05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

33. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það leikur ekki á tveim tungum, að ástandið í áfengismálunum hér á landi er engan veginn eins og bezt væri á kosið og í engu samræmi við þá menningu, sem þjóðin hefur tileinkað sér á öðrum sviðum. Því er að vísu haldið fram, að einstaklingur hér drekki minna magn af vínanda árlega en einstaklingar annarra þjóða, miðað við það, að heildarmagninu, sem drukkið er, sé deilt jafnt niður á alla íbúana, unga sem gamla, og það sé þó nokkur vísbending um það, að þjóðin sé ekki drykkfelldari, en aðrar þjóðir, nema síður sé. En sé þetta staðreynd, þá er hitt þó jafnvíst, að engin þjóð fer eins illa með þann skammt, sem drukkinn er, eins og Íslendingar, því að það er öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að hvergi annars staðar ber eins mikið á ofdrykkju og hér á landi, að of margir menn verða hér vesalingar fyrir ofnautn áfengis, að margir menn verja of miklu af rýrum tekjum sínum til áfengiskaupa og að allt of mikið af siðleysi og hrjúfu framferði fylgir vínnautninni, að ógleymdum lögbrotum, yfirsjónum og beinum glæpum, er rót sína eiga að rekja til vínnautnar.

Ölæði einstakra manna — oft og tíðum aðeins örfárra manna, sem ekki kunna sér hóf í vínnautn, setur mark sitt og svip á samkomur utan húss og innan, á umferð í bæjum og borgum, á ferðalög með skipum, bílum eða hvers konar farartækjum og oft á þann hátt, að bæði er að því leiðindi og vansi, jafnvel þótt ekki stafi meiri erfiðleikar af. Algengt er, að slíkur skortur á siðfágun í almennri umgengni komi fram í meira eða minna ríkum mæli við alls konar tækifæri, bæði hjá lærðum sem ólærðum, háum sem lágum. Og til eru menn, sem álíta það engan löst í fari sínu, — það vekur í hæsta lagi meðaumkun, en aldrei fyrirlitningu, — og enginn maður, hversu hátt settur sem hann er í þjóðfélaginu, missir snefil af virðingu sinni eða völdum fyrir skort á háttvísi eða framið siðleysi undir áhrifum víns, þótt hann ætti sér aldrei uppreisnar von, ef hann fremdi sams konar verknað ódrukkinn. Að vísu skal maður sæta refsingu samkv. lögum, ef hann gegnir embætti eða starfi ölvaður, einkum ef slys hlýzt af. En virðingu sinni heldur hann óskertri eftir sem áður, enda getur enginn dómstóll dæmt hana af mönnum annar, en almenningsálitið. Og þó kann verknaður, sem hann fremur undir áhrifum víns í starfstíma og bakar honum sekt, að valda þjóðinni miklu minna tjóni en hinn, sem framinn er í veizlusölum eða á öðrum mótum utan starfstíma og lagafyrirmæli ná ekki yfir. Um þessar staðreyndir er raunverulega enginn ágreiningur.

Menn líta svo á, að með breyttri áfengislöggjöf mætti bæta úr því, sem miður fer í fari manna, sem vínsins neyta, annaðhvort með því að hafa áhrif á það magn, sem drukkið er í landinu, eða beinlínis með því að skapa aðra og betri meðferð áfengis, eða með hvoru tveggja. Kemur þetta berlega fram hjá þeim aðilum, sem lagt hafa til, að lögin yrðu endurskoðuð, eins og nú skal greina.

1. Í þáltill. um endurskoðun löggjafarinnar, sem flutt var á þingi 1950, segir, að hún sé flutt í þeim tilgangi að stuðla að hóflegri og skynsamlegri meðferð áfengra drykkja.

2. Nefndin, sem hafði málið til meðferðar í þinginu, er sammála um, að löggjöfina þurfi að endurskoða og þá vitanlega með það markmið fyrir augum að fá tryggt í l., að misnotkun áfengis geti minnkað, en ekki vaxið. Hæstv. dómsmrh. tekur það fram, að löggjöfina verði að endurskoða, svo að skynsamleg og hófleg notkun áfengis geti átt sér stað. Vill hann láta þá skipun verða á þessum málum, að drykkjuskapur geti minnkað og orðið sem hneykslisminnstur.

Nefndinni er ljóst af þessum ummælum, hvert átt hefði að vera markmið þeirrar endurskoðunar á áfengislöggjöfinni, sem henni var falið. Þykir því rétt að gera sér grein fyrir því, hvort þessu höfuðtakmarki er náð með því að samþ. óbreytt frv. það, sem hér er til umr., eða hvort nauðsynlegt þykir að gera á því einhverjar breytingar, og þá hverjar þær skuli vera.

Það vekur strax athygli, að í ummælum þeim, sem ég hef lýst hér og n. hefur að leiðarvísi við sín störf, þar sem henni voru engar reglur settar, hvernig þeim skyldi hagað, koma hvergi fram óskir um það eða fyrirmæli, að l. skuli endurskoðuð með það fyrir augum að takmarka neyzlu áfengra drykkja í landinu. Og þegar till. er borin fram um það í n. að setja beint inn í l., að tilgangur þeirra sé sá að stuðla að því, að meðferð áfengis verði með þeim hætti, að neyzla þess verði takmörkuð sem mest má verða, þá er sú till. felld af 4 nm. gegn atkv. tillögumanns. Hins vegar er sett inn í 1. gr. frv., að tilgangur l. sé að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess, allt eins og frómar óskir komu fram um í fyrrnefndum ummælum um málið. Ummæli um þessa grein í 5. kafla grg. benda þó ótvírætt til þess, að skoða beri þetta atriði aðeins sem lögskýringar atriði. Verður ekki annað séð en að meiri hl. n. hafi frá upphafi verið því gersamlega andvígur að miða endurskoðun l. einmitt við það að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess, eins og var þó beinlínis tilætlunin með endurskoðuninni. Ef n. hefði raunverulega gert sér það ljóst, að henni bar að vinna að endurskoðun með það eitt sem höfuðsjónarmið, hefði hún ekki einasta sleppt þeirri athugasemd, sem hún lætur fylgja við 1. gr., heldur og orðað greinina þannig, að enginn vafi væri um tilgang l., og miðað síðan aðrar greinar frv. við það, að þeim tilgangi yrði náð, svo framarlega sem fyrirmæli l. væru ekki sniðgengin. En það er langt frá því, að þessi stefna sé mörkuð með því frv., sem hér er til umr.

