verð að segja það, að ég virði mjög vel þá viðleitni, sem fram hefur komið hjá hæstv. viðkomandi ráðh. á sínum tíma, sem hefur skipað þessum málum þannig, sem hér hefur verið gert, en hins vegar harma ég það mjög, að núverandi hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa rekið meira á eftir þessum framkvæmdum, en gert hefur verið.

Hér er í 1. lið til þess ætlazt, að endurskoðunardeildin komi upp fullkominni spjaldskrá yfir rekstrarkostnað viðkomandi aðila frá 31. des. 1949 og síðan sé skráin endurnýjuð og leiðrétt um hver áramót eða oftar, ef þörf þykir. Ég vildi nú gjarnan spyrja þann hæstv. ráðh., sem hér er staddur nú, hvort þetta muni hafa verið gert og hversu langt sé komið þessum sérstaka hluta — eða hvort þetta hefur líka verið fullkomlega vanrækt eins og önnur fyrirmæli í þessu bréfi.

Þá segir hér einnig, að sá maður, sem valinn verður til eftirlitsins, skuli sjálfur kynna sér einstök atriði rekstrarins, svo sem starfsaðferðir, vinnutíma, afköst starfsmanna, fjarvistir, hvort þörf er allra starfsmanna o. s. frv. Enn fremur um húsnæði, aukavinnu, bifreiðakostnað og ýmsan annan kostnað. Síðan þessi fyrirmæli hafa verið gefin, hefur á hverju ári hér ýmist við afgreiðslu fjárlaga eða í umræðum um sérstök þingmál verið sí og æ fundið að því m. a., hversu eftirvinna hafi verið mikil, og nýlega birti ég hér skýrslur, sem höfðu legið fyrir fjvn., sem sönnuðu m. a., að í einu fyrirtæki er á þriðju millj. kr. varið til eftirvinnu, í mörgum öðrum fyrirtækjum hefur verið varið svo gífurlegum fjárhæðum til eftirvinnu, að það má segja. að það sé raunverulega hreint hneyksli, og það hafa verið lögð fullkomin sönnunargögn á borðið um það, að margir af þessum mönnum, sem þannig eru að afla sér aukagreiðslu úr ríkissjóði, hafa stórkostlega vanrækt sín störf, — og samt hefur fyrir nærri þremur árum verið gefið hér út stjórnarráðsbréf til ákveðinnar stofnunar, sem vinnur í sjálfu fjármálaráðuneytinu, og ákveðnum manni falið að gæta þess, að slíkur sé ekki reksturinn í stofnununum. Hvað er hér eiginlega á ferðinni? Hefur þessi maður þá aldrei verið valinn í eftirlitið? Og hefur þá endurskoðunardeildinni aldrei verið falið að vinna þessi störf? Ég verð að segja, að eftir þessum gögnum, sem fyrir liggja hér, þá verður maður að líta svoleiðis á, að henni hafi verið falið að gera það, því að m. a. segir aðalendurskoðandi, sem hefur átt að meðtaka þetta bréf hér, að það sé smátt og smátt verið að koma þessu í lag. En ég verð að segja, að það gengur ákaflega smátt og smátt, ef þetta er þriggja ára árangur, að engar umbætur sjást í neinni stofnun, nema síður sé, og að aldrei er minnzt á þessi mál við þá menn, sem samkvæmt þingskyldu sinni ber að athuga öll þessi gögn og gagnrýna þau og fá samkomulag um annan og betri og hagkvæmari rekstur.

Ég vil viðurkenna það, að það er engan veginn rétt að stofna það embætti, sem hér um ræðir, með slíkum árangri. Það vil ég viðurkenna bæði með hv. 1. landsk. og fleirum. Það er einmitt ástæðan fyrir því, að ég þekki þennan rekstur allan, þennan þunglamalega gang ákveðinna embættismanna, sem vita, að þeir geta setið í sinu embætti, hvernig sem það er leyst af hendi yfirleitt, á meðan þeir geta tuggið smjör, — ég þekki þetta ákaflega vel af minni reynslu hér í Alþingi, og það er þess vegna, sem ég vil ekki að einmitt þessu starfi sé þannig fyrir komið. Þetta starf á ekki að vera neinn atvinnuvegur fyrir viðkomandi aðila, sem í það verður settur, heldur á þetta að vera raunhæft starf, og það er þess vegna, sem ég hef óskað eftir, að það verði í beinu sambandi við fjvn. og við Alþ., svo að þar geti verið fullkomið samráð á milli frá ári til árs.

