08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

33. mál, áfengislög

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til meðferðar á síðasta fundi, þá varð ég til þess að benda á það, að mér virtist nokkuð undarleg sú afstaða, sem hv. þm. Barð., sá ágæti bindindismaður, hefði tekið til þessa máls í ýmsum atriðum, og m. a. það, að ég taldi, að hann í brtt., sem hann flytur hér á þskj. 111, hafi gerzt talsmaður þess, að hafin verði bruggun og sala á sterku öll til almennings hér í landi. Hv. þm. tók þetta nokkuð illa upp og flutti á eftir nokkuð hvassyrta ræðu, sem ég ætla nú alls ekki að fara að svara í öllum atriðum. En þó að mér þyki leiðinlegt að þurfa aðallega að standa hér í karpi við þennan ágæta bindindismann um það mál, sem hér liggur fyrir, þá get ég samt sem áður ekki látið ósvarað nokkrum atriðum, sem fram komu í þessari síðari ræðu hans.

Hv. þm. vildi ekki kannast við það, að það væri nokkuð nýtt í þessari brtt. hans við 7. gr. frv. Hún fæli ekki í sér neitt nýtt varðandi þetta sterka öl. Það væri aðeins tekið upp í hana það, sem um það hefði verið samþ. og sett í lög á síðasta þingi, og það, sem ég hefði um afstöðu hans í þessu máli sagt, væri þess vegna, eins og hann orðaði það, bara falsrök. Það er nú svo, að þessum hv. þm. hættir nú stundum við að viðhafa dálítið stór orð, en ég held, að þegar allir hv. þdm. og allir þm. hafa í höndum prentað þskj., þar sem þetta liggur alveg ljóst fyrir, svart á hvítu, þá sé tilgangslaust fyrir hv. þm. að neita því, sem þar stendur. Það er að vísu rétt, að það, sem hann tekur upp í upphafi brtt. sinnar við 7. gr. frv., um það, að ríkisstj. skuli heimilt að leyfa tilbúning öls, sem hefur inni að halda meira en 2¼% af vínanda að rúmmáli, er tekið upp úr l. sem samþ. voru um þetta efni á síðasta þingi. En það var ekki heldur aðeins það, sem ég var að tala um, heldur hitt, sem er í framhaldi af þessu í sömu brtt., að áður en leyft sé að selja slíkt öl innanlands til annarra, en hins erlenda varnarliðs, skuli ríkisstj. bera það undir atkv. allra kosningabærra manna í landinu til samþykkis eða synjunar o. s. frv. og það þurfi meiri hluta greiddra atkv. til þess, að slík ákvörðun fái þá endanlegt gildi. Með þessu er ekki aðeins tekið upp það, sem samþykkt var í lögum um þetta efni á síðasta þingi, heldur er hér tekið upp úr frv., sem hér liggur fyrir, það nýmæli, að það skuli leyft að brugga sterkt öl og ekki aðeins til að selja erlenda setuliðinu, eins og lögin frá í fyrra fela í sér, heldur skuli það líka selt almenningi hér á landi, ef það fæst fyrir því samþykki við almenna þjóðaratkvgr. M. ö. o., Alþ. er hér fyrir sitt leyti að taka ákvörðun um það, að þetta skuli gert, það skuli bruggað sterkt öl og selt almenningi í landinu — samkv. þessari till. hv. þm. Barð. líka — ef meiri hluti þjóðarinnar fæst til þess að samþykkja það, og það kom alveg glögglega fram í ræðu hv. þm., að hann gerði fyllilega ráð fyrir því, að þetta næði samþykki þjóðarinnar og að þetta yrði framkvæmt, því að hann var hér með útreikning um það, hversu miklar tekjur ríkissjóður mundi geta fengið af því, ef þetta yrði gert. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir, ekki aðeins samkv. frv. af hendi mþn., heldur er það einnig tekið upp í þessa till. hv. þm. Barð., þess ágæta bindindismanns, að þessi leið skuli farin, og m. a. virðist vaka fyrir honum, að þetta sé gert til þess að afla ríkissjóði nýrra tekna af sölu áfengis, þ. e. a. s. af sölu þessa sterka öls, sem hlýtur að heyra þá undir áfengi eða áfengissölu.