Baráttan í áfengismálunum hefur staðið um aldir, og hún á sjálfsagt enn eftir að standa um aldir. Er alveg nauðsynlegt að gera sér þetta ljóst. Ekki einasta hér á landi, heldur um allan heim skiptast menn í tvo meginflokka í baráttunni um þetta mál. Annar flokkurinn vill takmarka eða útiloka alveg allt áfengisböl með því að takmarka sölu áfengis á einn eða annan hátt eða útiloka það að fullu og öllu, gegn vilja annarra, sem ekki vilja lúta þeim fyrirmælum. Hinn flokkurinn vill draga úr áfengisbölinu eða útiloka það alveg með lagafyrirmælum og fræðslu um það, hvernig menn eigi að neyta víns, og hafa þá sem mest frjálsræði í því efni, en láta menn jafnframt bera ábyrgð gerða sinna og sæta sektum, ef brugðið er út af fyrirmælum l. hér að lútandi. Hvor flokkurinn um sig hefur þá bjargföstu trú, að lokatakmarkinu verði um síðir náð, ef þjóðin vildi aðeins skipa sér fast um þeirra stefnumál. Og með því að nauðsynlegt er fyrir löggjafann að marka skýrt aðra hvora stefnuna með þeim l., sem væntanlega verða samþ. um þetta mál á þessu þingi, er rétt að gera sér ljóst, hvaða erfiðleikum er að mæta í baráttunni að lokamarkinu, hvor stefnan sem tekin er.

Skal þá fyrst athuga þá aðferðina að takmarka með lögum sölu, tilbúning og innflutning áfengra drykkja eða banna þá að fullu og öllu. Fyrsti og stærsti erfiðleikinn á þessari leið er andúð þeirra mörgu manna, sem ekki vilja lúta slíku banni og viðurkenna ekki, að þess sé þörf. Sem bein afleiðing af þessu fylgja síðan lögbrotin, ekki einasta þau að afla sér vínfanga óleyfilega til þess að fullnægja misjafnlega sterkri nautn, heldur og engu síður tilhneiging sumra manna til þess að auðgast á lögbrotunum, gera það að beinum og arðvænlegum atvinnuvegi að brugga áfengi, flytja það og selja til manna, sem allt vilja til vinna að eignast það. Þessi sterka tilhneiging einstakra manna til að auðgast á lögbrotum þróast ekki einasta við algert aðflutnings- og sölubann áfengis. Hún þróast einnig alls staðar við takmörkun á sölu áfengis í einni eða annarri mynd. Hin þungu sektarákvæði frv. í sambandi við leynivínsölu í landinu, sem fullkomlega er gert ráð fyrir að haldi áfram, þótt frv. verði að l., eru sterkasta sönnunin fyrir því, að takmörkunin skapar þetta ástand, og verður löggjafinn því að gera sér alveg ljóst, að það verður ekki fyrirbyggt við frekari takmörkun, nema síður sé. Að vísu má með takmarkalausum fjáraustri, fjölmennu eftirliti og háum viðurlögum draga eitthvað úr slíkum lögbrotum, en reynslan hefur sýnt, að þau verða á engan hátt fyrirbyggð, enda mundi slíkt beinlínis skapa grundvöll fyrir því, að hægt væri að bera fé á þá menn, sem eftirlitsins ættu að gæta. Annar mjög veigamikill erfiðleiki að takmarkinu eftir þessari leið eru tekjur þær, sem ríkissjóður hefur af áfengissölu í landinu, og það er einmitt þessi staðreynd, sem veldur því, að flm. þáltill., þn., sem um hana fjallaði, hæstv. dómsmrh. og meiri hl. n., sem samið hefur frv., vilja engir leggja til, að það sé megintilgangur l. að draga úr áfengisneyzlunni í landinu. Sérhver takmörkun, sem hefur það í för með sér, að neyzlan minnki, minnkar að sama skapi tekjur ríkissjóðs. Og hversu mjög sem menn eru fylgjandi verulega minnkandi sölu áfengis, eru þeir ekki jafnákaft fylgjandi því, að tekjur ríkissjóðs minnki eða að taka á sig aukaskattbyrði, vegna þess að tekjurnar minnka af þessum ástæðum. Hversu miklu síður verður þá hægt að fá aðra menn, sem halda vilja öllum gáttum opnum, til þess að sætta sig við slíka skattaukningu? Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að fjöldi manna vill útrýma áfengisbölinu, ef unnt er, að öðrum leiðum en með því að draga úr neyzlunni. Því er að vísu haldið fram og það með allmiklum rétti, að samfara tekjumissi ríkissjóðs fylgi einnig margvísleg útgjaldalækkun, en bæði er það, að almennt er ekki litið svo á, að hún mundi nema nokkuð nálægt því, sem tekjurýrnuninni nemur, og auk þess er vitað, að svo bezt væri um raunverulega útgjaldalækkun að ræða, að unnt yrði að fyrirbyggja neyzlu að öðrum leiðum, en um þá erfiðleika hef ég þegar rætt.