Hér segir enn fremur í 3. tölul. að eftirlitið eigi að ná til allra kostnaðarliða og alls þess, sem hefur áhrif á kostnaðinn. Er í því efni bent á nauðsyn þess, að allar stærri stofnanir hafi vinnuklukku, er sýni, hversu reglulega starfsmenn komi til vinnu. Er til þess ætlazt, að eftirlitið nái einnig til þeirra og fylgzt sé með því, hvernig vinnubrögðin eru af hendi leyst. Ég vildi nú mega spyrja: Hefur þessu sjálfsagða atriði verið skipað svo sem fyrir er mælt hér, eða er ekkert eftirlit með endurskoðunardeildinni, ekki einu sinni frá hæstv. ráðh., að hún geri þessi verk eins og hann hefur fyrirskipað? Ég hygg, að það væri ekki neitt þrekvirki, hvorki af ráðuneytinu né hæstv. ríkisstj., að komast að raun um það, hvort þessari fyrirskipun hafi verið hlýtt og þessi verk framkvæmd. Ég hygg, að a. m. k. á þeim stöðunum, þar sem langmest er eftirvinna, — og mæli það ekki að ófyrirsynju, — þar hafi þessari skipun ekki verið komið á. Þessi skipun var komin á í sumum stofnunum hér áður, m. a. landssímanum, og það hefur verið þar lengi slíkt áhald, en ég þori að fullyrða, að það er síður en svo, að því hafi verið komið á í öllum stofnunum ríkisins síðan þetta bréf var gefið út.

Þá er sagt hér, að verði eftirlitið þess vart, að embætti eða stofnanir auki starfsmannafjölda sinn eða rekstrarkostnað að öðru leyti án samþykkis fjmrn., beri strax að tilkynna það ráðherra. Ég vil nú spyrja: Hafa öll þau ágreiningsatriði, sem risið hafa upp á milli ráðuneytanna í sambandi við skipun embættismanna eða starfsliðs í stofnunum, verið borin undir þennan ágæta eftirlitsmann, sem skipaður hefur verið hér samkvæmt bréfi frá 28. febr. 1950? Hafa allir þeir mannahelmingar, sem vakið hafa ágreining hér í Alþ., sbr. ummæli hv. þm. Ísaf. á s. l. ári, þar sem hann ræddi mjög um eina þrjá eða fjóra helminga, sem hefðu verið settir inn í fjárlögin á því ári, — hafa þeir allir fengið jákvætt samþykki þessa endurskoðanda, sem hér um ræðir? Ég verð að halda það af þeirri reynslu, sem ég hef af þessum málum, að ekkert af þeim deiluatriðum, sem send hafa verið til fjvn. í sambandi við mannfjölgun, hafi gengið í gegnum þennan hreinsunareld, og ég vil benda á, að allt fram að síðasta degi hefur verið sótt mjög á til fjvn. frá ýmsum stofnunum í landinu, m. a. frá landssímanum og ýmsum öðrum stofnunum, um að fá flutt mikinn fjölda af starfsmönnum á milli flokka vegna þess kapphlaups, sem er um það að fá hærri laun og minni vinnutíma, en fjvn. vísaði öllu slíku frá sér sem eðlilegt er. Mér þætti mjög fróðlegt að vita, hvaða afstöðu aðalendurskoðandinn hefur til þessara mála. A. m. k. hafa ekki komið frá honum nein gögn, hvorki neikvæð né jákvæð, til fjvn. um þessi mál.

