05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

33. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að hér er um mikið vandamál að ræða, þar sem eru áfengislögin og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir óhæfilega notkun áfengis. Þess vegna eru mér það vonbrigði, að meiri hl. hv. n., sem um þetta mál hefur fjallað hér, skuli leggja til, að málinu sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, án þess að leggja nokkuð sjálfstætt til málanna.

Það er að vísu gefið í skyn, að sú n., sem um þetta hefur fjallað og skipuð var af dómsmrh., hafi ekki verið rétt valin, og að því fundið, að hvorki hafi í henni átt sæti umboðsmenn eða fulltrúar Stórstúkunnar né kvennasamtakanna. Sannleikurinn er sá, að í þessa n. voru valdir menn, sem allir höfðu um þessi mál fjallað á einn eða annan veg og vænta mátti, að væru kunnugir bæði óskum manna í þessum efnum, — ólíkum óskum manna, en ekki einhæfum frá tilteknum hópum, — og eins menn, sem gera má ráð fyrir, að væru kunnugir raunverulegu ástandi og hvar væri helzt umbóta þörf. Og ég vil halda því fram, að sú n., þar sem Brynleifur Tobíasson er, verði ekki talin vanskipuð af hálfu bindindismanna í þessu landi. Ég hygg, að það séu fáir núlifandi Íslendingar, sem eigi lengri og heilsteyptari sögu í bindindismálunum heldur en einmitt Brynleifur Tobíasson, enda hefur hann gegnt æðstu trúnaðarstörfum innan góðtemplarareglunnar, svo að vanskilið er, að þaðan hefði annar hæfari maður orðið nefndur.

Á sama veg vil ég halda því fram, að þar sem málið hefur nú legið í fullan 1½ mánuð — nær 2 mánuði, geri ég ráð fyrir — hjá hv. allshn. þessarar d., þar sem hinn ágæti kvenskörungur, hv. 8. þm. Reykv., á sæti, þá sé fyllilega séð (Gripið fram í.) — já, er formaður nefndarinnar, þá sé fyllilega séð fyrir því, að konur hafi átt þess kost að leggja sitt til málanna. Og ég veit ekkí, hverjar hefðu frekar verið tilnefndar, heldur en einmitt þessi skörulega þingsystir okkar eða bróðir, — ég veit ekki, hvort frekar á að kalla. (Gripið fram í.) Systir, er leiðbeining forseta. Ég skýt þessu fram, vegna þess að á sínum tíma var það til umr., hvort ætti að kalla kvenmann, sem var skipaður sendiherra, frekar sendiherra eða sendifrú, og að viturra manna ráði þótti einhlítt að kalla hana sendiherra. Og þess vegna veit ég ekki frekar um þingmann, sem er kvenkyns, hvort á að kalla hann okkar þingbróður eða þingsystur. En nú höfum við forsetaúrskurð um það, og þá er sjálfsagt að hlíta honum. En þessi ágæta þingsystir okkar (Gripið fram í.) — já, hún er þingmaður, — en þessi ágæti þm., hann er, að því er ég bezt veit, einn í stjórn Kvenfélagasambands Íslands og gegnir öðrum trúnaðarstörfum í kvennasamtökunum, svo að það hefði mátt ætlazt til þess, að frá honum kæmu bendingar í þessum efnum, er konur sérstaklega hafa þar til mála að leggja. En sannast er að segja, án þess að ég geri lítið úr till. kvenna í þessum málum eða öðrum, þá eru konur auðvitað eins skiptar í þeim eins og karlmenn; það vitum við allir. Það sýnist sitt hverjum og því ekki skynsamlegtað velja eftir kynjum til slíkra nefndarstarfa, og allra sízt þegar það liggur fyrir, að sú þn., sem hefur haft málið til meðferðar, er einmitt svo heppin að hafa jafnskörulegan formann úr kvenmannsstétt eins og hv. 8. þm. Reykv.

Ég tel þess vegna þær aðfinningar, sem komið hafa fram gegn skipun n., tilefnislausar og tel litlar líkur benda til þess, að málið yrði nær afgreiðslu, þótt hin rökstudda dagskrá væri samþ. Það er einnig ljóst, að af samþykkt hennar mundi leiða verulegan drátt málsins, drátt, sem þeir ættu allra sízt að óska eftir, sem hæst hafa nú um það, hvílíkt vandræðaástand sé í þessum efnum. Og ég vil fyllilega taka undir það og lýsa því sem minni sannfæringu, að núverandi ástand í þessum efnum sé allt annað, en gott, þótt vandinn sé hins vegar miklu meiri að benda á, hver úrræði eigi að verða til bóta.