Stærsti erfiðleikinn á hinni leiðinni er hið mannlega eðli með öllum sínum kostum og göllum. Það er síður en svo órökrétt hugsun eða smávægileg hugsjón að vilja þjálfa svo og þroska mannlega dómgreind, skapgerð og vilja, að menn séu sér þess meðvitandi. hvað er rétt og rangt í þessum málum, og hafi þá jafnframt bæði vilja og þrek til að framfylgja því. Og því verður ekki neitað með nokkrum rökum, að það væri það langæskilegasta, að takmarkinu yrði náð að þessum leiðum. Hitt má öllum vera ljóst, að sú barátta verður líka bæði löng og hörð áður en lýkur. Einmitt vegna þess, hversu árangurinn af haftastefnunni hefur orðið sáralítill, og jafnframt vegna hins, hversu mikilli mótspyrnu það mætir, að ríkissjóður missi tekjurnar af áfenginu, er engan veginn útilokað, að margir af þeim mönnum, sem skoða það sem meginatriði baráttunnar, að dregið sé úr áfengisbölinu, hvaða leið sem farin er, vilji ljá því fylgi að reyna uppeldisleiðina, svo fremi að einhver trygging sé gefin fyrir því, að árangurs sé að vænta af þeirri baráttu almennt.

Frv. það, sem hér er til umr., markar hvoruga þessa stefnu. Það ruglar svo kyrfilega báðum þessum ólíku stefnum saman, að ómögulegt yrði að greina á milli, hvorri stefnunni það væri að þakka, þótt einhver bót fengist á þessu eða hinu, sem miður fer í áfengismálunum. Þetta er að mínu áliti langmesti ágallinn á frv. Frá mínu sjónarmiði gefur það þá heldur engin fyrirheit um endurbætur á því ófremdarástandi, sem í þessum málum er, þótt það verði að l., eins og n. hefur skilað því til þingsins. Þar með er ekki sagt, að verk n. sé einskis nýtt, síður en svo. Þær upplýsingar, sem hún hefur aflað, eru margar hverjar mjög merkar og vel þess virði, að þeim sé gaumur gefinn, enda sumar hverjar beinlínis blys, er menn hefðu gott af að taka sér í hönd, sem ráfa í sífelldu myrkri í þessum málum, þó að þau því miður hafi ekki reynzt nægilega sterk leiðarljós fyrir n. til þess að leiða hana á beina braut. Er enda sýnilegt, að á móti hafa mætt fyrir fram ákveðnar, óskyldar skoðanir í málinu samfara fjötrum við embætti og atvinnu, og þurfti að sjálfsögðu mikinn manndóm til að hrista af sér slíka hlekki, svo að hægt væri að hugsa og starfa algerlega frjálst í málinu, en á því hefði verið mikil nauðsyn.

Ég skal þá fara hér nokkrum orðum um hinar einstöku greinar frv., um leið og ég geri grein fyrir brtt. mínum á þskj. 111.

Ég hef áður minnzt á 1. gr. frv. og gert henni nokkur skil og skal ekki endurtaka það, en aðeins benda á, að orðalag hennar sannar hvað bezt, að meiri hl. n. hefur enga ákveðna stefnu í málinu. Hefði svo verið, hefði í framhaldi af því, sem þar er sagt, þurft að koma með, með hvaða hætti og að hvaða leiðum stuðla skyldi að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess. En þess er stranglega gætt að minnast ekkert á það í greininni. Ég legg því til, að 1. gr. frv. verði orðuð á þann veg, sem segir í 1. brtt. minni á þskj. 111, og hljóði svo:

„Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem því er samfara.“

2. gr. frv. gefur ekki tilefni til umr., þar sem hér er aðeins um skilgreiningu að ræða.

Síðasti málsliður 3. gr. segir, að óheimilt sé að flytja til landsins öl, sem hefur inni að halda meira en 2¼% af vínanda að rúmmáli. En með því að væntanlega er ekki hugsað að flytja nokkurt öl til landsins, enda hefur það ekki verið gert um langan aldur, þykir eðlilegt að orða þennan málsl. á þann hátt, sem ég legg til í 2. brtt. minni, sem er við 3. gr., að 3. málsl. orðist svo: „Þó skal óheimilt að flytja til landsins öl.“

Í 4. gr. frv. er það nýmæli, að bannað er að flytja inn nokkuð af þeim áfengisforða, sem í skipunum er. Tel ég það ekki einasta í samræmi við ákvæði 3. gr., heldur og sjálfsagt spor í áttina að því marki að draga úr áfengisneyzlunni í landinu, án þess að það skaði tekjur ríkissjóðs, eins og virðist vera tilætlun meiri hl. nm. Það er vitað, að ríkissjóður hefur engar tekjur af því áfengi, sem þannig er flutt inn. Hitt er sýnilegt, að úr því að þetta spor er stigið, þá er alveg óhjákvæmilegt að ganga enn lengra og leyfa ekki neinn forða í skipi óinnsiglaðan, svo lengi sem skip er innan þeirra takmarka, sem ekki má veita vín. Að leyfa þessi fríðindi er í engu samræmi við tilgang l. og einungis til þess að mismuna þegnum þjóðfélagsins, þar sem einum er frjálst að hafa um hönd vörutegund undir hagkvæmari skilyrðum, en öðrum. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki verulega fjárhagslega þýðingu, hvorki fyrir neytendur né fyrir ríkissjóðinn, hvort það er leyft eða ekki. En það verða engin frambærileg rök færð fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt, eðlilegt eða sanngjarnt. En aftur á móti má færa mörg rök fyrir því, að jafnan verði freisting fyrir þá, sem þannig eiga áfengi, að koma því á land, og opni það þeim þá einnig leið til þess að láta ekki staðar numið við þennan skammt. — Ég hef því lagt til í 3. brtt. minni, .a-lið, að síðasti málsl. 3. mgr. falli niður. Verði þessi till. mín samþ., þarf einnig að samþ. b- og c-liðina, þar sem þeir eru afleiðing af fyrri samþykkt, og væri því rétt að bera þá upp alla þrjá saman. — Í d-lið er lagt til, að fyrirmælin nái einnig til flugvéla. — Þá hefur mér þótt rétt að leggja til, að fyrirmælin nál einnig til innlendra skemmtiferðaskipa, en herskip og erlend skemmtiferðaskip séu undanskilin. Mælir ekkert með því, að innlend skemmtiferðaskip séu undanþegin lögunum.

