05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

33. mál, áfengislög

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á mestan hluta þess, sem hér hefur verið rætt um þetta mikla vandamál, og lært af því sitthvað, eins og vænta má. Mér þykir dálítið undarlegt, að það skuli vera lagt til að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá á þeim forsendum einum, að víss félagssamtök í landinu hafi ekki sérstaklega verið að spurð, og þá einkum að mér skilst Stórstúkan, þó að vitað sé, eins og hæstv. dómsmrh. upplýsti, að einhver mætasti maður og mesti áhrifamaður í áfengisbaráttunni, Brynleifur Tobíasson, sem hefur verið og er alltaf mjög framarlega í bindindisstarfseminni í landinu, hafi verið meðal þeirra, sem störfuðu að undirbúningi þessa frv. Mér virðist, að þetta mál sé nú það mikið vandamál, hvernig á að fara með sölu áfengra drykkja í landinu, að það verði vandfundin þau félagssamtök eða þeir menn, sem á nokkrum fundum í n. geta útbúið það frv. eða þær till. í þessu máli, sem allir væru ánægðir með sem lausn, og hvað þetta sérstaka frv. snertir, þá efast ég ekki um, að margt í því horfir til bóta. Það er að vísu tekið fram af hálfu meiri hl. þeirrar hv. n., sem hefur með málið að gera hér í hv. d., að ýmis nýmæli, sem frv. flytur, hafi ekki verið geðþekk þeim og að n. hafi orðið vör við mikla andstöðu gegn þessum nýmælum. En það er látið algerlega ósagt, hvaða nýmæli það eru, nema ég heyrði, að því skaut núna fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., að það væri t. d. það, að leyft væri eða gert væri ráð fyrir, að leyfa mætti öl með vissum styrkleika. Látum það gott heita að fella sig ekki við sum nýmæli, sem í frv. eru. Það er þá hægast að greiða atkv. á móti þeim atriðum, hirða þá það eitt, sem horfir til bóta, eða fara þá leið, sem tveir hv. dm. — og þrír þó með hv. frsm. 2. minni hl. — hafa valið sér, að bera fram brtt. til endurbóta á því, sem hv. dm. óska.

Ég heyrði það í ræðu hæstv. ráðh., að hann lagði mikla áherzlu á að fá skýrari línur í löggjöfina um þetta atriði. Það er ekki í fyrsta sinn, sem ég hef heyrt þann hæstv. ráðherra tala á þá leið, því að ég veit, að honum er það mjög mikið áhugamál að fá endurbætur á áfengislöggjöfinni, og að um endurbætur á ýmsum hlutum áfengislöggjafarinnar sé að ræða í þessu frv., geri ég ráð fyrir, að ekki verði mikill ágreiningur um hjá þeim, sem líta vilja á málið frá hlutlausu sjónarmiði.

Það var minnzt hér — ég held, að það hafi verið í ræðu hæstv. ráðh. — á héraðabönn, sem eins og nú er ástatt er varla hægt að koma fram samkv. núgildandi l. Ég veit, að það hefur vakið mikla óánægju einmitt í mínu kjördæmi, að neitað hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar að láta fara fram atkvgr. um það, hvort bæjarbúar þar, í Vestmannaeyjum, vildu hafa áfengisútsölu þar framvegis eða ekki. Það er ekki laust við, ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, — að margir álíti, að það sé einmitt dómsmrn., sem hafi þar staðið í vegi, þó að vitað sé, að það er ekki það eitt, heldur ríkisstj. öll, sem hér á hlut að máli, og í rauninni er höfuðgallinn, að núverandi löggjöf er svo óskýr í þessu efni. Ég ímynda mér þess vegna, að þeir hv. áhugamenn fyrir því að útiloka áfengið frá sölu í mínu kjördæmi mundu fagna því, að löggjöf væri sett, sem hefði skýrari og ákveðnari ákvæði um þetta efni, þannig að fólkið ætti kost á því að ráða því sjálft, hvort það vildi hafa útsöluna. Og með þessu frv., ef samþ. væri, væri greiðari leið að því að fara þessa sjálfsögðu og lýðræðislegu leið hvað þetta atriði snertir.

Það dylst engum, að undanfarið hafa verið uppi háværar raddir um óstand í áfengismálunum hjá þjóðinni, og af hálfu sumra blaða hér hefur verið svo að segja stanzlaus áróður gegn einni vissri stjórnardeild, dómsmrn., og dómsmrh. kennt um allt það, sem aflaga fer í framkvæmd áfengiseftirlitsins nú hjá þjóðinni. En þegar borið er hér fram frv. til umbóta á áfengislöggjöfinni, þá kemur meiri hl. þeirrar n., sem með þetta fer, og vill nú skjóta þessu enn á frest og kveðja marga aðila til nýrra ráðagerða, eins og hin rökstudda dagskrá ber með sér. Í framkvæmdinni mundi þetta þá þýða það, að öllum umbótum og lagfæringum á núverandi — að því er vitrustu menn segja í þessum efnum — óframkvæmanlegu áfengislöggjöf væri skotið á frest um óákveðinn tíma. Nú, það getur vel verið, að það sé einmitt keppikefli þeirra manna, sem vilja halda uppi af pólitískum ástæðum áframhaldandi áróðri og ásökunum í garð framkvæmdavaldsins í þessu efni. En þá tel ég, að ekki sé gengið að þessu verki af heilum hug, ef svo er stefnt.