Hv. þm. sagði, að í þessari till. sinni fælist ekkert annað en það, að þjóðin ætti bara að skera úr um þetta sjálf, og þess vegna væri sjálfsagt af Alþ. samþ. þetta fyrir sitt leyti. Það er náttúrlega ágætt eða að minnsta kosti getur verið gott í veigamiklum atriðum að leita til þjóðarinnar og láta hana skera úr um málin. Það hefur þó ekki alltaf verið mikill byr fyrir því samt sem áður hér á Alþ., og það ekki þegar um enn veigameiri mál hefur þó verið að ræða heldur en þetta, þó að þetta sé að vísu veigamikið mál. Oft heyrir maður nú talað um það, að þm. séu kosnir til þess að vera forsjá þjóðarinnar. og m. a. talar þessi hv. þm. mikið um það og hefur gert einnig í sambandi við þetta mál, að þm. eigi ekki að skjóta sér undan ábyrgðinni, heldur eigi þeir að afgreiða málin á þá lund, sem þeir telji heppilegast. Og þetta er þá einn þátturinn í því, sem hv. þm. Barð. virðist nú telja heppilegast í áfengismálunum. En hvað sem því líður nú samt sem áður, þá er ekki hægt að neita því, að ef þessi till. verður hér samþ., þá hefur hv. þm. Barð. átt þátt í því og meira að segja átt að því visst frumkvæði að fá Alþ. til þess að taka fyrir sitt leyti ákvörðun um það að láta brugga þetta sterka öl og selja það almenningi í landinu, og það þykir mér sem sagt skjóta nokkuð skökku við þær skoðanir, sem ég hef talið að hv. þm. Barð. hefði yfirleitt á áfengismálunum í landinu.

En við þetta bætist svo hitt, að auk þess sem hann þannig, að því er mér virðist, gerist talsmaður þess að koma á sölu á þessu sterka öli, þá leggur hann einnig til í brtt. sinni við 10. gr. frv., þ. e. 7. brtt. á þskj. 111, að áfengisútsölum verði fjölgað eða að minnsta kosti að sköpuð verði skilyrði til þess, að áfengisútsölum geti orðið mjög fjölgað frá því, sem nú er. Og mér virðist, að hann gangi í sinni brtt. þar jafnvel enn þá lengra, en jafnvel gert er í frv., þó að einnig þar sé rýmkað nokkuð til frá því, sem er í gildandi lögum, því að hv. þm. Barð. gerir ráð fyrir því, að áfengisútsölur sé hægt að setja á stofn svo að segja hvar sem er á landinu, ekki aðeins í kaupstöðum, heldur einnig í sýslufélögum hvar sem er á landinu, og það þykir mér enn skjóta nokkuð skökku við það, sem ég hafði búizt við af hendi þessa hv. þm. Hann svaraði því einu til um þetta atriði, að þetta væri hreint réttlætismál, — það væri hreint réttlætismál að gefa öllum landsmönnum kost á því að eiga sem auðveldast með, að manni virðist, að ná í þessa áfengu drykki, sem ríkið hefur á boðstólum, bæði það, sem það nú hefur, og ef þar við bættist svo þetta sterka öl, sem nú virðist vera ákaflega mikill áhugi fyrir að koma einnig á markaðinn. Það mætti náttúrlega segja það, ef áfengi væri alveg bráðnauðsynleg vara, svo að mönnum væri svo að segja lífsnauðsyn að geta náð í það með sem allra auðveldustum hætti, að þá væri það réttlætismál að hafa útsölurnar sem allra viðast, en ég er nú ekki á þeirri skoðun, og ég hélt, að hv. þm. Barð. mundi ekki heldur vera á þeirri skoðun og hefði þess vegna ekki ástæðu til þess að ganga fram fyrir skjöldu í þessu réttlætismáli. — Enn fremur var hann að tala um það í sambandi við þetta, að þetta fyrirkomulag væri líka til styrktar bindindismönnum í landinu. Hann sagðist hafa fært fyrir því rök í fyrstu ræðu sinni, eða þeim kafla hennar, sem ég hlustaði ekki á, og sagðist ekki nenna að vera að endurtaka þau. Mér þykir slæmt, að hann skyldi ekki gera það, því að mér er ekki ljóst, hvaða rök liggja til þess, að bindindismenn hafi sérstakan hag af því eða að það sé þeim til styrktar, að áfengisútsölur séu sem allra viðast. Meðan ég ekki heyri þau rök sérstaklega, þá skilst mér nú, að það muni þá helzt vera á þann hátt, að því meira sem selst af áfenginu, og það er kannske von til þess, að það seljist því meira af því, sem útsölur eru á fleiri stöðum, þá fái bindindismenn, þ. e. a. s. Góðtemplarareglan, hærri styrk til sinnar starfsemi, vegna þess að því er nú svo vísdómslega fyrir komið, og það held ég fyrir forgöngu hæstv. dómsmrh., að bindindismennirnir, eða Góðtemplarareglan, eru eins og nú er komið eiginlega ráðnir upp á ágóðahlut hjá áfengissölu ríkisins, þar sem þeir fá í styrk prósentur af hagnaði Áfengisverzlunarinnar. Það er kannske þetta, sem hv. þm. á við, þegar hann talar um, að það sé til styrktar bindindismönnum í landinu að hafa útsölustaði áfengis sem allra víðast. En þá skýtur það nú aftur skökku við þá skoðun, sem hann hefur í öðru sambandi haldið hér fram og þ. á m. í máli, sem var til meðferðar hér í hv. deild nú fyrir mjög skömmu, þ. e. a. s. frv. hæstv. menntmrh. um það að ákveða tekjustofn menningarsjóðs sem prósenttölu af ágóða Áfengisverzlunarinnar. Hv. þm. Barð. andmælti þessu frv. og þessari aðferð og hafði um það orð eitthvað á þá leið, að það væri til svívirðingar að binda menningarstarfsemi í landinu við tekjur af Áfengisverzluninni, og ég er honum sammála um það og álít, að hann ætti þess vegna ekki að vera að tala um það heldur í þessu sambandi, að það sé einhver sérstakur og vel þeginn styrkur við bindindismenn í landinu að fjölga áfengisútsölustöðum, ef það er gert með tilliti til þess. að það kunni að seljast það miklu meira af áfengi, að styrkur til þeirra hækki af þeim sökum.