Það er vitað, og hefur sérstaklega verið um það rætt, að deilt hefur verið á ríkisstj. og þá mig sérstaklega sem dómsmrh. fyrir tvö atriði í framkvæmd þessara l., annars vegar framkvæmd á vínveitingaleyfum svo kölluðum og hins vegar varðandi héraðabönn.

Um það fyrra er það að segja, að ákvæði l., eins og þau eru, eru nánast óframkvæmanleg. Og frá þeim hefur verið brugðið allt frá því að áfengislögin fyrst voru sett, misjafnlega mikið, en sama eðlis lengst af allan tímann. En það liggur líka í augum uppi, að ef það þótti ástæða til þess að hafa vínveitingar á einstöku stað í Rvík fyrst þegar Spánarundanþágan var veitt, sem mig minnir að hafi verið 1922, þegar hér voru rúmlega 20 þús. manns, þá er auðvitað óframkvæmanlegt að ætla að hafa vínveitingar einungis á einum stað nú, þegar íbúar Rvíkur eru orðnir nær 60 þús., ef menn á annað borð vilja hafa vínveitingar á veitingastöðum, en það getur verið deiluefni. Menn geta haldið því fram, að engar slíkar veitingar eigi að eiga sér stað. En ef þær á annað borð eiga að eiga sér stað, þá er það óhafandi fyrirkomulag að hafa þetta aðeins á einum stað og ætla að banna með öllu leyfisveitingar annars staðar. Það dylst heldur ekki, að margt af því, sem er ömurlegast við drykkjuskap hér á landi, kemur af því, að segja má, að hann sé ekki leyfður í húsum inni. Menn mega að vísu drekka í sinum einkahíbýlum, — sem betur fer vilja margir forðast það, — en á veitingastöðum mega menn yfirleitt ekki hafa vin um hönd. Menn eru þess vegna reknir út í skúmaskot, upp í bifreiðar og ýmsan ósæmilegan máta til þess að neyta þeirra vínfanga, sem þeim eru þó löglega seld og þeir eru löglega að komnir. Það væri skiljanlegt, að ríkið vildi alls ekki selja vín. En hitt er óskiljanlegt, að ætla að selja mönnum vín í jafnríkum mæli og gert er, en banna mönnum síðan að neyta þess á siðsamlegan og hófsamlegan hátt. (Forseti: Eða flytja það heim til sín. Nú má ekki flytja það í bil.) Þetta eru nú ýkjur hjá okkar góða hæstv. forseta. En nokkur vandræði kunna að vera á því að koma því heim til sín, ef menn kaupa mikið. Það mun satt vera.

Ég vil þess vegna eindregið halda því fram, að það hafi verið af ríkri nauðsyn, að ekki hefur verið hægt að framfylgja til fullnustu hinum óframkvæmanlegu boðum löggjafans um það, hvernig vínveitingaleyfum eigi að koma fyrir. Og þegar af þeirri ástæðu er alveg nauðsynlegt, að löggjafinn kveði á um, hvaða skipun á að taka upp í þessum efnum. Annaðhvort að menn segi: Vínveitingar á opinberum veitingahúsum eiga alls ekki að eiga sér stað. — Þá er sjálfsagt fyrir löggæzluna að fylgja því fram, og ekki skal á því standa þann tíma, sem ég hef hennar yfirstjórn. Að öðrum kosti verði settar framkvæmanlegar reglur um það, hvenær þetta eigi að vera leyfilegt, en ekki óframkvæmanlegar eins og nú. Ég legg á það ríka áherzlu, að Alþingi taki afstöðu til þessa atriðis á einn eða annan veg nú þegar, einmitt vegna þess, að ég tel, að núverandi fyrirkomulag sé óviðunandi, m. a. vegna þess, að Alþingi hefur verið kunnugt árum saman, að á þessu er hafður tiltekinn háttur, en engu að síður ganga stöðugar ákærur á dómsmálastjórnina í landinu fyrir það, að hún brjóti vilja Alþingis í sinni framkvæmd, þótt Alþingi viti, hvernig framkvæmdin er. Þess vegna tel ég það — og legg á það höfuðáherzlu, að nauðsynlegt sé fyrir Alþingi að samþ. ekki með þögninni, eins og hingað til, það, sem gert hefur verið, heldur kveða upp úr og segja um það, hvern hátt eigi að hafa á þessu. Í því sambandi vil ég ekki reyna að hafa áhrif á skoðun eins eða neins hv. alþm. Það verður hver að gera upp við sig, eftir því sem hann telur að fenginni reynslu.