Það er vitað, að hér á hv. Alþ. munu ákvæði 2. mgr. 7. gr., um heimild til þess að brugga áfengt öl í landinu, valda einna mestum deilum, enda hefur þetta ákvæði einnig valdið miklum ágreiningi í mþn. Það má sjálfsagt lengi deila um það, hvort öldrykkja örvaði þjóðina til ofdrykkju eða drægi úr henni. Hafa verið færð margvísleg rök að þessu, bæði með og móti, sem reynslan ein fær þó skorið úr um, svo að ekki yrði um deilt lengur. Það er engan veginn rökleysa að ætla, að neyzla sterkari drykkja minnkaði við öldrykkju, einkum þegar ríkisstofnun hefur það jafnan í hendi sér að minnka innflutning og sölu sterkra drykkja, ef hún hefur annað léttara að bjóða og sýnilegt er, að ríkissjóður hefur sama hag af þeirri sölu. Er það skaði, að n. hefur ekki svo að séð verði, gert á þessu neinn samanburð eða látið athuga þetta atriði út af fyrir sig, sem þó hefði verið mjög fróðlegt að fá einhverja hugmynd um. Ef gera mætti ráð fyrir því, að annar hver maður á landinu drykki eina hálfflösku á dag af öli, og ég er ekki viss um, að það eitt út af fyrir sig þætti vera nokkur ofdrykkja, — þá mætti gera ráð fyrir því, að tolltekjurnar einar gæfu ríkissjóði 15 millj. kr. á ári, en það er rúmlega þriðjungur af áfengistekjunum nú. Mætti þá minnka innflutning og sölu áfengra drykkja sem því svaraði án þess að rýra tekjur ríkissjóðs, og er það jafnan á valdi hæstv. ríkisstj., auk þess sem það er ávallt á hennar valdi að auka eða draga úr eða hætta alveg bruggun öls, ef sýnilegt er, að það leiddi ekki til þess að draga úr ofdrykkju. Fyrir þessum staðreyndum falla öll rök fyrir því, að það sé einhver voðalegur glæpur að gera þessa tilraun. Ég held einmitt miklu frekar, að ef það skyldi koma í ljós, að ölið út af fyrir sig skapaði lakara ástand í landinu en nú er, — og það tekur ekki langan tíma að fá úr því skorið, — þá hafa þeir mörgu menn, sem eru á móti ölbruggi svo miklu sterkari málstað á eftir við að fá því aflétt, en þeir hafa nú við að standa á móti því. Og tilhliðrun á einu sviði til þess að skapa sér sterkari aðstöðu á öðru eða síðar fyrir málið í heild er sannarlega engin goðgá til þess að ná settu marki í merku máli. En hvað svo sem þessu líður, þá er það alveg útilokað að finna nokkur rök fyrir því, að það sé að vinna gegn útrýmingu áfengisbölsins í landinu að vera því fylgjandi, að þjóðin fái með atkv. sínu að segja til um það, hvort hún vilji bruggun öls í landinu eða ekki. Þeir menn, sem slíku halda fram, verða sannarlega ekki teknir alvarlega, þegar þeir samtímis krefjast þess, að þjóðin fái sjálf að segja til um það með atkv. sínu, hvort leyfðar skuli áfengisútsölur eða ekki í einstökum héruðum. — Ákvæði 2. mgr. 7. gr. ákveður ekkert annað en einmitt þetta, að leita skuli álits hjá þjóðinni sjálfri um það, hvort bruggun öls skuli leyfð. Það hefur því miður allt of oft borið við í þessu heita deilumáli um áfengisneyzluna í landinu, að þeir menn, sem af einlægni og áhuga hafa beitt sér fyrir áfengisvörnum í margvíslegum myndum, hafa beinlínis veikt málstaðinn og gert honum meira tjón en gagn með sumum af þeim fyrirmælum, sem þeir hafa barizt fyrir að lögfest yrðu. Og það er áreiðanlega kominn tími til þess fyrir þá að viðurkenna þetta og athuga, hvort ekki finnast aðrar heppilegri leiðir að því marki, sem þjóðinni væri svo mikils virði að náð yrði, þ. e. að útrýma sjálfu áfengisbölinu. Ég tel langeðlilegast, að inn í þessa grein verði einnig sett það ákvæði, að jafnframt því, sem fram skuli fara þjóðaratkv. um það, hvort leyfa skal að brugga áfengt öl í landinu, skuli og fara fram atkv. um það, hvort þjóðin vilji algert aðflutningsbann og sölubann áfengis á ný. Hefur þetta engan kostnað í för með sér, þar sem spurningin getur verið á sama seðli, en sanngjarnt að verða við þeirri kröfu og ekki einskis vert að vita vilja þjóðarinnar um þetta atriði nú.

Í 4. brtt. minni á þskj. 111, fyrri mgr., er tekið upp allt það, sem nú er í 7. gr. frv., og er því ekki ástæða til þess að ræða þau atriði nánar. Hins vegar þykir mér rétt að lesa hér upp síðari mgr., þar eð hún inniheldur þau nýmæli, sem gert er ráð fyrir að taka upp í frv. En þessi 2. málsgr. í till. minni á þskj. 111 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fer fram þjóðaratkvæði um leyfi til að selja öl í landinu samkv. fyrirmælum þessarar greinar, og skal þá jafnframt og á sama hátt láta fara fram atkvgr. um það, hvort þjóðin kýs frekar algert aðflutnings- og sölubann áfengis eða áframhaldandi innflutning og sölu þess með þeim takmörkunum. sem l. þessi mæla fyrir um. Komi í ljós, að meiri hluti þeirra, sem atkv. greiða, aðhyllist algert aðflutnings- og sölubann áfengra drykkja, skal Alþingi það, sem kemur saman næst eftir að þetta er kunnugt, gera till. um nýja tekjustofna til ríkissjóðs, er komi í stað ágóðans af áfengissölunni og jafngildi þeim tekjum, og láta síðan fara fram þjóðaratkvæði um þær till., á sama hátt og fyrir er mælt í þessum lögum. Verði þær till. samþ. með meiri hluta greiddra atkv., ber samstundis að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að banna innflutning og sölu áfengis í landinu.“

Ég skal út af þessari brtt. minni taka fram hér, að ég er fús til samvinnu um að breyta þessari 2. mgr. enn, þannig að það sé hægt að láta fara fram þjóðaratkvæði um málið í heild á fyrsta stigi. Og ég skal athuga það nánar, ef dagskráin verður felld og frv. nær fram að ganga.