Svo er það í þriðja lagi atriði, sem ég fór ekki inn á í fyrri ræðu minni um þetta, en gegnir um sama máli og þau tvö, sem ég nú hef nefnt, að samkvæmt brtt. hv. þm. Barð. er enn til viðbótar við þetta, sem ég nú hef nefnt, till. um að skapa möguleika til þess, að vínveitingastaðir verði ekki aðeins fleiri en nú er, eins og gert er ráð fyrir í frv. mþn., heldur enn þá fleiri en þar er gert ráð fyrir, eða svo margir sem hæstv. ríkisstj. bara kynni að þóknast á hverjum tíma, því að í brtt. hv. þm. við 12. gr., sem fjallar um þetta efni, orðar hann þetta þannig, að þegar leyft hefur verið að setja á stofn útsölu á þann hátt, sem fyrir er mælt í 10. gr. þessara laga, ákveði ríkisstj. tölu og staðsetningu útsölu- og veitingastaða í viðkomandi landshlutum, og síðan eru að vísu sett nokkur skilyrði fyrir því, hvað þessir staðir þurfi að uppfylla, en aðalreglan er sú, að það megi setja þá á stofn hvar sem hæstv. ríkisstj. kann að þóknast, ef hún getur fundið til þess stað, sem hún sjálf telur að uppfylli þau skilyrði, sem hún vill fyrir því setja.

Allar þessar till. hv. þm. Barð. tel ég að séu alveg í ósamræmi við þær skoðanir, sem hann hefur áður túlkað, og í andstöðu við þá bindindissemi, sem hann sjálfur rækir og hefur áður verið talsmaður fyrir, og af þeim sökum furðar míg alveg, að þær skuli vera fluttar einmitt af honum, en þá ekki einhverjum öðrum, sem aðra afstöðu hafa til áfengismálanna yfirleitt.