Ég sagði áður í þessari ræðu, að hér væri um það mikið vandamál að ræða, að ég byggist ekki við, hvaða aðilar sem þar væru að verki, að það yrði lagt fram hér frv., sem allir segðu um: „Hér horfir allt til bóta,“ — og þannig frv., að allir væru ásáttir um það, enda er þess varla að vænta. En stig af stigi ætti þó að mega lagfæra hina helztu ágalla, sem nú eru á áfengislöggjöfinni, og það, sem ekki væri lagað í þessari atrennu, væri þá vegur að breyta aftur með nýjum breyt. og ef til vill nýrri allsherjar athugun, en sú allsherjar athugun getur fjarska vel farið fram, þó að stigin séu þau spor, sem til bóta horfa í bili. Í andróðri þeirra, sem talað hafa gegn frv., hef ég ekki orðið var við það, að þeir tækju munninn svo fullan að telja, að ekkert horfi til bóta í þessu frv., enda mun það vera víðs fjarri, því að hér er margt skýrara og ákveðnara í frv., heldur en til er í l. og þess vegna vissulega hægara að hafa myndarlega og holla framkvæmd á áfengiseftirlitinu, ef meginhluti þessa frv. næði fram að ganga.

Ég heyrði að því sjónarmiði skaut upp hjá hv. frsm. núna síðast, að þar sem í þessu frv. eða í brtt. væru gerðar tilraunir til að draga í sérstaka sjóði eða kroppa í áfengisgróða ríkisins, þá væri til athugunar, hvernig þá ætti að bæta það á annan veg. Ef á málið er litið frá því sjónarmiði að ríkið þurfi endilega að hafa áfengisgróðann í fullum mæli eins og hann hefur verið og er í dag, þá getur orðið fjarskalega erfitt að fá þá, sem þannig hugsa, inn á neinar þær umbætur, sem kynnu að draga úr neyzlunni, en þetta fannst mér vera orðin þungamiðjan hjá hv. frsm., sem hér talaði næst á undan mér.

Ég fyrir mitt leyti ætlast ekki til þess, að ég sé skoðaður neinn baráttumaður í áfengis- eða bindindismálum. En ég vil líta á hverja þá tilraun, sem gerð er til þess að hafa meiri siðmenningarbrag á þessum málum heldur en nú er, — sérhverja þá tilraun, sem miðar að því að taka af okkur það óhjákvæmilega óorð, sem á okkur fellur í þessu efni, t. d. í augum allra þeirra manna annars staðar frá, sem hér ferðast og hér koma, — allar þær tilraunir, sem miða í þá átt að bægja áfenginu frá unglingunum í þjóðfélaginu sérstaklega. Þessum tilraunum vil ég taka vel, og ég vil ekki verða til þess að tefja framgang einnar einustu umbótatillögu í þessu máli, sem ég álít að sé framkvæmanleg og horfi til bóta. Þess vegna greiði ég atkv. á móti þessari dagskrá, því að með henni, þó að það sé fært í þann fallega búning, að það þurfi að senda málið enn á milli Heródesar og Pílatusar, er stigið spor til að viðhalda enn þá því óstandi, sem er, og til að spyrna á móti þeim umbótum, sem í frv. kunna að felast.

Af því að sá hv. frsm. meiri hl., sem ég minntist á áðan, er nú kominn inn í d., vil ég endurtaka það, sem ég sagði hvað snerti nýmælin, sem hv. frsm. segir að séu illa séð, að það er hægðarleikur fyrir t. d. hv. meiri hl. n. og hv. d. að vera á móti þeim atriðum í þessum till., sem þeim ekki líka, þó að frv. sem heild sé ekki fært fyrir ætternisstapa. Af því álit ég að sé skylt, ekki einasta hv. meiri hl., heldur hverjum einasta þm., að gera þær umbætur í þessu vandamáli í bili, sem hægt er.

Í hinni skeleggu ræðu, sem hv. þm. Barð. hélt hér áðan, mátti fjölmargt sjá, sem er rétt athugað, og ekki hvað sízt var það sláandi röksemd frá hans hálfu, að óhófleg vínnautn kennara og leiðandi manna einmitt á opinberum stöðum, — ég er alveg sammála hv. þm. um það, — er miklu hættulegri, en þó að þeir yrðu fyrir þeirri hrösun að koma drukknir að starfi. Þegar um það er að ræða, að eftirbreytni geti haft skaðleg áhrif á óþroskaðar sálir, þá er það vissulega rétt, sem hv. þm. tók fram, að miklu hættulegust eru þau áhrif, sem stafa þannig út til unglinganna umflotin af geislabaugi veizlugleði og hátíðahalda.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég vildi gera grein fyrir afstöðu minni til hinnar rökstuddu dagskrár, sem mig satt að segja furðar að skuli hafa komið fram. Ég er algerlega á móti henni, af því að ég vil taka öllum umbótum, sem hægt er að fá á þessu máli í bili, og ég vil líka óska þess, að þeir áhugamenn, — hvort heldur þeir eru innan félagssamtaka eða annars staðar í landinu, — sem framhaldandi geta bent á enn meiri umbætur í þessu efni, geri það og að slíkar till. geti náð fram að ganga hjá löggjafarþinginu á sínum tíma. Þar sem áfengislöggjöfin er stórgölluð og eiginlega illframkvæmanleg eða óframkvæmanleg eins og hún er, þá er vissulega nauðsynlegt að gera umbætur þær, sem hér liggja fyrir. Ég á þar ekki sérstaklega við hið svo kallaða nýmæli um ölið. Ég er ekki að tala um það. Það geta allir greitt atkvæði á móti því, sem vilja, og svo framvegis. En ákvæði l. um héraðabönn og því um líkt, sem hér er um að ræða, eru nauðsynleg og eiga það ekki skilið, að þeim sé hafnað, eins og nú er ástatt í áfengismálum hjá þjóðinni yfirleitt.