Með þessu móti, sem ég hér hef lýst, verður hægt að ganga úr skugga um það, hvort þjóðin virkilega vill algert áfengisbann í landinu og hvort hún vill leggja á sig þær kvaðir, sem því eru samfara, og þá á hvern hátt. Allt umtal um áfengisbann, án þess að þær ráðstafanir, sem hér er bent á, séu gerðar, er raunverulega marklaust hjal. Við samþykkt þeirrar till., sem ég ber hér fram, fæst úr því skorið, hvort þjóðin vill raunverulega leggja það á sig, sem nauðsynlegt er til að útrýma áfengisbölinu með þessari aðferð. Þeir hv. þingmenn, sem ekki vilja fylgja henni vilja þá ekki heldur áfengisbann í þessu landi.

5. brtt. mín er um það, að andvirði fyrir upptækt áfengi renni í áfengisvarnasjóð. Ég hef aldrei getað fellt mig við það, að menningarsjóður hafi tekjur sínar, sem hann notar til þess að greiða kostnað af menningarmálum þjóðarinnar, frá því sorglegasta ómenningartákni, sem sá hluti þjóðarinnar er brennimerktur með, er ekki kann sér hóf í öl- eða víndrykkju, enda miklu eðlilegra, að féð sé notað til þess að fyrirbyggja frekara tjón af ofdrykkju. Það eru ekki heldur neitt sérstaklega þeir menn, sem njóta styrks úr menningarsjóði, sem eru blysberar fyrir þeirri stefnu að útrýma áfengisbölinu úr landinu, svo að af þeim ástæðum er ekki heldur sjálfsagt, að þetta fé renni til þeirra, og vísa ég hér einnig til þeirra ummæla, sem ég hafði í sambandi við umr. um breyt. á l. um menningarsjóð.

6. brtt. mín er um það, að óheimilt sé að gefa veitingamönnum afslátt frá söluverði áfengis. Það mun hafa viðgengizt lengi vel, að Hótel Borg fengi ákveðinn afslátt af viðskiptum við Áfengisverzlunina, en fyrir atbeina fjvn. var þessu hætt 1947 og hefur væntanlega ekki verið tekið upp aftur, enda engin þörf. Þetta ákvæði á því að samþykkja.

Samkv. ákvæðum 10. gr. er ætlazt til þess, að aðeins verði heimilað að hafa útsölustaði í kaupstöðum. Er þetta takmörkun frá því, sem nú er, þar sem íbúum í kauptúnum og einnig í sveitum er heimilt með atkvgr. að kveða á um þetta, til eða frá. Í framkvæmdinni hefur þetta sjálfsagt enga þýðingu. Sem betur fer sækjast íbúar kauptúna, þorpa og sveita almennt ekki eftir því, að komið sé þar upp útsölu á áfengi, og er það vel. En þegar það er kunnugt af margra ára reynslu, að þeir eru í þessu máli framar kaupstaðabúum, þá er það nokkuð hjákátlegt, að með lögum skuli vera tekinn af þeim sjálfsákvörðunarrétturinn í þessu máli. Einmitt það að láta þá halda þessum rétti áfram er styrkur fyrir þá, sem berjast fyrir útrýmingu áfengis, að benda á, að svo og svo mörg héruð hafi útrýmt áfenginu af frjálsum vilja og fullum skilningi á þörfinni fyrir því. Þetta verður líka því torskildara, þegar frv. gerir samtímis ráð fyrir því að auka sölumöguleikana í kaupstöðunum með því að fjölga þar veitingastöðum, og sýnir það bezt, hversu sáralítið samræmi er í löggjöfinni. Þegar svo enn eru athuguð ákvæði 13. gr. um, að ekki má selja vín nema gegn staðgreiðslu og að ekki má senda það gegn póstkröfu, og enn fremur ákvæði 19. gr., þar sem þung refsing liggur við, að vín finnist í bifreið, ef ekki er unnt að færa sterkar líkur fyrir því, að eigandinn ætli sér að drekka það sjálfur, þá er tvöföld ástæða til þess að breyta þessu ákvæði. — 7. brtt. mín miðar að því að svipta ekki neinn þessum sjálfsákvörðunarrétti, meðan hann er viðurkenndur í máli þessu fyrir nokkurn aðila. Ég get búizt við því, að þeir menn, sem spyrna vilja við því, að áfengisveitingastöðum verði fjölgað í landinu, muni benda á, að þessi till. mín sé rýmkun frá því, sem ákveðið er í frv. Er það út af fyrir sig rétt. En eins og ég hef tekið fram áður, er hér um réttlætiskröfu að ræða, sem á engan hátt skaðar sjálft málefnið, en getur hins vegar orðið því styrkur, ef rétt er á haldið, og ber því að samþykkja þessa till.

Í 8. brtt. minni legg ég til, að 12. gr. frv. verði breytt algerlega. Hefur mér þótt rétt að orða 1. mgr. um eins og sjá má á a-lið till. og breyta henni. Meginbreytingin er fólgin í því, að veitingastaður, sem leyfi fær, skal vera fyrsta flokks að dómi ríkisstj., en ekki gistihúseiganda, enda skýrari ákvæði um reglu, snyrtimennsku og annað í sambandi við útbúnað veitingastaða. Enn fremur er nánar tiltekið um bann við greiðslu fyrir að bera fram vínföng. Tel ég, að þessar brtt. séu mjög til bóta. — Till. undir b-lið miðast hins vegar við, að fyrri till., nr. 7, hafi verið samþ. Er þar því um afleiðingu að ræða. — C-liðurinn, sem er till. um, að 3. mgr. falli niður, er vegna þess, að þau ákvæði greinarinnar eru sumpart óþörf, eftir að mínar till. um 7. gr. hafa verið samþykktar, og sumpart er ekki eðlilegt, að undanþága frá almennu reglunni sé gefin á þann hátt, sem þar er gert. En þessi liður till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Utan kaupstaða er dómsmrh. og heimilt, að uppfylltum skilyrðum a—c-liða 1. mgr., að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga, ef telja má, að veitingahúsreksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn, enda mæli áfengisvarnanefnd með leyfisveitingunni.“ Ég sé, eins og ég hef tekið fram, enga ástæðu til þess að hafa þessa grein og hef því lagt til, að hún falli niður, og vænti ég, að hv. d. geti fallizt á, að greinin eigi að falla niður, og samþ. því þessa till. mína hér að lútandi. — D- og e-liðir eru afleiðing af fyrri samþykktum, hafi þær verið gerðar.

