04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

33. mál, áfengislög

Frsm. 1. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég tel, eins og ég segi í mínu nál., að ástandið í áfengismálunum sé þannig nú hér á landi, að það sé full þörf á því að fá þau afgreidd. Þess vegna hef ég lagt til, að þetta frv. verði samþykkt, en þó með allvíðtækum breyt. Ég skal drepa á nokkrar af brtt., sem ég legg til að samþ. verði við frv.

Ég legg þá fyrst til, að 1. gr. verði orðuð um. Ég álít það áhæfu, ef Alþ. samþykkti nú árið 1952, að tilgangurinn með þessum lögum væri sá að stuðla að hóflegri meðferð áfengis. Hver ákveður, hvað er hófleg meðferð áfengis? Er það hófleg meðferð áfengis, þegar embættismaður er meira og minna drukkinn við sína vinnu og kannske svo mikið, að það varðar stöðumissi? Og er það ekki yfirleitt viðurkennt, að tiltölulega lítil áfengisnautn geri menn a. m. k. verr starfhæfa, að hverju sem unnið er, heldur en ella? Er það ekki viðurkennt gagnvart flugmönnum? Er það ekki viðurkennt gagnvart bílstjórum? Er það ekki viðurkennt gagnvart skipstjórum? Og gildir það þá ekki líka um aðrar stöður, hverjar sem þær eru? Á þá að fara að stuðla að því á Alþingi að búa til lög, sem kenni mönnum hóflega meðferð áfengis? Og hvað á að vera hófleg meðferð áfengis? — Ég legg þess vegna til, að þessi grein sé orðuð um og hún sé orðuð þannig, að tilgangur laga þessara sé að vinna gegn áfengisneyzlu í landinu og því böli, sem af henni leiðir.

Þá legg ég til, að fellt sé aftan af 3. gr. það ákvæði, að öl, sem í er lítið áfengi, sé undanþegið. Ég vil láta banna innflutning á öllu öli til landsins.

Við 4. gr. eru líka nokkrar brtt. Þær ganga yfirleitt í þá átt í fyrsta lagi að láta áfengi, sem kemur með flugvélum, heyra undir sams konar ákvæði eins og áfengi, sem kemur með skipum, að það þurfi að gera skoðun á því áfengi eins og á hinu og gera sams konar ráðstafanir viðvíkjandi því, en það er hvergi gert ráð fyrir, að áfengi komi með þeim. Í öðru lagi er brtt. um það, að íslenzk skip, meðan þau eru hér við land, hafi engan sérstakan áfengisforða til daglegrar neyzlu sinna skipverja. Ég vil taka þau ákvæði burt úr greininni, og þá fara líka burt flöskurnar tvær, sem skipverjarnir nú fá að taka í land sem daglegan forða til neyzlu í landi, mega ekki einu sinni vera óinnsiglaðar í skipinu, meðan það er hér við land, eins og nú er. Enn fremur felli ég þarna niður part af greininni, sem mér finnst ekki hafa neina þýðingu, þ. e. 5. málsgr. greinarinnar. Hins vegar finnst mér eðlilegt, að þessi ákvæði verði ekki látin ná til herskipa, eins og nú er í greininni, og erlendra skemmtiferðaskipa. Það er nú farið að útbúa ýmis íslenzk skip sem skemmtiferðaskip, bæði af Eimskip og Ríkisskip, og til þeirra vil ég láta ákvæðið ná. Það eru innlend skip og á þeim venjulega innlendir menn, sem við getum fyrirskipað alveg eins og okkar eigin þegnum, og ef það eru útlendir menn, sem nota þau, þá verða þeir að hlýða sömu reglum og landsmenn yfirleitt.

Þá er brtt. við 7. gr. Það er ætlazt til þess, að ríkisstj. geti látið Áfengisverzlunina brugga öl. Ég tel, að það sé réttara að bæta þarna inn í „eða öðrum aðila“. Ég er ekki viss um, hvort það er rétt, eins og landið liggur, þar sem til eru í landinu aðilar, sem hafa tæki til ölbruggunar, að ríkið fari að leggja í þann kostnað að koma slíkri stofnun upp og láta Áfengisverzlunina reka hana. Ég vil að minnsta kosti láta vera opinn möguleika fyrir, að það sé hægt að láta annan brugga það heldur en Áfengisverzlunina, og ég vil enn fremur bæta inn í greinina, að það megi flytja það öl út. Það eru nokkrar líkur fyrir því, að ef við brugguðum hér sterkt öl, eins og nú er gert og ætlazt er til í greininni að sé gert áfram fyrir varnarliðið, sem svo er kallað, hér á landi, þá eru nokkrar líkur til þess, að fá megi fyrir það markað erlendis, og ég vil ekki útiloka, að sá markaður sé notaður. Mér sýnist ekki gjaldeyrisástandið vera það ljóst fram undan, að veiti af, ef þarna væri til einhver möguleiki til gjaldeyrisöflunar, sem ekki er útilokað. Þess vegna vil ég setja inn í lögin möguleika til þess, að það sé hægt.

Þá tel ég, að yfirleitt allar sektir samkvæmt lögunum og önnur gjöld, sem eftir þeim koma, eigi ekki að renna í menningarsjóð, hann hefur sína bókaútgáfu, og nægi það ekki, verður að ætla honum fé á fjárlögum. Ég tel, að það sé rétt, að það renni í áfengisvarnasjóð. Eins og hagur ríkissjóðs er, þá veitir honum ekki af sínu, og kostnaður við framkvæmd þessara laga verður þó nokkur, hvernig sem með verður farið. Þá tel ég eðlilegt, að sektirnar standi þar undir og að þær renni í áfengisvarnasjóð, en ekki í menningarsjóð, elns og þær hafa gert. Þetta kemur viðar fram, og þarf ég þá ekki um það að tala nema á þessum eina stað.