Ég hef um það ákveðna sannfæringu, að það mundi verða til þess að draga úr drykkjuskap og koma þessu í skaplegra horf, ef í þessu yrði haft meira frelsi og meira tillit tekið til staðreyndanna heldur en verið hefur fram að þessu. Ég tek alveg undir ummæli hv. þm. Barð. um það, að það er enginn efi á því, að þessi miklu ofbönn, sem verið hafa í þessum efnum hér að undanförnu, — án þess þó að algert bann væri, sem einnig er óframkvæmanlegt, — þau horfa ekki til góðs, heldur skapa einungis spillingu og vandræði. Hitt skal ég játa, að ef um það væri að ræða, að hægt væri að hafa algert áfengisbann, og ef það væri framkvæmanlegt, þá fylgir svo mikið böl áfengisneyzlu, að það væri vissulega takandi til athugunar. En þessari leið er alls ekki að heilsa. Hún er engan veginn fyrir hendi.

Annað atriði, sem ég legg mikla áherzlu á, að Alþingi skeri nú úr á einn eða annan veg, er um afstöðuna til svo kallaðra héraðabanna. Um héraðabönnin voru sett lög 1943, en bætt var við viðbót um það, að þau ætti ekki að framkvæma, ef talið væri, að þetta kæmi í bága við samninga ríkisins við önnur lönd. Ég þori að fullyrða, að þá þegar hafi öllum alþm. verið ljóst, að þá voru engir slíkir samningar fyrir hendi. Ákvæðið var einungis sett vegna þeirrar tvöfeldni, sem er í þessum málum. Menn vilja setja upp fagrar samþykktir, en ætlast svo alls ekki til þess, að þeim sé framfylgt, og ætla svo að leggja þá byrði á stjórnarvöldin að standa í vegi fyrir þeim samþykktum, sem Alþingi hefur gert að nafninu til, en meinar ekkert með, enda er reynslan sú, að allar ríkisstj., sem verið hafa frá 1943, — og þær hafa verið skipaðar fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna í landinu, — hafa verið sammála um að láta þessi lög ekki koma í gildi. Ég tel miklu eðlilegra, að Alþingi hreinlega segi til um: Vill það leyfa héraðabönnin, eða vill það ekki leyfa héraðabönnin? Það er ósköp einföld atkvgr. að taka afstöðu til þess.

Að öðru leyti skal ég ekki fara að rekja hér einstakar brtt. eða einstök atriði. Um þau er það eins og annað, að sitt sýnist hverjum. Ég legg á það áherzlu, að ef menn ætla að samþ. ölbrugg, þá samþ. Alþingi ölbruggið sjálft, eftir atvikum með tilvísun til þjóðaratkvgr., en láti það ekki í vald ríkisstj. Það er miklu betra fyrir Alþingi sjálft að segja til um þetta, en skjóta sér ekki undir siðari ákvörðun ríkisstj. Ég hef ekki borið fram brtt. um þetta á þessu stigi, vegna þess að ég óska eftir því að sjá, hvernig atkvgr. um hina rökstuddu dagskrá fer og um þær brtt., sem nú eru þegar komnar við þessa grein. En ef frv. nær til 3. umr., eins og ég vonast eftir, þá mun ég flytja brtt., til þess að þetta atriði verði alveg ótvírætt. Ég tel það höfuðskyldu Alþingis í þessu efni að segja hreinlega til um vilja sinn, en vera ekki með fyrirmæli, sem annars vegar eru sannanlega óframkvæmanleg og hafa alltaf verið framkvæmd öðruvísi, en orðin standa til og fullar ástæður er hins vegar hægt að færa fyrir, að Alþingi ætlist ekki til, að séu framkvæmd. Slíka afstöðu Alþingis tel ég vera því ósamboðna. Og vegna þess að rökstudda dagskráin ætlast til að viðhalda þessu óhæfilega ástandi, þá vil ég mælast til þess, að menn felli rökstuddu dagskrána, en samþ. það í frv., sem hverjum um sig finnst vera eðlilegt til þess að draga úr hinu mikla drykkjuskaparböli, sem ég skal allra manna sízt gera of lítið úr né láta svo sem ég sé ekki við það hræddur, því að það er ég vissulega. En þó að ég sé um ýmis atriði áfengisbölsins ósammála þeim, sem halda, að því sé hægt að útrýma með bönnum og höftum, þá er það ekki vegna þess, að ég geri mér miður grein, en þeir fyrir því, hversu alvarlegt það er, heldur vegna þess, að ég tel, að reynslan sé þegar búin að sanna, að sú bannleið horfi til ófarnaðar, en ekki til góðs.