9. brtt. mín, við 15. gr., er um það að fella niður heimild til að taka upp skömmtun á áfengi með reglugerð. Í mþn. var mjög rætt um skömmtun á áfengi, og kom þar fram till. um að taka hana upp. Þykir mér rétt að taka hér upp kafla um þetta atriði úr skýrslu n., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Annar nm. (B. T.) gerir svofellda grein fyrir afstöðu sinni til skömmtunar:

Svíar hafa reynt skömmtun (Brattskerfið) um aldarfjórðung, og hefur hún ekki gefizt betur en það, að áfengislagan. sú, sem þar hefur starfað undanfarið (frá 1944) hefur orðið sammála um að leggja til, að skömmtun verði afnumin. Þetta sýnir, að reynslan hefur hlotið að vera slæm af skömmtunarreglum þeim, er kenndar eru við Ivan Bratt. Aðalatriðið er það, að vonir manna um minnkandi áfengisnautn vegna skömmtunarinnar hafa brugðizt verulega. Svíar drekka mest allra Norðurlandabúa, um 50% meira á hvert mannsbarn, en Norðmenn. Tilgangur skömmtunarinnar var m. a. sá að koma í veg fyrir, að drykkjumenn gætu náð í áfengi, þar sem þeir voru úfilokaðir frá því að fá áfengisbók, en reynslan leiðir í ljós, að þetta hefur alveg misheppnazt, eins og sést af því, að um ¾ af ofurölvun meðal Svía lengi undanfarið á sér stað meðal manna, sem hafa enga áfengisbók, þ. e. eru útilokaðir að l. frá því að ná í áfengi hjá einkasölunni. Þetta er rothögg á skömmtunina. Annað er rétt að nefna. Um leið og fólk verður fulltíða (21 árs) í Svíþjóð, fær það leyfi til þess að fá áfengisbók upp á vasann. Þetta verður til þess, að mjög margir, bæði karlar og ekki síður konur, fara að ná sér í áfengi. Þeir hugsa sem svo: Það er sjálfsagt að nota réttindin. — Það líta margir svo á, að meðal réttinda, sem fylgja því að verða fullveðja, sé það að fá sér á pyttluna! Með þessu er eins og verið að „löggilda“ áfengisnautnina fyrir hvern einstakling. ef svo mætti að orði kveða.“

Þetta er sérgrg. stórtemplars í n. Má telja það alveg furðulegt, að sömu menn sem fært hafa svo skýr rök fyrir því, að ekki eigi að taka upp skömmtun, skuli svo síðar leggja til að heimila hana í frv. Er þetta ein sönnun þess, hversu mál þetta hefur allt verið laust í böndunum hjá n.

10. brtt. mín er við 16. gr. (Forseti: Mundi ekki hv. þm. vilja geyma ræðu sína þangað til seinna á fundinum?) Ég tel það nú rétt, því að ég á sjálfsagt eftir að tala í hálftíma enn. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði lýst hér áðan 9 af mínum brtt. og skal nú halda áfram ræðu . minni.

10. brtt. mín er við 16. gr. og er í tveim liðum. Fyrri liðurinn er um það, að niður falli tvö orð, sem eru óþörf, ef síðari liðurinn er samþ., sem er ný mgr. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengi má ekki veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður eða svo mjög undir áhrifum víns, að hann gæti ekki hófs í siðgæði eða brjóti almennar umgengnisvenjur á veitingastað. Skal viðkomandi veitingamaður, eftirlitsmaður með áfengisveitingum eða veizlustjóri láta þegar fjarlægja hvern þann, sem þannig er ástatt um, og ber að stöðva allar veitingar á staðnum, unz það hefur verið gert. Þessi ákvæði gilda einnig um áfengisveitingar samkv. 20. gr. þessara l.

Með þessari till. er lögð meiri ábyrgð á herðar veitingamanni, veizlustjóra og eftirlitsmanni, sem ég ætlast til að skipaður verði, og lýst verður ákvæðinu um það síðar, er rætt verður um 14. brtt.

Ef rýmka á um sölu áfengis samfara því, sem útrýma á áfengisbölinu og kenna mönnum að fara sómasamlega með neyzlu áfengra drykkja, verður að hafa eftirlit með því, að fyrirmælum l. sé hlýtt, og eins að gefa mönnum aðhald í sambandi við meðferð vínsins. Þeir menn, sem kynnu að verða andvígir þessari till. og öðrum, sem á eftir fylgja um sama efni, eru þá jafnframt andvígir því, að samfara frelsi í notkun áfengis komi batnandi umgengnisvenjur og meira öryggi fyrir þá, sem umgangast menn, sem víns neyta, en taka sjálfir ekki þátt í því.

11. brtt. mín er um, að ný grein komi á eftir 20. gr., svo hljóðandi:

„Eftirlitsmaður með áfengisveitingum skal hafa aðgang að hverjum þeim stað, þar sem leyft hefur verið að veita áfengi, jafnt í félögum og veizlum sem á opinberum veitingastöðum, og ber honum að sjá um, að fyrirmælum þessara l. sé hlýtt, og kæra yfir, ef brotið er út af. Honum skal enn fremur heimill aðgangur að hvers konar mótum og samkomum, ef grunur leikur á, að þar sé haft vín um hönd. í því skyni að gæta þess, að ölvun eigi sér ekki stað, sem fer í bága við fyrirmæli og tilgang þessara l. Heimilt er honum að afla sér þar hvers konar sönnunargagna, sem hann telur nauðsynleg til sönnunar brotum á l. þessum.“

Miðar þessi brtt. að því sama og 10. brtt., að tryggja, að vínnautn sé ekki misnotuð og þó einkum að umgengnisvenjur og góðir siðir séu ekki virtir að vettugi.