Og svo stendur hér: „Eftirlitinu ber að gera till. til ráðh. um sparnað á rekstrarkostnaði, hvar sem því verður við komið að dómi eftirlitsins að vandlega athuguðu máli, og skal fylgja grg. tillögunum.“ Hafa þessar till. komið, og hafa þær þá verið stöðvaðar hjá hæstv. ráðherrum, því að til Alþ. hafa þær ekki komið? Mér er ekki kunnugt um, að síðan 28. febr. 1950 hafi ein einasta till. komið til fjvn. eða Alþ. um sparnað í rekstri ríkisins, þrátt fyrir það að hér hefur verið fyrirskipað, að þessi stofnun skuli taka að sér þetta verk. Þá hefur annaðhvort valizt í þetta gersamlega óhæfur maður, sem ég vil nú ekki viðurkenna, því að ég þekki persónulega einmitt þann mann, sem er aðalendurskoðandi hér og hefur forustu fyrir stofnuninni, og ég á ákaflega bágt með að trúa því, að hann hafi vanrækt svo gífurlega það verk, sem honum hefur verið hér falið, nema því aðeins að það hafi skeð, sem mér þykir miklu líklegra, að þessari fyrirskipun, sem hér um ræðir, hafi verið kippt til baka af annarri yngri fyrirskipun, og þætti mér mjög mikils vert, að það yrði upplýst. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að jafnprýðilegur maður og aðalendurskoðandi ríkisins hafi látið undir höfuð leggjast að gera þær framkvæmdir, sem hér eru lagðar fyrir hann með bréfi 28. febr. 1950. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á og læt segja mér það oftar en einu sinni að hann hafi brugðizt svo trausti þjóðarinnar og sinna yfirmanna, að hann hafi gersamlega látið vera með að framkvæma nokkuð af því. En þá væri ákaflega fróðlegt að fá upplýst, hver er ástæðan fyrir því, að þetta hefur ekki verið framkvæmt. Er það fyrirskipun frá hæstv. fjmrh., sem stofnunin liggur undir? Ég vildi nú vænta þess, að hv. frsm. minni hl., sem leggur til, að málinu sé vísað frá, upplýsi það, úr því að hann gerði okkur öllum þann greiða að grafa upp þetta bréf, sem enginn okkar víssi að væri til og ég er honum mjög þakklátur fyrir. Og mig furðar náttúrlega ekkert á því, þó að aðalendurskoðandinn skyldi ekki senda n. bréfið eða afrit af því, því að það er hrópandi ásökun á stofnunina í sambandi við þetta mál, sem ekki verður undir neinum kringumstæðum hreinsuð af stofnuninni, nema fram komi yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um það. að hún sé sammála um að láta ekki verkin vera framkvæmd eins og hér um ræðir. Allt þetta sannar það, að ekki má samþykkja hina rökstuddu dagskrá, því að sé það það raunverulega í þessu máli, að hæstv. núverandi ríkisstj. hafi stöðvað eftirlitið, sem að áliti þáverandi hæstv. ráðh. var svo nauðsynlegt sem hér kemur fram í þessu bréfi, þá má ekki undir neinum kringumstæðum vísa þessu máli með rökstuddri dagskrá til þeirrar sömu ríkisstj. Það er fullviðurkennt hér skjallega, að þörfin sé knýjandi, og það er alveg sýnilegt, að viðkomandi hæstv. ráðh. hefur sett sig mjög inn í þessi mál á þeim tíma, sem hann skrifar þetta bréf, og ég er alveg viss um, að 90% af íslenzku þjóðinni er honum sammála um, að svona þarf einmitt að taka á þessum málum. En hver er þá ástæðan fyrir, að þetta hefur ekki verið gert? Er það hræðsla við það, að það geti komið fyrir, að einhverjum væri ýtt úr óþörfu starfi? Er það það, sem hefur ráðið hér gangi málanna? Eða er það eitthvert annað vald, sem hefur stöðvað þetta sjálfsagða eftirlit? Og ef það er svo, þá endurtek ég einmitt það, að það er alveg nauðsynlegt, að það séu ekki hinar ráðandi ríkisstj., sem ráði yfir þessum málum, heldur Alþ. sjálft. Það styrkir mig í þeirri skoðun, sem ég hafði áður, að fjvn. á hverjum tíma á að velja þennan mann, — engir aðrir aðilar. Það er ekki verið að taka valdið af Alþ. fyrir því. Hitt er svo annað mál, að fjvn. er þar í nánum tengslum við bæði alla hv. alþm. og við flokkana, og að sjálfsögðu yrði aldrei í þetta valinn maður, sem meiri hl. alþm. væri ekki sammála um, þó að n. væri falið að gera það, en það er miklu eðlilegra, að hún ráði fram úr þeim málum og beri ábyrgð á þeim, heldur en að hann sé kosinn af öllu þinginu.