Síðan var hv. þm. að tala um það, að með þessum till. væri hann og þeir aðrir, sem vildu veita þeim brautargengi, að vinna að því, að frv. færi út úr deildinni sem betra mál en núverandi áfengislöggjöf. Ég held, að það sé alger misskilningur, ef þessar brtt. verða samþ., að þá fari þetta frv. út úr deildinni sem betra mál heldur en núverandi áfengislöggjöf er, frá sjónarmiði bindindismanna í landinu. Ég held þvert á móti, að það mundi verða betur þegið og litið á það sem betra mál af hálfu þeirra, sem vilja hafa sem allra rýmst um áfengissöluna og að menn geti haft sem allra greiðastan aðgang að því að ná sér í áfengi og þá einnig sem allra fjölbreyttast, þ. á m. að við verði bætt þessu sterka öli, sem hér er nú svo mikið rætt um, því að ég hef að minnsta kosti ekki getað komizt að raun um það, að í þessu frv. sé nokkurt ákvæði. sem máli skiptir, til frekari hömlunar því heldur en er í núverandi áfengislöggjöf, að menn geti náð í áfengi og að áfengisofnautn eigi sér stað í landinu. Ég held, að það sé ekkert ákvæði, sem máli skiptir í frv., sem gengur í þessa átt og gerir það að betra máli heldur en núverandi áfengislöggjöf. Hins vegar eru aftur í frv. — og þá einnig í brtt. hv. þm. Barð. veigamikil ákvæði til rýmkunar í þessum efnum, eins og ég þegar er búinn að ræða um. Þar er, eins og ég segi, sterka ölið, fleiri útsölur og fleiri veitingastaðir. Öll þessi atriði eru að mínu áliti til hins verra frá því, sem er í núverandi áfengislöggjöf, en sízt af öllu til þess að bæta eða skapa skilyrði til þess að bæta ástandið frá því, sem nú er. Og það furðar mig alveg sérstaklega, eins og ég er búinn að margtaka fram, að hv. þm. Barð., eins ágætur bindindismaður og hann er, skuli finnast þetta vera ráðið til þess að „bjarga þjóðinni andlega, líkamlega og siðferðislega“, eins og hann komst að orði í síðustu ræðu sinni í þessu máli. Mér finnst þetta vera slík öfugmæli, að eiginlega megi heita ótrúlegt, að þau skuli koma frá einum af talsmönnum bindindishreyfingarinnar. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þm. að hugleiða þessar till. betur og jafnvel að endurskoða afstöðu sína í þessu máli, og mér sýnist, að það séu ný rök til viðbótar því, sem ég hef áður nefnt um þörfina á því, að þetta mál í heild sé endurskoðað nánar, en gert hefur verið og í öðrum tilgangi en sú endurskoðun sjáanlega hefur verið, sem nú hefur verið framkvæmd, því að það er alveg augljóst og verður því ljósara, sem maður hugleiðir þetta mál meira, að hún hefur verið framkvæmd fyrst og fremst út frá hagsmunasjónarmiðum ríkissjóðsins, ekki með það fyrir augum að koma áfengismálunum fyrst og fremst í það horf, að dregið yrði úr áfengisneyzlu í landinu, heldur alveg það gagnstæða. Skýrasti vitnisburðurinn um það er einmitt það kapp, sem lagt er á það að útvíkka heimildina til bruggunar og sölu áfengs öls frá því, sem samþ. var hér á þinginu í fyrra, og koma henni í það horf, sem til er ætlazt með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil þess vegna enn þá að lokum skjóta því alveg sérstaklega til hv. þm. Barð. að endurskoða sínar till. í þessu efni, og ég vil vonast til þess, að hann geti við nánari yfirvegun komizt að svipaðri niðurstöðu og meiri hl. hv. allshn. hefur gert um það, að með samþykkt þessa frv. sé áfengismálunum ekki komið í æskilegra horf heldur en þau nú eru og þess vegna sé betra að kveðja til aðra aðila til þess að endurskoða áfengislöggjöfina í heild og að þingmenn geti þá á næsta þingi verið við því búnir að taka endanlega afstöðu til málsins og koma því í skynsamlegra og betra horf heldur en mundi verða með afgreiðslu þessa frv., sem nú liggur fyrir.