Þá er það viðvíkjandi 9. gr., sem ég geri brtt. Þar ætlast ég til þess, að áfengi frá útsölum Áfengisverzlunarinnar sé selt öllum með sama verði, hvort sem þeir heita ráðherrar, forsetar eða eitthvað annað, — það sé selt öllum með sama verði, en ekki mismunandi verði eða veittur afsláttur af því, eins og nú er, — allir sitji þar við sama borð.

Þá legg ég til, að 2. tölul. 11. gr. falli niður, en hann gerir ráð fyrir því, að til séu veitingastaðir, sem hafi áfengi til sölu. Ég ætlast til, að þeir séu engir, og það kemur fram víðar í mínum brtt. og m. a. þessari, þar sem gert er ráð fyrir, að veitingastaðir hafi ekki rétt til veitingar áfengra drykkja, þó að þeir eigi að notast á staðnum sjálfum. Um leið og ég felli niður þessa veitingastaði alla með tölu, þá náttúrlega fellur 2. tölul. 11. gr. niður.

12. gr. gerir ráð fyrir þessum leyfum og veitingum þeirra og ákveður, hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar, svo að rétt sé að veita slík leyfi til almennra gistihúsa og veitingastaða. Ég legg til, að hún verði felld niður og engin slík almenn útsala sé neins staðar, hvorki á einum stað né öðrum í Reykjavík né annars staðar.

Þá geri ég ráð fyrir því í brtt. við 13. gr., að Áfengisverzlunin selji einungis gegn staðgreiðslu til allra nema lyfsala, sem heimilast að selja vínanda til líkt og nú er.

10. brtt., við 14. gr., er bein afleiðing af því, sem áður er komið. Sama má segja um 11. brtt., sem er við 15. gr., og enn sama um 12. brtt., sem er við 18. gr. Þetta er allt saman afleiðinn af því, að ég legg til, að ekki sé farið út í það að leyfa veitingahúsum að selja vín, en til þess ætlast frumvarpið.

20. gr. orða ég um, og þar geri ég ráð fyrir því, að hægt sé að veita félögum og samsætum, sem haldin eru í einhverju sérstöku skyni, vínveitingaleyfi handa félagsmönnum og þeirra gestum. Það er eins og tíðkazt hefur áður, og ég geri ráð fyrir, að það haldist, þ. e. a. s. haldist eins og ætlazt er til í lögum og reglugerðum, ekki eins og það hefur verið framkvæmt. Eins og hefur verið ákvæði um það, að ekki eigi að veita slík leyfi, þegar það sé gert í ágóðaskyni fyrir einhvern sérstakan aðila, þá sé það áfram í gildi, að slík leyfi eigi ekki að veita. Það sé einungis, ef það eigi að fara að minnast einhvers sérstaks afmælis eða einhvers sérstaks, sem leyft sé að hafa vín. Þó er það satt að segja hálfgert með samvizkunnar mótmælum, að ég legg þetta til. En það er nú til að koma til móts við mennina, sem ekki telja sig geta, nema þeir séu orðnir góðglaðir af víni, hlegið eða sýnt bros á sinu andliti.

Ákvæðin, sem hér fara á eftir, undir 14.–20. tölulið, eru raunar allt saman ákvæði sem leiðir af þeim brtt., sem ég er búinn að nefna, — leiðir af því, að ég ætlast ekki til, að veitingahúsum séu veitt vínleyfi, að ég ætlast til, að það sé útilokaður sá möguleiki, að vín geti komið með flugvélum, ætlast til, að stuðlað sé að því, að lögin vinni gegn áfenginu, en ekki að hóflegri neyzlu þess, og ætlast til, að ekki sé lokaður sá möguleiki, að við getum haft gagn af ölframleiðslu til útflutnings, ef spilin leggjast þannig, að það verði möguleikar á því.

Loks flyt ég brtt., 14. brtt., við 25. gr., sem er um nokkuð annað. Mér er sagt, að það sé dálitlum vandkvæðum bundið að fá gerða rannsókn á mönnum, sem álitið er að séu undir áhrifum víns, t. d. við bílakstur eða flugvélastjórn eða annað þess háttar. Ég vil þess vegna skylda viðkomandi til að fara þá undir rannsókn, hvort sem hann vill eða vill ekki, ef dómarinn telur, að það sé nauðsynlegt til að fá skorið úr því, hvort hann er undir áhrifum víns eða ekki.

Þetta eru helztu breyt., sem ég legg til. Þær byggjast á þeirri skoðun minni, að úr því að ekki liggur fyrir, að hægt sé að vera alveg laus við áfengið, sem ég vildi helzt, með algeru aðflutningsbanni, þá eigum við að setja eins miklar tálmanir í götu manna til að gera sig viti sínu fjær að meira eða minna leyti af áfengisneyzlu eins og hægt er. Þess vegna eigum við ekki að ausa því út í veitingahúsin, til þess að þau veiti því aftur frá sér, og ekki að hafa útsölur nema þar, sem meiri hluti mannanna í viðkomandi stöðum vill og óskar eftir því.

Ég legg til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., en skal geta þess, að verði þær samþ. við 2. umr., þá mun ég þurfa fyrir 3. umr. að athuga nánar breyt., sérstaklega viðvíkjandi sektarákvæðunum, sem nú eru í frv. Ég nennti ekki að vera að leggja vinnu í það að pæla þar í gegn, áður en ég sé, hvaða undirtektir tillögur mínar fá. Er nægur tími til að gera það milli 2. og 3. umr., ef sú stefna, sem fram kemur í brtt. hjá mér, verður ofan á og verður samþ. í deildinni.