Ég mun ekki gera það að neinu deiluatriði, þó að frv. yrði við 3. umr. breytt í heimildarlög, eins og hv. 1. landsk. þm. hefur stungið upp á. Ég get vel fellt mig við það, því að ég er þess alveg víss, að ef væri gefin sú heimild, sem rætt er hér um, þá mundi engin fjvn. taka á sig þá ábyrgð að nota hana ekki. Það er ég hárviss um. Ég þekki ákaflega vel eftir 8 ára starf í fjvn., hversu það hefur verið nauðsynlegt að haga þar þannig störfum, að einhver hugmynd fengist um, hvernig þessar stofnanir eru reknar, og ég þekki ákaflega vel, hvaða erfiðleika fjvn. hefur haft við að fá viðkomandi forstjóra hinna margvíslegu stofnana til þess að skilja, að það hefur ekki verið til að gagnrýna þeirra gerðir eða nein árás á þeirra gerðir, þó að fjvn. hafi viljað fá upplýsingar um starfræksluna, fundið að því, sem nauðsynlegt var og þurfti að finna að, og óskaði eftir fullkomnu samkomulagi og samstarfi við þessa aðila, sem ávallt og ævinlega hefur brugðizt, af því að þeir vita, að fjvn. sjálf hefur ekkert framkvæmdavald. Þetta veit nú hv. frsm. minni hl. eins vel og ég. Hann hefur sjálfur margviðurkennt í n., að þótt þetta starf sé engan veginn skemmtilegt starf, þá sé það nauðsynlegt og það hafi tvímælalaust markað nokkra stefnu, það hafi verið spyrnt við fótum. En honum er eins kunnugt um það og mér, að árangurinn hefur því miður ekki orðið sem skyldi, og það er beinlínis vegna þess, að þegar þessir menn eru komnir úr fjvn.-herberginu, þá skjóta þeir sér undir valdaleysi fjvn. annars vegar og viljaleysi ríkisstj. á hverjum tíma til þess að koma í framkvæmd þeim till., sem fjvn. á hverju ári ber fram og óskar að séu framkvæmdar í sambandi við breyt. í starfrækslu ríkisins.

Ég held, að þjóðin hafi ekki lokuð augun fyrir þeirri stefnu í þessum málum, sem augsýnileg er, því að það er alveg sjáanlegt, að ef ekki er breytt hér um og tekin önnur og betri stefna. þá hefur þetta Alþ. ekkert annað að gera hér í náinni framtíð, heldur en að leggja skatta á þegnana til þess að geta staðið undir sívaxandi kostnaði við ríkisreksturinn með síminnkandi vinnu og afköstum hjá embættismönnum þjóðarinnar. Og þá er það orðið aumt hlutskipti Alþ., ef það hefur ekki nema þetta tvennt að starfa hér, annars vegar að leggja þunga skatta á þjóðina, einstaklinga og atvinnuvegi, og hins vegar að taka og skipta þessu fé á milli þeirra manna, sem slá æ sterkari varnargirðingu um sína hagsmuni, eins og er sýnilegt, að hér er verið að gera.

Ég vildi því vænta þess, að frv. yrði samþ. og þó að nokkuð sé liðið á þingtímann, þá fái það svo mikið fylgi hér, að það nái fram að ganga, því að það er áreiðanlega mikil þörf á því, að þessum málum sé skipað á annan hátt en nú er gert.