12. brtt. mín er um, að ný grein komi á eftir 25. gr., svo hljóðandi:

„Sé það á almannavitorði. að fyrirmæli 21.–25. gr. þessara laga hafi verið brotin á ákveðnum samkomum, eða ef sterkur grunur liggur á því, að svo hafi verið, ber að láta fram fara réttarrannsókn á meintum brotum, þótt engin kæra hafi komið fram, svo að upplýst verði á þann hátt, hvort um meint brot hafi verið að ræða eða ekki.“

Það er á almannavitorði, að mörgum skemmtunum er beinlínis spillt með návist manna, sem ekki gæta hófs í neyzlu áfengis. og þarf oft ekki nema einn mann eða fáa menn til þess að spilla samkomum. Þykir rétt, að það varði sektum, og eru fyrirmæli þessi til að fá það upplýst, þótt engin kæra hafi beinlínis borizt um brot ákveðins aðila.

13. brtt. er umorðun á 26. gr. frv. Ég tel rétt, að áfengisvarnaráðunautur eigi jafnframt að vera áfengisvarnalæknir. Það er alveg vitað, að það líður ekki á löngu, þar til mætt verður þeirri kröfu þjóðarinnar að setja sérstakan lækni yfir öll áfengismálin í landinu. Og þá á sá maður einnig að vera áfengisvarnaráðunautur stjórnarinnar í öllu því, sem þessi mál snertir. Það er of mikil skammsýni að binda þetta starf við mann, sem nú gegnir því, þótt hann sé í alla staði ágætur maður. Það væri því mikið víxlspor að ganga ekki frá þessu atriði þegar í upphafi eins og eðlilegast er að hafa það í framtíðinni.

14. brtt. mín er um það, að ný grein komi á eftir 27. gr. og orðist svo:

Dómsmrh. skipar eftirlitsmenn með neyzlu og meðferð áfengis á öllum þeim stöðum í landinu, þar sem leyfðar eru útsölur og veitingar áfengis, svo marga sem þurfa þykir að dómi áfengisvarnaráðs. Skal þeim skylt að fylgjast með því, að fyrirmælum l. sé hlýtt í hvívetna, og bera fram kærur á hendur þeim, sem brotlegir hafa gerzt. Gerist eftirlitsmaður brotlegur um meðferð og sölu áfengis eða hylmar yfir með öðrum, sem gerzt hafa brotlegir, eða vanrækir á einn eða annan hátt starf sitt, svo að lögbrot verði öðrum auðveldari, skal hann sæta ábyrgð samkv. l. þessum.

Að öðru jöfnu skulu meðlimir áfengisvarnanefndar ganga fyrir sem eftirlitsmenn, enda skal ávallt leita álits áfengisvarnaráðs, áður en ráðh. skipar slíkan starfsmann.

Á þeim stöðum, sem útsölur eða veitingar áfengis eru ekki leyfðar, skal eftirlitsstarfið falið áfengisvarnanefndum þar, og ber þeim þá að hafa eftirlit með mótum og samkomum, sem haldnar eru á því svæði, sem þeim tilheyrir.

Eftirlitsmenn geta hvenær sem er krafizt aðstoðar lögreglumanna, ef þeim þykir ástæða til í sambandi við brot á l. þessum.

Ráðherra setur reglugerð um störf eftirlitsmanna og laun þeirra.“

Eins og greinin ber með sér, er ætlazt til, að komið sé upp fullkomnu eftirlitskerfi með framkvæmd l., og hef ég nokkuð rætt um það hér að framan. Það væri ekki óeðlilegt að spyrja, hve mikinn aukinn kostnað slíkt eftirlit mundi hafa í för með sér. Út af því vil ég taka fram:

Lögin eru einskis nýt, ef ekkert eftirlit á að hafa með þeim. Í frv. er gert ráð fyrir, að komið sé á áfengisvarnanefndum eftir þörfum og að þær fái laun. Þeirra er því að hafa eftirlitið. Kostnaðurinn fer sjálfsagt eftir því, hve fólksfrekt eftirlitið er. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að eftirlit með bifreiðum í landinu kostar nú um eina millj. kr. Tel ég, að enginn vilji draga úr því, ef það á að kosta fleiri slys. En því verður ekki á móti mælt, að misnotkun áfengis í landinu nú, gerir miklu meira tjón, en öll bifreiðaslysin til samans, eins og ég er líka víss um, að fyrir þá upphæð, sem greidd er fyrir bifreiðaeftirlit, má skapa öruggt eftirlit með áfengisneyzlu í landinu.

15. brtt. mín er umorðun á 30. gr. frv. og hljóðar svo:

„Í öllum skólum, er opinbers styrks njóta, skal fara fram fræðsla um áhrif áfengisnautnar. Sérstaka áherzlu skal leggja á að upplýsa, hvaða áhrif ofnautn áfengis hefur á líkama mannsins, vinnuþrek, siðferðisþroska hans og sálarlíf, á heimili manna, umgengnisvenjur og almenna siðfágun, á fjárhag einstaklinga og þjóðarinnar, á öryggi í vandasömu starfi og atvinnu manna almennt. Enn fremur skal veita fræðslu um það, hver sé öruggasta leiðin til að forðast ofnautn áfengis.

Áfengisvarnaráði skal skylt að sjá svo um, að skólarnir eigi þess jafnan kost að fá hentugar kennslubækur og kennslukvikmyndir, eftir því sem við á á hverju skólastigi allt frá barnaskólum til háskóla. Ráðherra setur nánari fyrirmæli með reglugerð um kennslustundafjölda í hverjum skóla, prófstig o. fl., er að námsgreininni lýtur, að fengnum till. frá áfengisvarnaráði.

Skylt skal öllum sóknarprestum landsins að hafa eftirlit með því, að börn og unglingar hafi fengið þá fræðslu, sem ákveðin er í barnaskólum samkv. fyrirmælum þessarar greinar, og er það skilyrði fyrir fermingu barna, að þeim hafi verið kennd sú námsgrein.“

Eins og tekið er fram í grg. frv., þá er 15. gr. nú í l. og hefur verið það alllengi, en árangur af fyrirmælunum er ekki ærið fyrirferðarmikill. Þegar þess er minnzt, hvernig blysberar þjóðarinnar, stúdentarnir, venjulega eyða fyrstu dögunum að lokinni langri skólagöngu, hvernig þeir síðar heiðra aðra menntastofnun, háskólann, með fyrstu nærveru sinni í félagsskap með eldri stúdentum og hvernig þeir síðar á ævinni minnast þessara merkisdaga, getur maður ekki komizt hjá því að viðurkenna, að þessari kennslugrein skólanna hlýtur að vera eitthvað verulega ábótavant, og er það ekki hvað sízt orsök þess, að þetta vandamál þjóðarinnar er enn ekki leyst sem skyldi.

Samkv. 20. gr. frv. varðar við l., ef starfsmaður ríkisins er ölvaður, þegar hann er að gegna embætti sínu. Prófessorar, prestar, kennarar eða hvers konar fræðarar hinna ungu í þjóðfélaginu eru ekki taldir vera að gegna embætti sínu þær stundir, sem þeir eru í hófi, hvort heldur það er fámennt eða fjölmennt, og ná þá að sjálfsögðu ákvæði 22. gr. frv. ekki yfir neitt af því, sem menn kunna þar að leyfa sér. Þó gæti svo farið, að ofnautn áfengis slíkra manna þar orsakaði meira tjón, en þó að hún kæmi fyrir við embættisverk, ef svo illa tækist til t. d., að fordæmið brenndi sig í vitund ungra viðstaddra manna, sem ályktuðu, að umgengnisvenjur slíkra tignargesta hlytu að vera fyrirmynd, sem ekkert væri við að athuga. Í sambandi við þetta atriði þykir mér rétt að benda á kafla í grg. frv. á bls. 11., rómv. II, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrsta ráðstöfun stjórnarinnar til þess að koma í veg fyrir brennivínsofdrykkju á Íslandi eru fyrirmæli í konungsbréfi 3. júní 1746 til biskupanna á Íslandi, þar sem lagt er fyrir þá að sjá um, „að prestar og aðrir haldi sig frá drykkjuskap“. — Í erindisbréfi handa biskupunum, útgefnu 1. júlí 1746, er svo fyrir mælt, að drykkjuskapur presta skuli sæta viðurlögum, einkum ef prestar láta sjá sig drukkna í verzlunarstöðum. Þessi fyrstu stjórnarfyrirmæli gegn ofdrykkju á Íslandi eru gefin út að ráði Lúðvigs Harboe, er sendur var hingað til lands til þess að kynna sér ástandið í skólum og kirkju. Reit hann stjórninni rækilegt bréf um drykkjudrabbið á Íslandi, og telur hann till. Jóns biskups Árnasonar um brennivínsbann bæði kristilegar og nauðsynlegar.“

Það vakti athygli mína, að prestar mega ekki samkv. hirðisbréfinu láta sjá sig drukkna í verzlunarstöðum. Hvað gat legið á bak við þessi fyrirmæli annað, en vitneskjan um það, að það gat valdið tjóni að hafa slíkt fyrir öðrum, þar sem fjölmenni var? Hvað mundi þá hafa verið sagt um það, að þeir væru á þann veg þátttakendur í mannmörgum, virðulegum hófum? Ég held, að þegar menn hafa áttað sig á kjarna þessa máls, þá verði þeir mér sammála um það, að nauðsyn beri til að samþ. þessa till.

16. brtt. mín er um það, að allar sektir samkv. l. skuli renna í áfengisvarnasjóð, en að greitt verði það, sem á kann að vanta til að standast kostnað við framkvæmd l., af ágóða Áfengisverzlunarinnar, í stað þess að ákveða hundraðsgjald af hagnaðinum.

17. brtt. mín er um það, að 32. gr. frv. falli niður. En sú gr. ákveður, að 6% af ágóða Áfengisverzlunarinnar skuli lagt til hliðar í næstu 5 ár til þess að sinna sérstökum verkefnum, sumum alveg óskyldum þessu máli og sumum, sem tryggt hefur verið fé með gildandi l. Tel ég rétt að fella þessa grein niður.

Aðrar till., 18.–24., eru til samræmingar, ef till. mínar eru samþ., og þurfa ekki skýringa við. Ég hef þá gert ýtarlega grein fyrir till. mínum og lýst afstöðu minni til þessa máls. Að ég hef lagt svo mikla vinnu í að athuga þetta mál og ganga frá brtt. við frv., þótt ég eigi ekki sæti í þeirri n., sem það hefur haft til meðferðar, kemur til af því, að ég álít, að hér sé til umr. eitt af vandamestu málum þjóðarinnar, sem hv. alþm. megi ekki greiða atkv. um nema hafa áður kynnt sér það út í æsar. Ég er að sjálfsögðu fús til þess að hafa um það fulla samvinnu við n., sem hefur málið til meðferðar, svo og hvern annan hv. þm. um að fylgja öðrum brtt., ef þær ná frekar því marki, sem að ber að stefna, þ. e. að útrýma áfengisbölinu. En ég get ekki sýnt það ábyrgðarleysi í þessu stóra máli að vera með að vísa því frá, eins og meiri hl. n. leggur til. Vil ég þar með skjóta mér undan þeirri ábyrgð, sem því fylgir að setja þjóðinni ekki áfengislöggjöf, vitandi það, að sú áfengislöggjöf, sem hún nú býr við, bakar þjóðinni meira tjón, en mælt verður í krónum, og mun ég því greiða atkv. á móti hinni rökstuddu dagskrá.